Diplóma í viðskiptafræði og verslunarstjórnun

Tveggja ára nám með vinnu

Diplómanám í viðskiptafræði og verslunarstjórnun er starfstengt fagháskólanám fyrir verslunarstjóra og einstaklinga með víðtæka reynslu af verslunarstörfum.

Styrkur námsins liggur bæði í virku samstarfi við atvinnulífið og í samstarfi tveggja háskóla um þróun þess og kennslu.

Námið er metið til eininga í áframhaldandi námi í viðskiptafræði til BS gráðu, bæði við Háskólann á Bifröst og Háskólann í Reykjavík. Nemendur sem útskrifast með diplómagráðu í verslunarstjórnun munu því geta haldið áfram námi til BS gráðu í viðskiptafræði kjósi þeir það. Háskólarnir meta gagnkvæmt háskólaeiningar (ECTS) innan verkefnisins, óháð því hvor skólinn kennir einstök námskeið.

Námið, sem er 60 ECTS einingar, tekur mið af ofangreindum starfsþáttum. Það er kennt með vinnu og tekur tvö ár í dreifnámi. Námið byggir að hluta á áföngum sem nú þegar eru kenndir til BS gráðu í viðskiptafræðum við Háskólann á Bifröst og Háskólann í Reykjavík. Að hluta er um nýja áfanga að ræða, sérstaklega þróaða með sérþarfir verslunarinnar í huga og með þátttöku lykilfyrirtækja í greininni.

Til að ljúka náminu á tveimur árum er gert ráð fyrir því að nemandi taki þrjá áfanga á önn. Heimilt er að taka námið á lengri tíma eða al að fjórum árum, en fyrstu þrjár annir skal nemandi þó að lágmarki taka einn sameiginlegan skylduáfanga; birgða-, vöru- og rekstrarstjórnun, kaupmennsku eða verslunarrekstrarrétt.


Umsóknir og inntökuskilyrði

Almenn inntökuskilyrði er stúdentspróf eða sambærilegt nám. Reynsla af verslunarstjórnun eða víðtæk starfsreynsla á sviði verslunar er skilyrði.

Einstaklingar sem uppfylla almenn inntökuskilyrði en skortir grunnþekkingu í stærðfræði, íslensku og ensku þurfa að hafa lokið undirbúningsnámi í þessum greinum áður en þeir hefja nám. Æskilegt er að nemandi búi yfir hæfni sem samsvarar:

 • 3. hæfniþrepi í stærðfræði, einkum á sviði algebru, falla, tölfræði og líkindafræði.
 • 3. hæfniþrepi í íslensku, einkum hvað varðar tjáningu í ræðu og riti.
 • 3. hæfniþrepi í ensku, einkum í lestri fræðitexta.

Skólagjöld eru samkvæmt gjaldskrá grunnnáms en hana er að finna hér.

Starfsmenntasjóður verslunar- og skrifstofufólks ásamt Starfsmenntasjóði verslunarinnar, SVS og SV, niðurgreiða og styrkja skólagjöld félagsmanna í VR/LÍV, að því gefnu að fyrirtæki og einstaklingur sæki um saman og eigi rétt á hámarksstyrk.

Hér má finna skipulag námsins í kennsluskrá skólans.

Þeim einstaklingum, sem ekki hafa lokið undirbúningsnámi í áðurnefndum greinum, er bent á að skoða Fagnám verslunar- og þjónustu hjá Verzlunarskóla Íslands.

Uppbygging námsins

Sameiginlegir skylduáfangar (18 ECTS einingar) í verslunarstjórnun eru:
 • Birgða-, vöru og rekstrarstjórnun 
 • Kaupmennska
 • Verslunarrréttur

Gert er ráð fyrir að verkefni í þessum áföngum séu að verulegu leyti unnin út frá starfi og fyrirtæki nemandans og að nám hans geti þannig gagnast því fyrirtæki sem hann starfar hjá.

Skylduáfangar eru kenndir í dreifnámi (blöndu af stað- og fjarnámi) og stendur hver áfangi yfir í tólf vikur. Kennsla samanstendur af fyrirlestrum, umræðutímum og verkefnavinnu, bæði í fjárnámi og á þremur vinnuhelgum, en einnig eru gestafyrirlestrar og vinnustofur hluti námsins. Áfanginn hefst með tveggja daga vinnulotu á Bifröst frá föstudegi yfir á laugardag en síðari tvær vinnuloturnar eru í Háskólanum í Reykjavík.

Grunnáfangar (30 ECTS einingar) í viðskiptafræði

Að auki taka nemendur fimm grunnáfanga í viðskiptafræði í bundnu vali í báðum háskólunum, í fjarnámi hjá Bifröst eða í staðnámi hjá HR samkvæmt skipulagi hvors háskóla um sig. Miðað er við að nemandi taki tvo slíka áfanga á önn en heimilt er að ráða námshraða sínum hvað grunnáfanga varðar. Grunnáfangar eru:

 • Rekstrarhagfræði                                                                               
 • Mannauðsstjórnun                             
 • Þjónustustjórnun                                 
 • Reikningshald         

Valáfangi (6 ECTS) í viðskiptafræði

Einnig velja nemendur einn af neðangreindum áföngum sem valfag:

 • Markaðsfræði
 • Stjórnun                                          
 • Rekstrarstjórnun/breytingastjórnun       
 • Gæðastjórnun/gæðamál og þjónusta     
 • Vörumerkjastjórnun                                  
 • Stafræn markaðssetning                           
 • Vinnusálfræði                                              
 • Neytendahegðun                                       

Lokaverkefni (6 ECTS)

Lokaverkefni getur  verið einstaklingsverkefni eða hópverkefni, fer eftir vali nemanda. Lokaverkefni er unnið í samstarfi við fyrirtæki í verslun í samstarfi við umsjónarkennara.

Umsóknarfrestur er 15. júní fyrir haustönn og 10. desember fyrir vorönn

SÆKJA UM