Rannsóknagátt Háskólans á Bifröst

Rannsóknagátt Háskólans á Bifröst byggir á IRIS, nýju upplýsingakerfi um rannsóknastarf íslenskra háskóla og stofnana. Heiti þess er skammstöfun á Icelandic Research Information System og þjónar kerfið hlutverki almennrar upplýsingargáttar fyrir rannsóknarvirkni og samfélagsleg áhrif rannsókna á Íslandi.

IRIS eykur til muna sýnileika, yfirsýn og aðgengi að upplýsingum um rannsóknir og markar tilkoma kerfisins að því leyti tímamót fyrir rannsóknastarfsemi hér á landi. Þá gerir kerfið notendum kleift að skoða rannsóknarframlag einstakra stofnana og fræða-, lista- og vísindafólks og þátttöku þess í alþjóðlegu samstarfi, svo að dæmi um gagnsemi kerfisins séu nefnd.

Eins og sjá má er ljóst, að kerfið felur í sér mikla möguleika fyrir háskólasamfélagið á því að efla sýnileika  rannsókna sem unnar eru hér á landi. Einn helsti kostur IRIS upplýsingakerfisins felst þannig í þeirri yfirsýn sem það veitir yfir rannsóknabirtingar, rannsóknakynningar, rannsóknaverkefni, aðgengilega rannsóknainnviði og gagnasett úr rannsóknum á vegum þeirra stofnana sem eiga aðild að verkefninu og eru opin öllum á ytri vef IRIS.

Upplýsingakerfið sjálft byggir á hugbúnaðinum PURE, sem hefur á undanförnum árum haslað sér völl hjá háskólum og ýmsum stofnunum víða um heim í rannsóknartengdri upplýsingamiðlun.

Allir háskólar landsins eru aðilar að IRIS, auk Landspítala, Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum. Stefnt er að því að allar opinberar rannsóknastofnanir verði aðilar að kerfinu innan fárra ára.

Beinn hlekkur á rannsóknargátt Háskólans á Bifröst er á forsíðu háskólavefjarins.