Um CRANET á Íslandi

Alþjóðlegur hópur fræðimanna við viðskiptadeildir liðlega 50 háskóla, hefur um áratuga skeið unnið að samanburðar­rannsóknum í mannauðsstjórnun innan Cranfield Network on International Human Resource Manage­ment (CRANET) samstarfsnetsins.

Sífellt fleiri fyrirtæki og stofnanir nýta sér nú niðurstöður úr CRANET, en markmiðið með þessu alþjóðlega langtímaverkefni er framkvæmd saman­burðar- og langtíma­rann­sókna og uppbygging þekkingar á sviði mannauðsstjórnunar, bæði staðbundið í hverju landi fyrir sig sem og alþjóðlega. Bornar eru saman atvinnugreinar og niðurstöður skoðaðar eftir stærð fyrirtækja og stofnana.

CRANET rannsóknin spannar enn fremur vinnubrögð og aðferðir í mannauðsstjórnun þ.m.t. mönnun og ráðningar, starfsþróun, frammistöðumat, kjaramál, hlunnindi, innri boðskipti, samdráttaraðgerðir og samskipti við stéttarfélög. Þá er verkaskipting skoðuð ásamt skipulagi mannauðsstjórnunar og þroskastigi hennar (Human Resource Maturity).

Þá hafa niðurstöður úr CRANET verkefninu verið kynntar á alþjóðlegum ráðstefnum, fundum og námskeiðum, auk þess sem rannsóknir á vegum þess hafa verið nýttar í kennslu við Háskólann á Bifröst, Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík og meistara- og doktorsverkefnum. 

Kynningarfundir verkefnisins hér á landi hafa verið vel sóttir, s.s. vegna CRANET skýrslunnar sem gefin er út á þriggja ára fresti að undangenginni gagnaöflun sem gerð er í samstarfi við mannauðsstjóra.

Stýrihóp CRANET á Íslandi skipa Arney Einarsdóttir, dósent við HB, Katrín Ólafsdóttir, dósent við HR, Ásta Bjarnadóttir, skrifstofustjóri starfsþróunar og starfsumhverfis hjá Reykjavíkurborg og Sigríður Finnbogadóttir, verkefnastjóri.

Arney, Katrín og Ásta eru jafnframt höfundar CRANET skýrslunnar hér á landi, en þær hafa átt aðild að CRANET samstarfinu frá árinu 2003. 

CRANET á Íslandi er styrkt af fjármálaráðuneytinu og Rannsóknasjóði Háskólans á Bifröst. Verkefninu er stýrt hér á landi af Arneyju Einarsdóttur. Nánari upplýsingar um alþjóðlega verkefnið og samstarfsaðila þess eru á www.cranet.org.

Hér til hliðar má svo nálgast Executive Report, nýja alþjóðlega skýrslu sem CRANET birti í desember 2023 í opnum aðgangi.