Þjónusta
Þjónusta í boði
Safnið er opið starfsfólki og nemendum Háskólans á Bifröst sem og öðrum íbúum háskólaþorpsins. Lánstími bóka er almennt 30 dagar nema ef um er að ræða handbækur og námsbækur. Handbækur eru eingöngu til notkunar á safninu og námsbækur eru á styttri lánstíma. Skráðir lánþegar geta endurnýjað lánið ef efnið hefur ekki verið pantað af öðrum. Safnið áskilur sér rétt til að senda notendum reikning vegna glataðra safngagna.
Þjónusta við fjarnema
Leitast er við að veita fjarnemum við háskólann eins hraða og góða þjónustu og hægt er. Áhersla er lögð á rafrænt efni þegar slíkt er mögulegt en þjónustan felst einnig í að senda þeim bækur í pósti. Þá er bókin send til þeirra á kostnað safnsins en nemendur greiða sjálfir póstburðgargjald við skil ef þeir eiga ekki tök á að koma bók til skila með öðrum hætti.
Bókakafla er hægt að biðja um að fá skannaða og senda, sé það innan þeirra marka sem samningur við Fjölís heimilar. 10% af bók eða hámark 30 blaðsíður.
Aðstoð við skráningu heimilda fer mest fram með miðlun upplýsinga á heimasíðu, hægt er að leita aðstoðar en ekki er boðið upp á yfirlestur og lagfæringu heimildaskráa í heild sinni.
Best er að senda beiðnir um þjónustu eða aðstoð til bókasafnsins á netfangið bokasafn@bifrost.is.
Þjónusta við kennara
Kennurum við skólann stendur öll þjónusta bókasafnsins til boða, auk þess geta þeir óskað eftir skönnun á kennsluefni til birtingar á kennsluvef námskeiðs. Þegar bókalisti liggur fyrir er farið yfir hvað hægt sé að kaupa rafrænt og upplýsingar um kennsluefni ásamt tengli sendar til kennara til þess að setja inn í námskeið.
Bækur af öðrum bókasöfnum - millisafnalán
Bókasafnið getur útvegað notendum bækur sem ekki eru til hjá okkur, sem og tímaritagreinar frá öðrum söfnum, innlendum eða erlendum.
Þessi þjónusta er veitt án endurgjalds. Til þess að þjónustan sé skilvirk er notendum ráðlagt að athuga sjálfir hvort viðkomandi rit finnist í í Leitir.is og panta millisafnalánið þar. Í leitir.is er einnig að finna eyðublað fyrir pantanir í millisafnaláni sem ekki eru til á innlendum bókasöfnum. Ítarlegar upplýsingar um efnið sem pantað er tryggir skjótari afgreiðslu. Til dæmis:
- Greinar; fullan titil tímarits, eða staðlaða skammstöfun, ár, bindi, hefti, höfund, titil greinar, blaðsíðutal og ISSN-nr ef það er vitað.
- Bækur; höfund/ritstjóra, titil, útgáfu, útgáfustað, útgáfuár og ISBN-nr.
Greinar og bækur sem fengnar eru innanlands frá berast yfirleitt innan viku, en greinar og rit erlendis frá tekur oft margar vikur að útvega. Að meðaltali má segja að það taki u.þ.b. hálfan mánuð að útvega efni frá útlöndum.
Algengur lánstími frá innlendum og erlendum söfnum er þrjár til fjórar vikur. Stundum er mögulegt að fá lánstíma framlengdan en beiðni um slíkt þarf að hafa borist starfsfólki bókasafns áður en lánsfresturinn rennur út. Það er ákaflega mikilvægt að skilafrestur bóka sem fengnar eru í millisafnaláni sé virtur og nokkuð háar fjársektir liggja við glatist bók sem fengin er með þessum hætti.
Uppfært í maí 2021