Stafræn fatahönnun

Markmið námsins er að nemendur geti nýtt aðferðir stafrænnar fatahönnunar til að koma hugmyndum sínum um tísku í framkvæmd. Þeir læra um hönnun, stafræna sníðagerð, undirbúning fyrir framleiðslu og stíliseringu. Að loknu námi hafa nemendur góðan grunn í fatahönnunar aðferðum með stafrænni tækni. Námsleiðin verður val fyrir BA nemendur í Skapandi greinum.

Þeir sem ættu að hafa áhuga á námskeiði eins og þessu eru t.d útskrifaðar fatahönnuðir, bæði þeir sem eru á vinnumarkaði og þeir sem vilja endurmenntun til að styrkja stöðu sína á atvinnumarkaði. Námið gæti einnig höfðað til klæðskera sem eru í námi og vilja tileinka sér nýjustu aðferðir. Eins þeir sem hafa lokið námi í framhaldsskóla úr fatahönnun, tölvuleikjagerð, iðnnámi eða listnámi og huga að frekara hönnunarnámi.  Boðið verður tveggja klukkustunda Teams fund einu sinni í viku þar sem stjórnandi námsleiðarinnar leiðbeinir nemendum og aðstoðar í verkefnum.

Stjórnandi námsleiðarinnar er Björg Ingadóttir hjá Spaksmannspjörum, einn fremsti fatahönnuður hér á landi. 

Vinnuálag í ECTS einingum og dreifing vinnuálags

Námið er samtals 12 ECTS eininga fjarnám og samanstendur af fjórum námskeiðum sem eru 3 ECTS einingar hvert. Hvert námskeið er kennt í sex vikna lotu. Þátttakendur geta því búist við að verja um 12-15 klst. á viku í námið. 

Aðgangsviðmið

Stúdentspróf, aðfaranám að háskóla eða annað lokapróf af hæfniþrepi 3. Þeir sem ekki uppfylla aðgangsviðmið geta setið námskeiðin án þess að taka þau til eininga. 

Hæfnis- og lærdómsviðmið

Í námsleiðinni munu þátttakendur læra byltingakenndar aðferðir í stafrænni fatahönnun. Þeir munu læra að nota öflugt hönnunar forrit til að hanna flíkur stafrænt í þrívídd. Farið verður yfir ferlið frá því hugmynd að flík vaknar og þar til flíkin er fullunnin. Þátttakendur munu þróa þá færni sem er nauðsynleg til að sníða sýndarflíkur, líkja eftir saumaferli og hanna frumgerðir að flíkum. Unnið er með færni sem þarf til að undirbúa hönnun fyrir framleiðslu, tryggja nákvæmni sniða, skilvirkan skurð efna og straumlínulagað framleiðsluferli. Skoðaðir verða nýjir straumar í stafrænni tísku og áhrif þeirra á greinina. Þátttakendur læra meginreglur stílíseringar og hvernig á að setja hönnun sína fram á sannfærandi sjónrænan hátt. 

Sjá nánar í námskeiðslýsingu

Námsmat

Áhersla er á verkefnadrifið námsmat þar sem þátttakendur vinna raunhæf verkefni. Þeir fá leiðbeinandi endurgjöf á verkefnin sín.

Að loknu námi

Nemandi sem lýkur námsinu fær staðfestingu á námslokum með upplýsingum um fjölda ECTS eininga. Hann fær einnig námsferilsyfirlit með upplýsingum um skipulag örnámsins og skírteinisviðauka.

Námsleiðin leiðir ekki að prófgráðu, en einingarnar fast metnar í grunnnám Félagsvísindadeildar Háskólans á Bifröst.

Nemandi sem lýkur stökum námskeiðum til ECTS eininga, en ekki fullri námsleið fær námsferilsyfirlit yfir lokin námskeið.

Nemandi sem lýkur ekki ECTS einingum fær ekki staðfestingu á námslokum, en þeir geta fengið staðfestingu á skráningu.

Dagasetningar námskeiða

08. janúar til 23. febrúar 2024
Grunnnámskeið í stafrænni fatahönnun
29. febrúar til 19. apríl 2024
Hönnun og frumgerðir
Lota 1 á haustönn 2024, frá miðjum ágúst til loka september
Undirbúningur fyrir framleiðslu
Lota 2 á haustönn 2024, frá miðjum október til loka nóvemer
Stílfærsla á stafrænum fatnaði og fagurfræðileg kynning

Námskeiðsgjöld

Verð fyrir námsleiðina er 210.000 kr. Sjálfgefið er að greitt er með greiðslukorti, en þeir sem vilja greiðsludreifingu eða greiða með öðrum hætti geta haft samband við innheimtufulltrúa á netfangið innheimta@bifrost.is. 

Þátttakendur sem þegar eru í námi við skólann greiða í samræmi við heildareiningafjölda. 

Þátttakendur þurfa að kaupa sér aðgang að forritinu Clo3d: CLO | 3D Fashion Design Software