BS í viðskiptalögfræði

Háskólinn á Bifröst var fyrstur íslenskra háskóla til að bjóða upp á þverfaglega námsgráðu í lögfræði með BS námi í viðskiptalögfræði. Þar fléttast saman tvær hagnýtar námsgreinar þannig að úr verður fjölbreytt og krefjandi nám sem þjónar hagsmunum atvinnulífsins einkar vel. Námið á sér fyrirmynd víða í nágrannalöndum okkar þar sem slík blanda lögfræði og viðskiptafræði er vel þekkt og vinsælt nám. Náminu er ætlað að veita hagnýtan og fræðilegan undirbúning að fjölbreyttum sérfræðings- og stjórnunarstörfum og lögð er áhersla á að nemendur öðlist haldgóða þekkingu á viðfangsefnum beggja fræðasviða.

Mikil áhersla er lögð á námsvirkni nemenda og raunhæfa verkefnavinnu og hefur námið á Bifröst sannað gildi sitt. T.a.m. var nemandi frá Bifröst fyrsti dómarinn við íslenskan dómstól sem ekki er útskrifaður frá Háskóla Íslands og að auki voru  nemendur frá Bifröst fyrstir utan Háskóla Íslands til að hljóta réttindi til að starfa sem héraðs- og hæstaréttarlögmenn.

Alþjóðleg tenging

Námið er einnig með alþjóðlega tengingu. Skólinn tekur þátt í LawWithoutWalls sem er samstarfsverkefni margra af virtustu lagadeildum í heimi eins og Harvard, Stanford og University of Miami. Lögfræðisviðið leggur áherslu á nýsköpun í allri kennslu. Nemendur eru virkjaðir til skapandi hugsunar  á sviði lögfræði og leitað er svara við því hvernig lögfræðingar geta nýtt tækninýjungar í störfum sínum til að fjölga tækifærum á atvinnumarkaði.

Að loknu námi

Nám í viðskiptalögfræði opnar dyr að fjölbreyttum starfsmöguleikum. Útskrifaðir nemendur frá Bifröst reka m.a. eigin lögmannstofur, starfa á alþjóðavettvangi, t.d. hjá EFTA, í bönkum eða hjá hinum ýmsu ráðuneytum. Lögð er rík áhersla á hagnýta tengingu námsins, á starfsþjálfun nemenda og kjósa margir nemendur að fara í starfsnám sem tengist áhugasviði þeirra í námi.

Nám á Bifröst

Við Háskólann á Bifröst er áhersla lögð á persónulega þjónustu til nemenda. Ánægjukannanir sýna að mikill meirihluti nemenda er afar ánægður með námið og samskipti við kennara og starfsfólk. Hverri önn er skipt upp í tvær lotur. Verkefnavinna er stór þáttur í námsmati háskólans og vinna nemendur að verkefnum jafnt og þétt yfir lotur skólaársins. Sjö vikur eru í hvorri lotu og ein staðlota, þar sem þú hittir kennara og samnemendur og tekur þátt í umræðum og hópverkefnum.

Önnur sérstaða í kennsluháttum Háskólans á Bifröst eru misserisverkefni eða missó, eins og verkefin eru gjarnan nenfd. Missó tekur mið af á kennsluaðferð sem kallast lærdómsþróun (e. learning by developing) og miðar að því að auka hæfni nemenda á fyrir vinnumarkaðinn að námi loknu. Nánar um sérstöðu námsins við Háskólann á Bifröst

Framvinda og námslok

Grunnnám er 190 ECTS og á Bifröst gefst nemendum kostur á að ljúka námi á tveimur og hálfu ári þar sem boðið er upp á nám á sumarönn. Nemendur geta því lokið 80 ECTS einingum á ári í stað 60. Með þessu móti er hægt að ljúka námskeiðum að mestu leyti á fyrstu tveimur námsárum, en á þriðja ári gera nemendur lokaverkefni auk þess að ljúka einingum sem eftir eru með starfsþjálfun eða valnámskeiðum. Á fyrsta námsári taka nemendur fjögur námskeið (samtals 18 ECTS einingar) um aðferðafræði og vinnubrögð. Náminu lýkur með 14 eininga BA ritgerð.

Inntökuskilyrði

TIl að geta innritast í námið þurfa nemendur að hafa lokið stúdentsprófi eða sambærilegri menntun t.d. úr Háskólagátt Háskólans á Bifröst.

Námsskrá

Námsskrá inniheldur upplýsingar um skipulag náms, kennsluaðferðir og námskeiðslýsingar ásamt lýsingu á þeirri þekkingu, leikni og hæfni sem nemendur eiga að búa yfir að námi loknu. Umsjón með námslínu hefur Elín H.  Jónsdóttir forseti lagadeildar.  

Hér má finna skipulag námsins í kennsluskrá

Hér má finna skipulag náms í BS í viðskiptalögfræði með vinnu í kennsluskrá 

Hvað segja nemendur

Bifröst tengir laganámið við raunveruleikann; það sem lögfræðingar þurfa raunverulega að fást við á vinnumarkaði. (Matthildur Sveinsdóttir, lögfræðingur hjá Neytendastofu)

Umsóknarfrestur er til 10.  desember nk.

SÆKJA UM