Háskólagátt

Nám í Háskólagátt veitir undirbúning fyrir háskólanám og er sniðið fyrir að þeim sem ekki uppfylla aðgangsviðmið í grunnnám Háskólans á Bifröst eða vilja styrkja undirbúning sinn áður en þeir hefja háskólanám. Að loknu námi við Háskólagátt geta nemendur hafið grunnám við allar deildir Háskólans á Bifröst. Námið er 70 f-einingar og er fullt nám í eitt ár.

Háskólagátt með vinnu
Í námsleiðinni Háskólagátt með vinnu ljúka nemendur námi í Háskólagátt á tveimur árum. Námið veitir undirbúning fyrir háskólanám og er sniðið fyrir að þeim sem ekki uppfylla aðgangsviðmið í grunnnám Háskólans á Bifröst eða vilja styrkja undirbúning sinn áður en þeir hefja háskólanám. Að loknu námi við Háskólagátt geta nemendur hafið grunnám við allar deildir Háskólans á Bifröst

Nám í Háskólagátt er í boði bæði á íslensku og ensku. Námið er skipulagt þannig að nemendur í fullu námi ljúka því á einu skólaári. Nemendur geta valið að taka námið á lengri tíma. Ef þeir taka námið á lengri tíma samhliða vinnu skrá þeir sig í námsleiðina Háskólagátt með vinnu. Einnig er hægt að taka stök námskeið úr Háskólagátt í gegnum Endurmenntun Háskólans á Bifröst.

 Eftirtaldar námsleiðir í boði við Háskólagátt:

  • Háskólagátt
  • Háskólagátt með vinnu
  • Háskólagátt á ensku (e. University Gateway)
  • Háskólagátt á ensku með vinnu (e. University Gateway with employment)

Í háskólagátt eru kenndar kjarnagreinar framhaldsskólastigsins: íslenska, stærðfræði og enska auk sérhæfðari námskeiða sem undirbúa nemendur fyrir grunnnám Háskólans á Bifröst, virka þátttöku í lýðræðissamfélagi og áframhaldandi líf og störf. Námið í Háskólagátt er 70 framhaldsskólaeiningar.  

Aðgangsviðmið 

Nám í Háskólagátt er ætlað fullorðnum nemendum. Þeir sem uppfylla eitthvert af eftirfarandi geta sótt um nám í Háskólagátt:

  • Hafa lokið námi til starfsréttinda eða öðru námi af hæfniþrepi 2 eða hærra
  • Hafa lokið Menntastoðum og hafa auk þess a.m.k. 2.-3. ára reynslu á vinnumarkaði
  • Hafa lokið a.m.k. 100 einingum í framhaldsskóla (60 einingum í eldra kerfi)

Leggi umsækjandi fram gilt raunfærnimat tekur skólinn mið af því við meðhöndlun umsóknar.

Nám í Háskólagátt er lánshæft hjá Menntasjóði Námsmanna sjá nánar á www.menntasjodur.is

Fyrirkomulag kennslu

Nám við Háskólagátt fer fram í lotubundnu fjarnámi. Flest námskeið eru kennd í sex vikna lotum auk einnar námsmatsviku. Í hverri lotu er ein staðlota á Bifröst. Einstaka námskeið eru styttri eða lengri. Upplýsingar um námslotur og staðlotur má finna í dagskrá skólaársins.

Í Háskólagátt er notast við vendikennslu sem felur í sér að nemendur fá fyrirlestra á rafrænu formi og sækja síðan umræðu- og verkefnatíma með kennurum. Gert er ráð fyrir að nemendur taki virkan þátt í samræðum í verkefna- og umræðutímum. 

Skráningargjöld 

Verð fyrir hverja einingu í Háskólagátt er kr. 3.500 eða kr. 17.500 fyrir fimm eininga áfanga. Við samþykkt umsóknar greiðir nemandi hluta skráningargjalda, eða kr. 35.000 í staðfestingargjald, sem jafngildir verði fyrir 10 einingar. Þegar frestur til að skrá sig úr námskeiðum hefur runnið út fær nemandi sendan greiðsluseðil fyrir þeim einingum sem eftir standa. 

Tækifæri til frekara náms að loknu námi í Háskólagátt

Nemandi sem lýkur námi við Háskólagátt með fullnægjandi árangri uppfyllir aðgangsviðmið í grunnnám allra deilda við Háskólann á Bifröst. Aðrir háskólar setja sín eigin aðgangsviðmið og nemendur sem stefna á nám við aðra háskóla eru hvattir til að kanna vel aðgangsviðmið þess skóla áður en þeir sækja um nám við Háskólagátt.