Ávarp rektors

Margrét Jónsdóttir Njarðvík

Háskólinn á Bifröst dregur nafn sitt af Bifröst í Norðurárdal. Á þessum ákjósanlega stað, sem hefur verið sagður einhver sá fallegasti á landinu, starfaði Háskólinn á Bifröst allt frá miðri síðustu öld. Náttúran er einstök ef ekki kynngimörgnuð og ku afa kallað fram hinn margrómaða Bifrastarglampa í augum nemenda.

Saga Bifrastar nær reyndar lengra aftur eða allt til ársins 1918 og ber þróun skólans glöggt vitni um það hvernig hann hefur sem framsækin menntastofnun lagað sig að síbreytilegum menntaþörfum landsins. Undanfarna áratugi hefur skólinn enn á ný skapað sér sérstöðu sem eini sérhæfði fjarnámsháskóli landsins. Bifröst kemur heim til nemenda með fyrirlestra, fundi og verkefni og nemendur á Bifröst koma á vinnuhelgar eða taka þátt í stafrænum viðburðum eða námsmati, allt eftir dagatali skólaársins.

Nemendur skólans hampa þessu námsfyrirkomulagi þar sem þeir geta aðlagað háskólanámið að eigin aðstæðum, hlustað á fyrirlestrana hvar og hvenær sem er og jafn oft og hver og einn vill. Þannig sparast dýrmætur tími í ferðir og skipulag auk þess sem gott fjarnám í bland við staðlotur öðlast vaxandi viðurkenningu, s.s. samfara aukinni vitund um myndum kolefnisfotspora.

Enn eina ferðina stöndum við á krossgötum í menntamálum því fjórða iðnbyltingin mun umbylta samskiptum okkar og því hvernig við vinnum og lifum. Þar með er talin háskólamenntun. Nýting vatns og gufuvéla olli straumhvörfum á vinnumarkaði í fyrstu iðnbyltingunni, rafmagnið leyfði fjöldaframleiðslu og lék aðalhlutverk í þeirri næstu. Þá einkenndi upplýsingatækni, raftækni og sjálfvirkni þriðju iðnbyltinguna sem nú rennur saman við þá fjórðu. Hvað hún felur í sér vitum við ekki enn með vissu. Eitt er víst, hún byggir á þeirri þriðju og mun blanda saman því sem fyrir er. Af því leiðir að mörkin milli hins stafræna, raunverulega og lífræna verða enn óljósari, rétt eins og mörk hefðbundinna háskólagreina verða sífellt óáþreifanlegri og óljósari.

Hlutverk háskóla eins og Bifrastar er einmitt að gera nemendur samkeppnishæfa á vinnumarkaði, óhrædda við tækni, óhrædda við krefjandi og óskiljanleg verkefni. Við veitum hagnýta menntun sem endurspeglar atvinnulífið hverju sinni og tengjum óhrædd milli fræða og atvinnulífisins. Við mætum áður óþekktum vinnsluhraða hins stafræna og vitum að hann mun hafa umbreytandi áhrif á stjórnun, vinnslu og framleiðslu. Hvernig það verður vitum við heldur ekki enn. Við á Bifröst vitum þó að við þurfum að mennta og þjálfa nemendur okkar þannig að þeir geti geti unnið og þroskast í hinum stafræna heimi um leið og þeir sækja óhræddir fram.

Það gefur því  auga leið að Bifröst leggur áherslu á allt það sem gervigreind getur ekki leyst.  Þar kemur mennskan sjálf og leiðtogaþjálfun sterkt inn og rímar vel við hlutverk Bifrastar allt frá stofnun skólans. Skólinn starfar samkvæmt PRME sáttmála Sameinuðu þjóðanna þar sem lögð er áhersla á ábyrga stjórnendamenntun, samfélagsábyrgð og sjálfbærni. Gildi PRME passa sem hanski á hönd við gildi Bifrastar frumkvæði, samvinnu og ábyrgð, gildi sem við lifum í starfi.

Undanfarin ár hefur fjölbreytt meistaranám verið í hvað mestum vexti og nemendafjöldinn á haustmisseri 2020 slær fjöldamet áratugarins. Fólk með ólíkan bakgrunn sækir í hagnýtt mastersnám í viðskiptalögfræði, menningarstjórnun og viðskiptafræði með ótal áherslur, nám sem skilar þeim í stjórnendastörf hérlendis og erlendis. Þá verður grunnnám til BS prófs ávallt kjarninn í starfsemi skólans þar sem hagnýtt nám í viðskiptafræði endurspeglar vinnumarkaðinn hverju sinni. BS nám í heimspeki, stjórnmálafræði og hagfræði sker sig úr öðru menntaframboði á Íslandi en það er sá grunnur sem flestir breskir stjórnmálaleiðtogar hafa.. Við viljum bjóða upp á nám sem sker sig úr og er opið öllum hvar á landinu sem þeir búa.

Við bjóðum þig velkominn / velkomna / velkomið í Háskólann á Bifröst og vonum að þú blómstrir í námi hjá okkur!