BS í viðskiptalögfræði

Háskólinn á Bifröst var fyrstur íslenskra háskóla til að bjóða upp á þverfaglega námsgráðu í lögfræði með BS námi í viðskiptalögfræði. Þar fléttast saman tvær hagnýtar námsgreinar þannig að úr verður fjölbreytt og krefjandi nám sem þjónar hagsmunum atvinnulífsins einkar vel. Námið á sér fyrirmynd víða í nágrannalöndum okkar þar sem slík blanda lögfræði og viðskiptafræði er vel þekkt og vinsælt nám. Náminu er ætlað að veita hagnýtan og fræðilegan undirbúning að fjölbreyttum sérfræðings- og stjórnunarstörfum og lögð er áhersla á að nemendur öðlist haldgóða þekkingu á viðfangsefnum beggja fræðasviða.

Mikil áhersla er lögð á námsvirkni nemenda og raunhæfa verkefnavinnu og hefur námið á Bifröst sannað gildi sitt. T.a.m. var nemandi frá Bifröst fyrsti dómarinn við íslenskan dómstól sem ekki er útskrifaður frá Háskóla Íslands og að auki voru  nemendur frá Bifröst fyrstir utan Háskóla Íslands til að hljóta réttindi til að starfa sem héraðs- og hæstaréttarlögmenn.

Alþjóðleg tenging

Námið er einnig með alþjóðlega tengingu. Skólinn tekur þátt í LawWithoutWalls sem er samstarfsverkefni margra af virtustu lagadeildum í heimi eins og Harvard, Stanford og University of Miami. Lögfræðisviðið leggur áherslu á nýsköpun í allri kennslu. Nemendur eru virkjaðir til skapandi hugsunar  á sviði lögfræði og leitað er svara við því hvernig lögfræðingar geta nýtt tækninýjungar í störfum sínum til að fjölga tækifærum á atvinnumarkaði.

Að loknu námi

Nám í viðskiptalögfræði opnar dyr að fjölbreyttum starfsmöguleikum. Útskrifaðir nemendur frá Bifröst reka m.a. eigin lögmannstofur, starfa á alþjóðavettvangi, t.d. hjá EFTA, í bönkum eða hjá hinum ýmsu ráðuneytum. Lögð er rík áhersla á hagnýta tengingu námsins, á starfsþjálfun nemenda og kjósa margir nemendur að fara í starfsnám sem tengist áhugasviði þeirra í námi.

Nám á Bifröst

Í Háskólanum á Bifröst er leitast við að þróa námsbrautir í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru í atvinnulífi og samfélagi. Kennarar eru starfandi sérfræðingar á hverju sviði fyrir sig enda státar Háskólinn á Bifröst af afar sterkum tengslum við atvinnulífið. Við Háskólann á Bifröst er lögð mikil áhersla á persónulega þjónustu til nemenda, bæði af hálfu kennara og annars starfsfólks skólans.

Rík áhersla er lögð á að nemendur geti annars vegar unnið sjálfstætt og hins vegar í hópi. Jafnframt er  áhersla lögð á gagnrýna hugsun og hagnýta tengingu við úrlausn raunhæfra verkefna. Verkefnavinna er stór þáttur námsmats og vinna nemendur að verkefnum jafnt og þétt yfir hverja lotu og þannig geta nemendur tileinkað sér skilning á námsefninu jafnt og þétt. Kennarar leggja inn hljóðfyrirlestra á kennslukerfi skólans reglulega til að miðla kennsluefni til nemenda. Nemendur geta síðan nálgast fyrirlestrana og farið yfir á þeim tíma sem hentar hverjum og einum. Námið í Háskólanum á Bifröst fer fram í lotubundinni kennslu. Önninni er þannig skipt upp í tvær lotur, 7 vikur hver. Á vinnuhelgum á Bifröst fá nemendur tækifæri til að taka þátt í fjölbreyttum viðfangsefnum. Vinnuhelgar fara fram tvisvar sinnum á önn, þ.e. ein helgi á hvorri lotu. Þá gefst nemendum tækifæri til þess að hitta kennara, samnemendur, taka þátt í umræðum og hópverkefnum, sem og hlýða á gestafyrirlesara úr atvinnulífinu í námskeiðum sem það á við.

Sérstaða í kennsluháttum Háskólans á Bifröst felst meðal annars í svökölluðum misserisverkefnum. Auk þeirra verkefna sem unnin eru innan einstakra námskeiða gefst nemendum því kostur á að vinna sjálfstæð hópverkefni á þeirra kjörsviði á meðan náminu stendur. Misserisverkefnin eru kennd yfir sumarannir og eru þau viðamikil verkefni sem nemendur vinna saman sem teymi af 4-6 einstaklingum að rannsóknum og úrlausn sjálfstæðra hópverkefna sem eru síðan kynnt og lögð í dóm kennara og samnemenda. Samhliða misserisverkefnum fá nemendur markvissa þjálfun í verkefnastjórnun. Nemendur eiga að vinna tvö slík verkefni í náminu. Í misserisverkefnum er byggt á kennsluaðferð sem kallast lærdómsþróun (e. learning by developing). Þetta er kennsluaðferð sem byggir á náinni samvinnu nemenda og leiðbeinenda sem og annarra fagaðila á vinnumarkaði. Verkefnavinnan gerir miklar kröfur til nemenda en í verkefnunum er haft að leiðarljósi að þróa nýjar leiðir til að auka verðmætasköpun, samkeppnishæfi, sjálfbærni og nýsköpun. Með aðferðum lærdómsþróunar hafa nemendur stórt hlutverk sem styrkir þá og eykur hæfni þeirra til að takast á við raunverkefni þegar út á vinnumarkaðinn er komið að loknu námi. Einnig hjálpa þessi verkefni nemendum að undirbúa sig við þá vinnu sem felst í því að skrifa lokaritgerð.

Framvinda og námslok

Grunnnám er 190 ECTS og á Bifröst gefst nemendum kostur á að ljúka námi á tveimur og hálfu ári þar sem boðið er upp á nám á sumarönn. Nemendur geta því lokið 80 ECTS einingum á ári í stað 60. Með þessu móti er hægt að ljúka námskeiðum að mestu leyti á fyrstu tveimur námsárum, en á þriðja ári gera nemendur lokaverkefni auk þess að ljúka einingum sem eftir eru með starfsþjálfun eða valnámskeiðum. Á fyrsta námsári taka nemendur fjögur námskeið (samtals 18 ECTS einingar) um aðferðafræði og vinnubrögð. Náminu lýkur með 14 eininga BA ritgerð.

Bifröst tengir laganámið við raunveruleikann; það sem lögfræðingar þurfa raunverulega að fást við á vinnumarkaði.

- Matthildur Sveinsdóttir,
lögfræðingur hjá Neytendastofu

Inntökuskilyrði

TIl að geta innritast í námið þurfa nemendur að hafa lokið stúdentsprófi eða sambærilegri menntun t.d. úr Háskólagátt Háskólans á Bifröst.

Námsskrá

Námsskrá inniheldur upplýsingar um skipulag náms, kennsluaðferðir og námskeiðslýsingar ásamt lýsingu á þeirri þekkingu, leikni og hæfni sem nemendur eiga að búa yfir að námi loknu.

Hér má finna skipulag námsins í kennsluskrá skólans.

Umsjón með námslínu: Elín H.  Jónsdóttir forseti lagadeildar

Umsóknarfrestur er 15. júní fyrir haustönn og 13. desember fyrir vorönn

SÆKJA UM