MS-MMM í markaðsfræði

Meistaranám í markaðsfræðum við Háskólann á Bifröst er 90 ECTS eininga nám sem hægt er að ljúka með MS gráðu og einnig MMM (Master of Marketing Management) gráðu.

MS gráða er 90 eininga meistaranám þar sem nemendur ljúka 10 námskeiðum (60 ECTS einingar) og MS ritgerð (30 ECTS einingar).

MMM gráða er 90 eininga viðbótarnám á meistarastigi án lokaritgerðar. Nemendur ljúka 15 námskeiðum (90 ECTS einingar).

í næstum tvo áratugi hefur BS markaðsfræðinám á Bifröst verið í sérflokki á Íslandi með fjölbreyttu úrvali markaðsfræðiáfanga. Samhliða aukinni eftirspurn eftir meistaranámi við viðskiptadeild hefur meistaranám í markaðsfræðum verið í boði frá hausti 2017. Námið er ætlað þeim sem starfa eða hafa hug á að starfa við markaðsmál og hafa þegar reynslu af markaðs- og sölumálum en vilja dýpka þekkingu sína á fjölbreyttri flóru markaðsfræðinnar.

Í öllu námi Háskólans á Bifröst er lögð áhersla á hagnýtt nám og meistaranám í markaðsfræðum veitir nemendum haldgóða og nauðsynlega þekkingu fyrir starfsumhverfi markaðsstjóra. Meistaranám í markaðsfræðum er heildstætt nám sem inniheldur víðtæk námskeið, allt frá markaðslegri stefnumótun til stafrænna markaðssamskipta en slík kunnátta og þekking er sífellt mikilvægari í þjónustu og samskiptum við neytendur. Nemendur geta valið að skrifa lokaritgerð (MS  eða sækja 5 valnámskeið (MMM gráða).

Námið er kennt í fjarnámi en Háskólinn á Bifröst hefur áralanga reynslu í háskólakennslu í fjarnámi bæði í grunnnámi og í meistaranámi. Skipulag fjarnámsins er þannig að fyrirlestrar og kennsluefni í hverju námskeiði er aðgengilegt nemendum á fjarnámsvef háskólans og nemendur geta þannig skipulagt tíma sinn eins og þeim hentar best. Í hverju námskeiði er vinnuhelgi þar sem nemendur hittast ásamt kennara á Bifröst. Nemendur fá gistingu á staðnum en öll aðstaða og aðbúnaður nemenda er til fyrirmyndar. Fjarnámsloturnar eru kenndar á tímabilinu september til maí. Námið hefst með vinnulotu í lok ágúst á Bifröst til að efla tengsl nemenda og kennara og kynna námskeiðin vel fyrir nemendum og þau verkefni sem eru framundan.

Fjarnám

Hvert námskeið í fjarnámi er allajafna kennt í 7 vikna lotum (tvö námskeið eru kennd yfir tvær lotur) og í hverju námskeiði er ein vinnuhelgi á Bifröst. Í öllum námskeiðum liggja fyrir ákveðin þekkingar-, leikni- og hæfnimarkmið. Í hverri viku birtir kennari fjarfyrirlestra þar sem m.a. er fjallað um efni vikunnar og verkefni eru kynnt og útskýrð. Lögð eru fyrir verkefni jafnt og þétt sem þjálfa nemendur í að öðlast þá leikni og hæfni sem að er stefnt í hverju námskeiði fyrir sig. Á vinnuhelgum fer síðan fram verkefnavinna og umræður með kennara. Gert er ráð fyrir talsverðri verkefnavinnu í hverju námskeiði og lögð er áhersla á hópa- og teymisvinnu í verkefnum.

Inntökuskilyrði

Inntökuskilyrði í meistaranám í viðskiptafræði er grunnnámsgráða á háskólastigi eða menntun sem telja má sambærilega við grunngráðu í háskóla. Leitað er að fjölbreyttum hópi  umsækjenda með mismunandi menntun og starfsreynslu. Sú dýrmæta reynsla sem nemendur öðlast af því að læra og vinna með fjölbreyttum hópi nemenda með mismunandi bakgrunn er ómetanleg. Nemendahópurinn á það sameiginlegt að vilja öðlast framúrskarandi þekkingu, þjálfun og undirbúning fyrir stjórnunarstörf nútímans.

Hér má finna skipulag MS námsins í kennsluskrá

Hér má finna skipulag MMM námsins í kennsluskrá

Umsóknarfrestur er til 31. maí nk.