BS í viðskiptafræði

Markmiðið með viðskiptanámi frá Háskólanum á Bifröst er að nemendur efli sig og þrói til starfa í atvinnulífinu þannig að þeir geti nýtt frumkvæði sitt og sjálfstæði til aukinna ábyrgðarstarfa. Námið miðar að því að nemendur afli sér þekkingar og færni á sviði viðskipta auk þess að vinna að raunverulegum verkefnum.

Háskólinn á Bifröst leggur áherslu á að mennta ábyrga stjórnendur sem eru færir um að sýna forystu og taka vel ígrundaðar ákvarðanir. Í þessu samhengi er viðskiptasviðið í nánu samstarfi við Þekkingarsetur um þjónandi forystu. Grunnnám í viðskiptafræði við Háskólann á Bifröst er alhliða viðskiptanám sem ætlað er að búa nemendur undir ábyrgðar-, forystu- og stjórnunarstörf í atvinnulífi og samfélagi. Námið samanstendur af almennum viðskiptafræðigreinum eins og fjármálum, reikningshaldi, stjórnun og markaðsfræði.

Bifröst reyndist mér afar vel. Það sem stóð upp úr voru verkefni tengd atvinnulífinu og nálægð við atvinnulífið sem gerði skólann að framúrskarandi menntastofnun í mínum huga

- Ólafur Gylfason,
framkvæmdastjóri markaðssviðs Össurar

Kennsluhættir miðast við að mæta nútímaþörfum nemenda þar sem lögð er áhersla á persónulega kennslu og þjónustu. Jafnframt að nemendur fái að vinna krefjandi og spennandi verkefni um leið og námsefnið er krufið til mergjar. Góð viðskiptafræðimenntun er eins og önnur háskólamenntun fræðileg í eðli sínu og felur í sér skilning á fræðilegri greiningu og kenningum og hæfni til að vinna með þær. Þverfagleg nálgun miðar að því að efla gagnrýna og skapandi hugsun, atvinnulífi og samfélagi til góða.

 Eftirfarandi námsbrautir eru í boði:

Í náminu eru sumarannir, auk hefðbundinna haust- og voranna, sem þýðir að nemendur geta lokið náminu á tveimur og hálfu ári. Öflugur fjarnámsbúnaður gerir nemendum kleift að stunda fjarnám í viðskiptafræði hvar sem er. Fyrirlestrar eru aðgengilegir á vef skólans og geta nemendur nálgast þá þegar þeim hentar.

Umsóknarfrestur er 15. júní fyrir haustönn og 10. desember fyrir vorönn. 

Nám á Bifröst

Verkefnavinna er stór þáttur námsmats og vinna nemendur að verkefnum jafnt og þétt yfir hverja lotu. Verkefni vega yfirleitt yfir 40% af lokaeinkunn. Þannig tileinka nemendur sér námsefnið jafnt og þétt yfir lotuna.

Í öllu námi á Bifröst er lögð rík áhersla á að nemendur geti annars vegar unnið sjálfstætt að úrlausn krefjandi verkefna og hins vegar unnið í hópi samnemenda að rannsóknum og úrlausn stærri verkefna, kynnt þau og lagt í dóm kennara og samnemenda. Lögð er áhersla á gagnrýna hugsun og hagnýta tengingu við raunhæf verkefni sem eru fleiri og umfangsmeiri en almennt gerist við háskóla hér á landi. Sérstaða í kennsluháttum Bifrastar felst meðal annars í svokölluðum misserisverkefnum sem unnin eru í 4-6 manna hópum. Nemendur eiga að vinna tvö slík verkefni í náminu, verkefnin eru að lokum varin fyrir dómnefnd tveggja kennara ásamt hópi nemenda.

Námið fer fram í lotubundinni kennslu. Þannig leggja kennarar inn hljóðfyrirlestra reglulega til að miðla kennsluefni til nemenda. Nemendur á Bifröst fá þannig tækifæri til að lesa og fara yfir innlagnarefnið tímanlega til að undirbúa sig fyrir vikulega verkefna- og umræðutíma með kennara. Gert er ráð fyrir að nemendur taki virkan þátt í samræðum í verkefna- og umræðutímum.

Námskrá BS í viðskiptafræði

Námskrá inniheldur upplýsingar um skipulag náms, kennsluaðferðir og námskeiðslýsingar ásamt lýsingu á þeirri þekkingu, leikni og hæfni sem nemendur eiga að búa yfir að námi loknu.

Hér má finna skipulag námsins í kennsluskrá skólans.

Hér má nálgast námskrá fyrir BS í viðskiptafræði, sem gildir 2019-2020