Rannsóknir og útgáfa á viðskiptafræðisviði

Rannsóknir akademískra starfsmanna við viðskiptadeild eru aðallega á fræðasviðum byggðamála, endurskoðunar, fjármálastjórnunar, hagfræði, leiðtogafræða, markaðsfræða, mannauðsstjórnunar, reikningshalds, stjórnunarfræða, viðskiptagreindar og þjónustustjórnun svo að dæmi séu tekin.   

Kennarar við viðskiptadeild hafa fengið rannsóknir þeirra birtar sem greinar í ritrýndum fræðaritum og kafla í ritrýndum fræðabókum og rannsóknarskýrslum. Rannsóknavirkni og útgáfur innan viðskiptadeildarinnar birtast í rannsóknagátt Háskólans á Bifröst á ÍRIS.                                                                                  

Þá spannar rannsóknasamstarf innan viðskiptadeildar, bæði hér landi og erlendis, sem dæmi eftirtalið:

  • Rannsóknarsamstarf við fræðimenn annarra háskóla innan lands og utan.
  • Gleipnir, nýsköpunar- og þróunarsetur á Vesturlandi.
  • CRANET, alþjóðlegt samstarfsverkefni um langtíma samanburðarrannsóknir í mannauðsstjórnun á vegum Cranfield Network on International Human Resource Managment.
  • Rannsóknaverkefnið Project to investigate the distinctive features and resilience of human resource management in the Nordic countries.
  • Erasmus+ verkefni, þ.á.m. þróunarverkefni COPE, þar sem Háskólinn á Bifröst og samstarfsaðilar frá Ítalíu, Kýpur og Svíþjóð, hafa þróað námsefni og aðferðir til að efla starf frumkvöðla, með áherslu á félagshagkerfið og samvinnufélagsformið.
  • EEA verkefni, þ.á.m. Management in the time of crisis.
  • COST verkefni, þ.á.m. Rethinking the Blue Economy: Socio-Ecological Impacts and Opportunities (RethinkBlue) og Fintech and Artificial Intelligence in Finance - Towards a transparent financial industry (FinAI).
  • The Lost Millenials eða Týnda aldamótakynslóðin, fjölþjóðlegt 14 ríkja samstarfsverkefni (lauk um áramótin 2023/2024). 

Eftirtalin rannsóknasetur starfa í tengslum við viðskiptadeild: Rannsóknasetur í byggða- og sveitarstjórnarmálum og Rannsóknasetur verslunarinnar.  

Markmið Rannsóknaseturs í byggða- og sveitarstjórnarmálum er að efla jákvæða byggðaþróun og styrkja sveitarstjórnarstigið á Íslandi með markvissum rannsóknum sem stuðla að hlutlægri og faglegri umræðu og leiða til betri stefnumótunar og ákvarðanatöku, jafnframt að efla nám og fræðslu um byggða- og sveitarstjórnarmál. Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og Margrét Jónsdóttir Njarðvík, rektor Háskólans á Bifröst, undirrituðu 10. janúar 2023 samning um stofnun rannsóknaseturs í byggða- og sveitarstjórnarmálum. Með samningnum styður ráðuneytið við uppbyggingu og rekstur setursins. Dr. Vífill Karlsson, prófessor, leiðir rannsóknastarf setursins en að daglegri stjórnun þess kemur Stefán V. Kalmannsson. Starfsemi rannsóknaseturins er þegar orðin umtalsverð. enda þótt stutt sé enn liðið frá stofnun þess. 

Rannsóknasetur verslunarinnar (RSV) var stofnað árið 2004. Að því standa Menningar- og viðskiptaráðuneytið, VR, Samtök verslunar og þjónustu, Bílgreinasambandið og Háskólinn á Bifröst. Rannsóknasetur verslunarinnar (RSV) er leiðandi aðili á Íslandi í rannsóknum og tölfræðivinnslu fyrir verslun og tengdar atvinnugreinar. Almennt felst starfsemi rannsóknasetursins í að fylgjast með þróun og breytingum er varða verslun og neysluhegðun og koma á framfæri upplýsingum því tengdu til fyrirtækja og almennings. Rannsóknasetrið gegnir lykilhlutverki sem upplýsingaveita um vísitölur og aðra tölfræði sem stjórnendur í verslun þurfa á að halda í ákvarðanatöku í daglegri stjórnun og vegna stefnumótunar til lengri tíma. Í stjórn setursins á sæti að hálfu Háskólans á Bifröst, Jón Snorri Snorrason, dósent.