Reglugerð Háskólans á Bifröst

Samþykkt á stjórnarfundi 2. maí 2016.

Breytt með samþykkt stjórnar 3. desember 2018.

Breytt með samþykkt stjórnar 11. maí 2023.

Prentvæn útgáfa (pdf)

1.   kafli  -  Stjórnskipulag

1. gr.

Háskólinn á Bifröst er sjálfseignarstofnun sem starfar samkvæmt skipulagsskrá og á grundvelli samþykkta stjórnar skólans. Háskólinn starfar í samræmi við háskólalög og reglur um viðurkenningu háskóla.

2. gr.

Stjórn háskólans ber ábyrgð á rekstri, fjárhag og eignum skólans. Stjórn háskólans skal standa vörð um tilgang og hlutverk hans samkvæmt skipulagsskrá og skal ávallt virða akademískt sjálfstæði háskólans. Stjórnin ræður rektor til starfa og leysir frá störfum. Formaður stjórnar háskólans semur fyrir hönd hennar við rektor um starfskjör.

3. gr.

Rektor annast stjórnun og rekstur háskólans í umboði stjórnar og ber ábyrgð gagnvart henni. Hann ber ábyrgð á að starfstilhögun sé í samræmi við hlutverk, markmið og gæðakröfur skólans. Rektor ræður starfsmenn og leysir þá frá störfum. Rektor ábyrgist fjármál háskólans í umboði stjórnar. Hann skal leggja fjárhags- og rekstraráætlun fyrir næsta reikningsár fyrir stjórn háskólans svo tímanlega að fjalla megi um hana á tveimur stjórnarfundum fyrir hver áramót.

Rektor kemur fram fyrir hönd háskólans út á við og hefur forgöngu um þróunarstarf og stefnumótun.

Rektor ber ábyrgð á gæðamálum skólans.

Rektor stýrir daglegum rekstri skólans, en skal ráðfæra sig við stjórnarformann á milli funda um allar stefnumarkandi eða óvenjulegar ákvarðanir. Slíkar ákvarðanir skulu bornar undir stjórn eins skjótt og verða má.

4. gr.

Rektor tilnefnir staðgengil sinn úr hópi annarra akademískra stjórnenda skólans. 

5. gr.

Háskólaráð er ráðgefandi í málum háskólasamfélagsins og hefur tilnefningarrétt í stjórn skólans og fulltrúaráð samkvæmt skipulagsskrá hans. Þar sitja rektor, framkvæmdastjóri kennslu og þjónustu (kennslustjóri), þrír fulltrúar kennara sem kennslu- og rannsóknarráð tilnefnir, einn fulltrúi annarra starfsmanna háskólans sem tilnefndur er á starfsmannafundi, tveir fulltrúar nemenda úr grunnnámi, tveir fulltrúar nemenda úr meistaranámi og einn fulltrúi nemenda Háskólagáttar. Fulltrúar nemenda eru kjörnir af nemendum. Fyrir hvern kjörinn fulltrúa skal kjörinn varafulltrúi. Rektor er heimilt að bjóða fleiri aðilum seturétt í háskólaráði eftir því sem þurfa þykir. Þessir aðilar hafa málfrelsi og tillögurétt en ekki atkvæðisrétt. 

Á fundum háskólaráðs er fjallað um helstu málefni skólans á líðandi stundu, innra starf hans, breytingar á reglum og stefnumörkun hans. Háskólaráð er ályktunarbært og getur gert tillögur til rektors eða stjórnar skólans. Rektor hefur frumkvæði að dagskrá háskólaráðsfunda en hverjum fulltrúa í ráðinu er heimilt að setja mál á dagskrá. 

Fundir ráðsins eru lögmætir ef meirihluti þeirra sem rétt eiga til fundarsetu sækir fund, en fundi skal boða með sólarhrings fyrirvara hið minnsta. Einfaldur meirihluti atkvæða ræður ákvörðunum en atkvæði rektors er oddaatkvæði, falli atkvæði jafnt. 

Skylt er að boða fund í háskólaráði ef þriðjungur þeirra sem seturétt eiga í ráðinu óska þess.

Fundargerðir háskólaráðs skal birta á innri vef í Uglu.

6. gr.

Háskólanám við Háskólann á Bifröst er á sviði viðskipta, lögfræði og félagsvísinda. Jafnframt er við skólann starfrækt frumgreinadeild undir heitinu Háskólagátt fyrir nemendur sem ekki uppfylla lágmarksskilyrði inn í háskólanámið og endurmenntun þar sem kenndar eru styttri námsleiðir og námskeið sem tengjast atvinnulífi og samfélagi. Fagsvið skólans í háskólanámi kallast deildir og hafa þær frumkvæði að akademískri stefnumótun og þróun námsbrauta og bera ábyrgð á innihaldi námskeiða og gæðum námsins. Deildarforsetar leiða stefnumörkun fyrir hvert fagsvið, stýra og bera ábyrgð á faglegum málefnum þeirra, þ.m.t. gæðamálum. Á hverju fagsviði skólans starfar 3-5 manna deildarráð skipað deildarforseta, 1-2 kennurum, völdum af kennurum sviðsins og 1-2 nemendum, völdum af nemendum í samvinnu við nemendafélag skólans. Fulltrúar nemenda og kennara skulu tilnefndir af bæði grunn- og meistarastigi eftir því sem við á. Deildarráð er ráðgefandi fyrir deildarforseta.  Deildarforseti kallar jafnframt saman deildarfundi a.m.k. sex sinnum árlega sem eru umræðuvettvangur fastra kennara um málefni fagsviðsins. Fagstjórar starfa innan deilda og hafa með höndum faglega forystu einstakra námslína í náinni samvinnu við deildarforseta og kennara.

Rektor setur reglur um inntöku nemenda, námsmat, próf og önnur atriði sem snúa að námi og kennslu í skólanum. Hann setur jafnframt reglur og ákveður vinnuferla vegna þróunar námsbrauta eða nýrra námskeiða og um annað það sem viðkemur störfum kennara eftir því sem ástæða er til.  Tillögur um breytingar á reglum skólans og drög að þeim sem fjalla um innri mál og ferla skal  fjalla um með viðeigandi samráði milli þeirra aðila sem að málum þurfa að koma. Rektor hefur samráð við háskólaráð áður en ákvarðanir eru teknar.  

Nú koma upp kærur vegna inntöku nemenda, framkvæmd námsmats, fyrirkomulag prófa og önnur atriði skv. 1. grein í reglum um störf áfrýjunarnefndar og skulu þau þá fara eftir skilgreindum kæruleiðum innan skólans. 

Kennslusvið tekur við formlegum erindum frá nemendum og úrskurðar eins og tilefni er til. Ef nemendur una ekki úrskurðinum getur nemandi vísað erindi sínu til áfrýjunarnefndar.

Rektor skipar áfrýjunarnefnd sem í eiga sæti þrír menn skipaðir til tveggja ára í senn; einn tilnefndur af kennslu- og rannsóknaráði, einn tilnefndur sameiginlega af samtökum nemenda við skólann og einn skipaður án tilnefningar og er hann formaður nefndarinnar. Varamenn eru skipaðir með sama hætti. Reglur um störf áfrýjunarnefndar skulu staðfestar af stjórn Háskólans á Bifröst.

Sé úrskurði áfrýjunarnefndar ekki unað má vísa máli til rektors sem endanlegs úrskurðaraðila innan háskólans.

Rektor setur siðareglur og reglur um viðbrögð við kynbundnu og kynferðislegu áreiti og ofbeldi sem geta eftir atvikum verið sameiginlegar með öðrum háskólum. Við mótun þessara reglna skal haft viðeigandi samráð sbr. 2. mgr.

Leitast skal við að tryggja að kynjajafnræðis sé gætt við skipun fulltrúa í stjórnir, ráð og nefndir, sbr. ákvæði í jafnréttisáætlun háskólans.

7. gr.

Framkvæmdastjórn er samráðsvettvangur rektors og stjórnenda um daglegan rekstur skólans. Í henni sitja ásamt rektor, deildarforsetar og framkvæmdastjórar stoðsviða. Framkvæmdastjórn fundar eins og tilefni er til og fundi hennar sitja einnig aðrir starfsmenn skólans eftir ákvörðun rektors hverju sinni.

Stoðsvið skólans eru kennslu- og þjónustusvið, fjármála- og rekstrarsvið, skrifstofa rektors og upplýsingatæknisvið.

Fastar nefndir til samráðs milli sviða starfa eins og þarf til þess að samstilla og samræma skólastarfið. Vinnuhópar starfa að afmörkuðum verkefnum eins og með þarf skv. ákvörðun rektors.

8. gr.

Kennslu- og rannsóknaráð er samráðsvettvangur akademískra starfsmanna skólans og kýs jafnframt fulltrúa kennara í ráð og nefndir skólans eins og við á. Rektor boðar ráðið til a.m.k. tveggja funda árlega þar sem m.a. eru ræddar stefnumótandir ákvarðanir sem lúta að akademísku starfi skólans.

9. gr.

Rektor ber ábyrgð á mótun og framkvæmd gæðastefnu skólans. Hann ræður gæðastjóra sem er framkvæmdastjóri gæðamála og vinnur með deildarráðum fagsviða og boðar þau til funda eins og þörf krefur. 

Deildarráð bera ábyrgð á framkvæmd gæðastefnu skólans gagnvart rektor hvert á sínu sviði og hafa ennfremur frumkvæði að þróun gæðamála í skólanum og koma tillögum sínum á framfæri við rektor og gæðastjóra eins og við á. Deildarráð eiga samvinnu við gæðastjóra og sín á milli eins og þarf til að stuðla að góðri framkvæmd og þróun gæðamála í skólanum.

Framkvæmdastjóri kennslu og þjónustu ber ábyrð á gerð reglubundins kennslumats og leggur samandregnar niðurstöður þess fyrir framkvæmdastjórn. Deildarforsetar kynna niðurstöður kennslumats fyrir deildarráðum. Niðurstöðu kennslumats skal kynna í háskólaráði. Gæðastjóri ber ábyrgð á gæðahandbókum háskólans og hefur frumkvæði að þróun þeirra. Tillögum til breytinga á regluverki skólans skal beint til gæðastjóra. Hann skilar árlega skýrslu til rektors um störf sín og deildarráða um gæðamál skólans. 

2. kafli  -  Starfsfólk

10. gr.

Háskólinn á Bifröst leggur metnað sinn í að við skólann starfi hæft starfsfólk og setur sér mannauðsstefnu þar sem fjallað er um markmið og áherslur í starfsmannamálum. Starfsheiti akademískra starfsmanna við Háskólann á Bifröst skulu vera prófessor, dósent, lektor og aðjúnkt.

Um skipan, störf og niðurstöður dómnefnda fer skv. 18. gr. laga nr. 63/2006 um háskóla og reglum sem settar eru af stjórn skólans. Í þeim reglum skal tryggt að umsóknir hljóti faglega og óvilhalla meðferð. Dómnefndir eru tvenns konar; hæfnisnefnd í ráðningum og framgangsnefnd, auk valnefndar við ráðningar.

Rektor skipar hæfnisnefnd í ráðningum til að meta hæfi prófessora, dósenta, lektora og sérfræðinga. Þeir sem bera framangreind starfsheiti skulu hafa þekkingu og reynslu í samræmi við alþjóðleg viðmið fyrir hlutaðeigandi starfsheiti á þeirra fræðasviði, staðfest með áliti hæfnisnefndar eða framgangsnefndar eða með doktorsprófi frá viðurkenndum háskóla. Þeir skulu jafnframt hafa sýnt þann árangur í starfi að þeir njóti viðurkenningar á hlutaðeigandi sérsviði.

Í hæfnisnefndir má skipa þá eina sem lokið hafa doktorsprófi úr háskóla eða aflað sér jafngildrar þekkingar og reynslu. Í hæfnisnefnd skal sitja a.m.k. einn fulltrúi sem ekki starfar við Háskólann á Bifröst. 

Að fengnu staðfestu áliti hæfnisnefndar vegna allra umsækjenda skipar rektor valnefnd sem annast viðtöl og annan undirbúning áður en kemur að ákvörðun um ráðningu.

Deildarforsetar eiga frumkvæði að ráðningu akademískra starfsmanna. Rektor ræður akademíska starfsmenn skólans, þ.e. prófessora, dósenta, lektora, aðjúnkta og sérfræðinga sbr. að ofan. Ráðning skal byggð á mati hæfnisnefndar og niðurstöðum úr mati valnefnda nema um sé að ræða aðjúnktsstöðu.

Laus akademísk störf sem og sérfræðinga sem eingöngu eru ráðnir til vísinda- og fræðistarfa skulu auglýst opinberlega. Til þess að tryggja að háskólinn eigi völ á sem hæfustum starfskröftum skal auglýsa laus störf opinberlega innanlands og á alþjóðlegum vettvangi eftir því sem ástæða er til. Starf er ekki auglýst við framgang eða tilflutning milli starfsheita.

Rektor ræður framkvæmdastjóra og aðra stjórnendur skólans á grundvelli starfsferils, starfsreynslu, stjórnunarreynslu, menntunar umsækjenda m.t.t. skilgreindra hæfniskrafna viðkomandi starfs, auk meðmæla. Deildarforsetar ráða stundakennara í samráði við rektor.  Forstöðumenn Háskólagáttar og endurmenntunar hafa frumkvæði að ráðningum kennara vegna þeirrar starfsemi.

Rektor gerir stjórn skólans grein fyrir ráðningum samkvæmt þessari grein.

11. gr.

Á grundvelli samkomulags milli Háskóla Íslands og Háskólans á Bifröst annast Háskóli Íslands árlega stigamat á afrakstri rannsókna og fræðastarfs akademískra starfsmanna við Háskólann á Bifröst. Matið er reist á 18. gr. laga nr. 63/2006 um háskóla og miðast við gildandi matskerfi opinberra háskóla hverju sinni.

Með akademískum starfsmönnum er í grein þessari átt við prófessora, dósenta, lektora og sérfræðinga. Þeir skila til vísindasviðs Háskóla Íslands rannsóknar- og kennsluskýrslu síðast liðins starfsárs fyrir 1. febrúar ár hvert. Vísindasvið Háskóla Íslands skilar niðurstöðum mats til rektors.

12. gr.

Lektor getur sótt um framgang í dósentsstöðu enda uppfylli hann að öðru leyti skilyrði til að gegna henni samkvæmt gildandi mati opinberra háskóla.

Dósent getur óskað eftir framgangi í prófessorsstöðu enda uppfylli hann að öðru leyti skilyrði til að gegna henni samkvæmt gildandi mati opinberra háskóla. 

Beiðni um framgang skal beint til deildarforseta sem kemur henni á framfæri við framgangsnefnd Háskólans á Bifröst. 

13. gr.

Rektor skipar fasta framgangsnefnd sem metur umsóknir um framgang á grundvelli fyrirliggjandi gagna og matsreglna opinberra háskóla. Framgangsnefnd gerir tillögu til rektors um hvort veita beri framgang. Rektor tekur ákvörðun um framgang á grundvelli matsins. Um skipan framgangsnefndar og starfshætti gilda eftir atvikum reglur 10. gr. um hæfnisnefndir í ráðningum.  

Reglur um störf hæfnisnefnda, ráðningar og framgang háskólakennara eru nánar settar í handbók háskólans um mannauðsmál.

3. kafli – Rannsóknir

14. gr.

Akademískir starfsmenn Háskólans á Bifröst njóta rannsóknafrelsis. Þeir eru einráðir um viðfangsefni sín og áherslur í rannsóknum.

Deildarforsetar, í samráði við rektor, semja við akademíska starfsmenn um hlutfall rannsókna í starfsskyldum þeirra og um lágmarksafköst í samræmi við það hlutfall. Deildarforsetar fylgjast með rannsóknarvirkni innan sinna deilda og bera ábyrgð á gerð árlegra starfsáætlana starfsmanna þar sem rannsóknahlutfall er ákveðið. Akademískir starfsmenn skila árlega rannsóknaruppgjöri sem metið er til rannsóknarstiga af Háskóla Íslands. Deildarforsetar bera ábyrgð á að lagt sé mat á aðra rannsóknarvirkni, þekkingarsköpun og samfélagslegt framlag starfsmanna (impact).

Reglur um rannsóknasjóð Háskólans á Bifröst, umbun fyrir rannsóknarvirkni og rannsóknarleyfi eru nánar settar í handbók skólans um mannauðsmál.

15. gr.

Háskólinn á Bifröst hefur vísindalegt sjálfstæði og frelsi að leiðarljósi við mótun á sýn og stefnu varðandi rannsóknir.  Við Háskólann á Bifröst eru stundaðar rannsóknir í samræmi við rannsóknastefnu skólans og akademískra deilda hans.  Háskólinn leggur áherslu á að akademískt starfsfólk sé virkt í rannsóknum og leitast við að hvetja og styrkja þá til rannsóknarvirkni og þekkingarsköpunar í samræmi við þeirra fræðasvið. Jafnframt að skapa svigrúm til að leita eftir rannsóknasamstarfi með innlendum og erlendum starfstarfsaðilum og styrkjum því tengdu.

Rannsóknarvirkni er á ábyrgð akademískra starfsmanna með stuðningi frá deildarforseta og rannsóknastjóra. Rannsóknastjóri ber ábyrgð á stoðþjónustu við rannsóknastarf háskólans og fer með faglega umsjón og umsýslu vegna þess, þ.m.t. umgjörð rannsókna í samræmi við kröfur gæðaráðs íslenskra háskóla. Rannsóknastjóri er þátttakandi í tengslanetum vegna rannsóknastarfs innanlands og utan og við vísindasvið Háskóla Íslands vegna árlegs stigamats akademískra starfa. Rannsóknastjóri hefur umsjón með rannsóknasjóði háskólans, aðstoðar við styrkumsóknir, veitir upplýsingar um styrkjaleiðir, aðstoðar við uppgjör rannsóknaverkefna þegar við á og tekur þátt í miðlun niðurstaðna af rannsóknum.

Rannsóknastjóri skipuleggur dagskrá funda í Kennslu- og rannsóknaráði í samráði við rektor, deildarforseta og rannsóknasetur á vegum háskólans eftir því sem við á.

16. gr.

Skólanum er heimilt að setja á fót rannsóknasetur sem tengjast fræðasviðum skólans í því skyni að efla rannsóknir í samræmi við rannsóknastefnu og til að auka möguleika akademískra starfsmanna á samstarfi við aðra skóla og rannsóknastofnanir.

Rektor skipar forstöðumann sem fer með faglegt forræði seturs. Heimilt er að fela sjálfstæðri stjórn slíkt forræði. Rannsóknasetur eru kostuð af sjálfsaflafé þeirra.

Rannsóknasetur starfa að jafnaði sem hluti af akademísku fræðasviði innan háskólans.

4. kafli  -  Inntökuskilyrði og prófgráður

17. gr.

Framkvæmdastjóri kennslu og þjónustu ber ábyrgð á meðferð umsókna um skólavist. Deildarforsetar, fagstjórar og verkefnastjórar fara yfir umsóknir eins og við á. Forstöðumaður Háskólagáttar fer yfir umsóknir til náms í Háskólagátt eins og við á.

18. gr.

Háskólinn skal ávallt leitast við að veita jöfn tækifæri til náms. Leitast skal við að velja breiðan hóp nemenda sem endurspeglar menningarlega fjölbreytni samfélagsins.

Nemendur við háskólann skulu ávallt njóta réttinda skv. reglum um áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema nr. 550/2020. 

19. gr.

Til staðfestingar á skólavist skulu umsækjendur greiða staðfestingargjald.

Fyrir nám sitt greiðir nemandi skólagjald sem samþykkt er af stjórn skólans að fenginni tillögu rektors. 

20. gr.

Til að hefja nám í Háskólagátt þarf umsækjandi að hafa lokið sem svarar 100 f-einingum (fein) á framhaldsskólastigi og uppfylla skilyrði sett fram í reglum skólans um aðfararnám að háskólanámi.

Heimilt er að veita inngöngu í Háskólagátt umsækjendum sem ekki hafa lokið tilskildum einingafjölda á framhaldsskólastigi, en hafa þess í stað starfsreynslu sem telst jafngild slíkum einingafjölda.  

21. gr.

Til að fá inngöngu í grunnnám þarf umsækjandi að hafa lokið stúdentsprófi, staðist tilteknar námsgreinar á þriðja hæfniþrepi eða sambærilegu aðfaranámi að háskóla. Háskólinn skal hafa skýr og gagnsæ aðgangsviðmið um hvaða þekkingu, leikni og hæfni þarf til að stunda nám á einstökum námsbrautum.

Deildarforsetum er heimilt eftir samráð við kennslusvið að veita undanþágu frá ofangreindu ákvæði búi umsækjandi yfir reynslu eða þekkingu sem meta má til jafns við skilyrði 1. mgr.

22. gr.

Inntökuskilyrði í meistaranám er grunnháskólagráða (bakkalár) sem að jafnaði hefur verið lokið með 7,25 í einkunn eða jafngildi þess.

Deildarforsetum er heimilt í samráði við kennslusvið að veita undanþágu frá ofangreindu ákvæði búi umsækjandi yfir reynslu eða þekkingu sem meta má til jafns við grunnháskólagráðu.

23. gr.

Einingar í Háskólagátt eru framhaldsskólaeiningar (fein).

Frumgreinanám í Háskólagátt er 60-80 f-einingar (fein).

Einingar í háskólanámi eru veittar samkvæmt ECTS kerfi (European Credit Transfer System). Einstök námskeið í endurmenntun geta jafnframt verið til háskólaeininga (örgráður).

Nám til diplómagráðu skal vera 60 – 120 ECTS-einingar.

Grunnnám til bakkalárgráðu við skólann er 180-240 ECTS-einingar.

Framhaldsnám til meistaragráðu við skólann er 90 – 120 ECTS-einingar.

Í grunnámi er heimilt að meta allt að 90 ECTS-einingar sem nemandi hefur lokið í öðrum háskólum eða námsleiðum auk skiptináms. Í framhaldsnámi er heimilt að meta til eininga allt að 30 einingum úr öðrum háskólum eða námsleiðum, auk skiptináms, sem hluta af meistaranámi við skólann. Almenn krafa við mat á námsgreinum í grunn- og framhaldsnám er einkunnin 6 eða hærra.

24. gr.

Háskólinn á Bifröst veitir bakkalárgráðu að afloknu grunnnámi og meistaragráðu að loknu meistaranámi. Deildarforsetar geta heimilað nemendum að útskrifast með samsettar gráður. Slíkar gráður eru að lágmarki 120 einingar. Einnig má útskrifa nemendur með diplóma á öllum námsbrautum hafi þeir lokið að minnsta kosti 60 einingum en sú ákvörðun skal tekin í samráði við rektor. Deildarforsetar ásamt rektor geta skipulagt námsbrautir í samstarfi við aðra háskóla og útskrifað nemendur með blandaðar gráður. Útskriftargráður háskólans skal birta á ytri vef hans. 

25. gr.

Nám á Bifröst er að jafnaði skipulagt í þremur önnum, haustönn, vorönn og sumarönn. Hverri önn er að jafnaði skipt upp í tvær lotur.

Framkvæmdastjóri kennslu og þjónustu hefur frumkvæði að gerð kennsluskrár og dagskrár hvers skólaárs í samstarfi við deildarforseta. Fyrir 20. febrúar ár hvert skal kennsluskrá og dagskrá næsta skólaárs samþykkt af rektor eftir samráð við háskólaráð og birt á vef skólans.

5. kafli  -  Kennsla og námsmat

26. gr.

Framkvæmdastjóri kennslu og þjónustu hefur umsjón með allri kennslu og framkvæmd námsmats á vegum skólans og ber ábyrgð á þjónustu við nemendur og kennara.

27. gr.

Háskólinn heldur skrá yfir námsframvindu hvers nemanda og varðveitir eftir að námi lýkur eins og kveðið er á um í lögum um háskóla.

Nemendur skulu skrá sig í námskeið á hverri önn með þeim fyrirvara sem framkvæmdastjóri kennslu og þjónustu ákveður. Sama gildir um skráningu úr námskeiðum.

Nemendur hafa aðgang að skráningu sinni í námskeið og bera ábyrgð á því að hún sé rétt. 

28. gr.

Kennari ræður námsmati á grundvelli reglna um nám og kennslu við Háskólann á Bifröst. Námsmatið endurspeglar þá stefnu skólans að þjálfa nemendur jöfnum höndum í fræðilegum og hagnýtum vinnubrögðum.

Úrlausn á prófi skal uppfylla lágmarksskilyrði fyrir einkunninni 5, ella verður nemandi að þreyta endurtektarpróf. Nemandi ber ábyrgð á skráningu í endurtektarpróf á kennsluvef skólans.

Hljóti nemandi í háskólanámi lokaeinkunn undir 5 í námskeiði að afloknu endurtektarprófi skal hann eiga þess kost að sitja námskeiðið aftur þegar háskólinn býður upp á það næst. Standist nemandi ekki námskeið þá, með hefðbundnum úrbótamöguleikum, er skólavist hans þar með lokið. Sækja má um endurinnritun.

29. gr.

Nemendum ber í hvívetna að fara að fyrirmælum og reglum um notkun heimilda í ritgerðum og verkefnum. Sé það ekki gert getur nemandi fengið einkunnina 0 fyrir verkefni, ritgerð eða námskeið.

Brjóti nemandi reglur um próftöku eða hafi rangt við skal hann hljóta einkunnina 0.

Brot geta valdið áminningu eða brottrekstri úr skóla, sbr. 34. gr. reglugerðar þessarar.

Ef nemandi mætir ekki til prófs eða gengur úr prófi fær hann 0 í einkunn og verður að standast endurtektarpróf til að ljúka námskeiðinu. Nemandi ber ábyrgð á skráningu í endurtektarpróf á kennsluvef skólans.

Nemendur sem búa við fötlun í skilningi laga um málefni fatlaðra eiga rétt á sérúrræðum við próftöku.

Nemendur sem hafa erlent mál að móðurmáli fá aðstoð eftir því sem auðið er og viðbótartíma við próftöku í námskeiðum sem eru kennd á íslensku.

30. gr.

Nemandi á rétt á viðtali við kennara um niðurstöðu sína á skriflegu prófi (prófsýning). Prófsýning er skipulögð af kennara. Hana skal kynna nemendum með góðum fyrirvara.

31. gr.

Vilji nemandi, sem ekki hefur staðist próf, ekki una námsmati kennara getur hann kært matið til kennslusviðs. Kæran skal lögð fram skriflega innan fjögurra virkra daga frá prófsýningu. Nemandi á rétt á slíku endurmati enda sé úrlausn stöðugt í vörslu kennara, annarra starfsmanna háskólans eða í prófakerfi uns prófdómari tekur við henni. Nemandi sem vill kæra námsmat getur fengið afrit úrlausnar sinnar frá prófstjóra. 

Prófdómari skal skila einkunn eins fljótt og unnt er og er hún endanleg.

Í munnlegum prófum skal vera prófdómari viðstaddur ásamt kennara sem sameiginlega ákveða einkunn og er hún endanleg.

32. gr.

Nú leitast nemandi við að ljúka námi sínu að liðnum reglulegum námstíma og gildir þá hver einstök einkunn hans í fimm ár frá því, en eftir það verður hann að endurtaka sama eða sambærilegt námskeið. Deildarforseta er þó heimilt að meta eldri próf.

6. kafli – Gildistaka o.fl.

33. gr.

Gagnkvæm virðing, kurteisi og heiðarleiki skal ríkja í samskiptum nemenda og starfsfólks háskólans.

Öllum í háskólasamfélaginu ber að standa vörð um heiður skólans. Nemendur og starfsfólk skulu forðast að viðhafa nokkuð í námi sínu, kennslu eða framkomu innan og utan skólans sem er þeim til vanvirðu eða álitshnekkis eða varpað getur rýrð á nám þeirra, kennslu eða háskólann.

34. gr.

Rektor getur veitt nemanda áminningu eða vikið honum úr skóla um tiltekinn tíma eða að fullu hafi hann gerst sekur um brot á lögum eða reglum háskólans.

35. gr.

Heimilt er að binda háskólann til þátttöku í fyrirtækjum með samþykki stjórnar. Um getur verið að ræða félög eða stofnanir í eigu háskólans eða að hluta, með takmarkaðri eða ótakmarkaðri ábyrgð, allt eftir ákvörðun stjórnar hverju sinni.

36. gr.

Fjárhagsár skólans er almanaksárið.

Rektor skal í apríl eða maí mánuði ár hvert halda opinn ársfund skv. 23. gr. háskólalaga nr. 63/2006 þar sem fjárhagur skólans og meginatriði starfsáætlunar eru kynnt. Heimilt er að halda fundinn í streymi eða sem opin fjarfund.

37. gr.

Stjórn Háskólans á Bifröst setur reglugerð á grundvelli laga um háskóla og skipulagsskrár háskólans.  Rektor, eða einstakir stjórnarmenn geta lagt fram tillögu um breytingu á reglugerð fyrir stjórn.

Reglugerðarbreytingar taka almennt gildi við birtingu þeirra. Rektor skal birta breytingar á vef skólans eigi síðar en viku eftir samþykkt þeirra. Stefnur og reglur um helstu þætti í starfsemi skólans skulu staðfestar af stjórn skólans að undangenginni umræðu í framkvæmdastjórn, háskólaráði og kynningu fyrir deildarráðum. Aðrar reglur staðfestir rektor, þar á meðal gæðahandbækur.

Við gildistöku þessarar reglugerðar fellur úr gildi eldri reglugerð með síðari breytingum.

 

Reglugerð samþykkt á stjórnarfundi 2. maí 2016, tekur gildi 1. ágúst 2016.

Breyting á 24. gr. samþykkt á stjórnarfundi 18. maí 2017.

Breyting á 6. gr. samþykkt á stjórnarfundi 3. desember 2018.

Uppfært 5. desember 2018

Með breytingum samþykktum af stjórn Háskólans á Bifröst 11. maí 2023