Loftslagsbreytingar og sjálfbærni í rannsóknum í lögfræði

Frummælendur eru dr. Bjarni Már Magnússon prófessor og Björg Valgeirsdóttir aðjúnkt við lagadeild Háskólans á Bifröst og doktorsnemi við lagadeild háskólans í Lundi. Fundarstjóri Elín H. Jónsdóttir deildarforseti lagadeildar

Dr. Bjarni Már Magnússon, prófessor við lagadeild Háskólans á Bifröst

Grunnlína hafsvæða og landhelgi þjóðríkja:

Eldgos, lögsaga og hækkun yfirborðs sjávar. Í löngu gleymdum dómi Lögregluréttar Reykjavíkur, sem var staðfestur í Hæstarétti Íslands árið 1922, er fjallað um áhrif Kötlugossins 1918 á íslensku landhelgina á lítið svæði á suðurströnd landsins. Við eldgosið færðist íslenskt landsvæði um tæplega tvo kílómetra út í sjó. Upptök málsins má rekja til meintra ólöglegra veiða fransks skips á þeim slóðum. Dómurinn er fyrir margar sakir áhugaverður. Í honum er komið inn á eðli hinnar svokölluðu grunnlínu sem hafsvæði eru mæld frá og er hann einn af örfáum dómum sem það gerir í heiminum svo vitað sé. Auk þess er hér um að ræða fyrsta íslenska Hæstaréttardóminn þar sem reynir á lagaleg álitaefni af alþjóðlegum toga. 

Í erindinu verður fjallað um dóm Hæstaréttar og hvernig hann tengist umræðunni á alþjóðavettvangi um áhrif hækkunar yfirborðs sjávar á lögsögu ríkja. Þar að auki mun hann spyrja hvers vegna í ósköpunum dómurinn sé hvorki þekktur meðal íslenskra lögfræðinga né alþjóðlegra. 

Björg Valgeirsdóttir, LL.M., aðjúnkt við lagadeild Háskólans á Bifröst

Kröfur alþjóðlegs umhverfisréttar og alþjóðlegra mannréttindareglna og þýðing þeirra við mat á sjálfbærni samkvæmt flokkunarkerfi Evrópusambandsins

Doktorsverkefnið sem hér verður kynnt leitast við að skilgreina kröfur alþjóðlegs opinbers réttar til umhverfis- og mannréttindaverndar. Ástæða þess er sú að grundvöllur flokkunarkerfis evrópska græna sáttmálans (EU Green Deal), hvers endanlega markmið er að stuðla að því að Evrópa verði fyrsta kolefnislausa heimsálfan fyrir árið 2050, byggir á óljósum og misvísandi lagalegum hugtökum.


Við mat á sjálfbærni samkvæmt flokkunarkerfinu bregður þannig fyrir hugtökum á borð við atvinnustarfsemi sem „veldur ekki verulegum skaða“ (e. „do no significant harm“) á þau markmið sem þar eru sett um umhverfisvernd og að sú atvinnustarfsemi gæti að „lágmarks öryggisventlum“ (e. „minimum safeguards“) hvað varðar mannréttindi og réttindi launþega. Þessi lagalegu hugtök virðast við fyrstu sýn vera fengin að láni úr opinberum alþjóðarétti á sviði umhverfis- og mannréttinda. Nánar tiltekið meginreglu alþjóðlegs umhverfisréttar um að „engum skaða“ (e.  „no harm“) skuli valdið á umhverfið í efnahagslegri starfsemi, án þess að fram hafi farið umhverfismat og að tryggt sé að reynt sé að lágmarka það tjón, sem bæta verður eftir atvikum.

Þessi meginregla birtist í afbakaðri mynd í flokkunarkerfi ESB, þ.e. með þeirri viðbót að atvinnustarfsemi valdi „engum verulegum skaða“. Er ætlunin því að skýra og afmarka „no harm“ reglu alþjóðlegs umhverfisréttar í samhengi loftslagsbreytinga og hvort og þá hvernig flokkunarkerfi ESB kemur heim og saman við hana.

Öðrum þræði verður leitast við að skilgreina réttinn til heilnæms umhverfis á alþjóðavísu og kanna hvort og þá hvernig flokkunarkerfi ESB samræmist honum. Byggt er á því að ætli ESB að fylgja eftir græna sáttmálanum í baráttunni gegn loftslagsbreytingum, þá verði það ekki gert án þess að tekið sé tilhlýðilegt tillit til meginreglna alþjóðaréttar sem hafa þegar verið mótaðar á þessu sviði og bregður m.a. fyrir í Parísarsáttmálanum, rammasamningi Sameinuðu Þjóðanna um loftslagsbreytingar, leiðbeinandi meginreglum Sameinuðu þjóðanna um viðskipti og mannréttindi og í sjálfbærnimarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

Doktorsverkefnið, sem unnið er við lagadeild Háskólans í Lundi, er fjármagnað af rannsóknarsjóði Marianne og Marcus Wallenberg:  https://mmw.wallenberg.org/en/implementing-european-green-deal-eu-taxonomy-regulation. Leiðbeinendur eru Dr. Daria Davitti og Dr. Britta Sjöstedt. 

Málþing lagadeildar Háskólans á Bifröst
Aðalbóli, 24. mars 2023 kl. 11:00 – 12:30