Námið
Viðskiptaháskóli í fararbroddi í fjarnámi
Nám við Háskólann á Bifröst er hagnýtt með áherslu á frumkvæði og sjálfstæði nemenda. Háskólinn sérhæfir sig í kennslu viðskiptatengdra greina og að mennta fólk til forystustarfa í atvinnulífinu og samfélaginu. Háskólinn á Bifröst er með sterk tengsl inn í atvinnulíf og samfélag og býður nemendum upp á starfsnám og raunhæf verkefni í samstarfi við fyrirtæki og stofnanir. Fjölbreytt viðfangefni, umræður og samstarf nemenda og kennara tryggja nemendum góðan undirbúning fyrir ábyrgðarstöður. Einnig er skólinn miðstöð símenntunar og bíður upp á fjölbreytt námskeið sem tengjast stjórnun og rekstri. Allt nám við Háskólann á Bifröst er kennt í fjarnámi og því allir fyrirlestrar rafrænir sem gerir það að verkum að nemendur geta ráðið yfirferð námsefnisins. Því hentar námið einstaklega vel með vinnu og fellur vel að þörfum atvinnulífsins.
Nútímalegir kennsluhættir
Háskólinn á Bifröst er nútímalegur háskóli eins og kennsluhættir skólans bera með sér. Löngum hefur verið lagður mikill metnaður í að bjóða upp á nám í litlum hópum þar sem áhersla er lögð á verkefni sem eiga uppruna sinn í raunverulegum álitaefnum viðskipta- eða þjóðlífs. Kennsluhættir háskólans eru með þeim hætti að mikil áhersla er lögð á námsvirkni nemenda og verkefnavinnu. Kennarar taka upp fyrirlestra sem eru aðgengilegir nemendum í gegnum kennslukerfi skólans. Í stað hefðbundinna fyrirlestra sitja nemendur í verkefna- og umræðutíma með kennara þar sem unnið er nánar með viðfangsefni vikunnar með úrlausn verkefna eða dæma. Að auki skila nemendur reglulegum verkefnum sem kennari fer yfir. Þetta fyrirkomulag felur í sér að námsgreinar verða kenndar í 6 vikna lotum með prófum í 7. viku. Þó eru einstaka námskeið kennd yfir tvær lotur.