Líðan og heilsa
Til þess að hámarka árangur okkar og frammistöðu, hvort heldur sem er í námi, starfi eða einkalífi þurfum við að vera í góðu formi bæði líkamlega og andlega. Rannsóknir sýna að ef andleg heilsa er ekki góð getur það komið fram í líkamlegum einkennum og öfugt. Öllum sem er annt um hamingju sína og velferð þurfa því að vera vakandi fyrir eigin líðan og heilsu.
Náms- og starfsráðgjafar skólans aðstoða nemendur að finna leiðir þegar upp koma áskoranir sem geta haft áhrif á námsframvindu, svo sem veikindi, slys, áföll, breytingar á fjölskylduhögum, kvíðaröskun og þunglyndi.
Streita
Kröfur sem við finnum fyrir í dag hafa sjaldan verið meiri, ekki síst kröfurnar sem við gerum til okkar sjálfra, bæði í einkalífi og starfi. Það getur verið stutt á milli þess að vera virkur, áhugasamur og ánægður í starfi yfir í að finna fyrir neikvæðum streitueinkennum. Því er afar gott að geta gripið til margs konar ólíkra aðferða til að reyna að fyrirbyggja of mikla streitu. Við erum jú öll ólík og aðstæður misjafnar (Virk, 2025).
Nánari upplýsingar og myndbönd um streitustigann má finna á vef Velvirk.
Vellíðan
Allir vilja upplifa vellíðan í eigin lífi. Hér eru fimm einföld ráð sem rannsóknir hafa sýnt að skipti mestu fyrir hamingju og lífsánægju. Ráðin eru myndaðu tengsl, vertu virkur í samfélaginu, vertu forvitin, haltu áfram að læra og gefðu af þér. Leiðir að vellíðan af vef Heilsuveru.Myndaðu tengsl
Myndaðu tengsl við fólkið í kringum þig, fjölskyldu þína, vini, samstarfsfólk og nágranna. Ræktaðu tengslin heima hjá þér, í vinnunni, í skólanum og í nánasta umhverfi þínu. Líttu á þessi tengsl sem hornsteina lífs þíns og gefðu þér tíma til að hlúa að þeim. Að byggja upp þessi tengsl styrkir þig og auðgar líf þitt á hverjum degi.
Leiðir til að efla tengslin eru fjölmargar og í raun bara hugmyndaflugið sem heftir fólk í því. Tilvalið er að gera eitthvað saman og skapa með því góðar minningar. Það eflir líka tengslin að hjálpast að við þau verkefni sem fyrir liggja.
Vertu virk/ur
Farðu út að ganga eða í sund. Njóttu útivistar. Hjólaðu. Farðu í leiki. Ræktaðu garðinn. Dansaðu. Hreyfing færir þér vellíðan. Það er mikilvægasta er að finna hreyfinu sem þú hefur gaman af og hentar líkamlegu ástandi þínu og getu.
Það eykur líkurnar á að það takist ef þú færð vin eða fjölskyldumeðlim til að vera með þér í hreyfingunni. Flestum finnst bæði skemmtilegra og auðveldara að hreyfa sig með öðrum. Það eflir líka tengslin og þannig má segja að tvær flugur séu slegnar í sama högginu.
Taktu eftir
Haltu í forvitnina. Taktu eftir hinu óvenjulega. Veittu árstíðabreytingum athygli. Njóttu augnabliksins, hvort sem þú ert úti að ganga, að borða hádegismat eða tala við vini þína.
Vertu vakandi fyrir veröldinni í kringum þig og hvernig þér líður. Að leiða hugann að því sem þú upplifir hjálpar þér að meta það sem skiptir þig máli.
Haltu áfram að læra
Prófaðu eitthvað nýtt. Rifjaðu upp gamalt áhugamál. Skráðu þig á námskeið. Taktu að þér ný verkefni. Lærðu að spila á hljóðfæri eða elda uppáhaldsmatinn þinn.
Settu þér markmið sem þú munt hafa gaman af að ná. Það er skemmtilegt að læra nýja hluti og eykur sjálfstraustið.
Gefðu af þér
Gerðu eitthvað fallegt fyrir vil þinn eða ókunnuga manneskju. Sýndu þakklæti, brostu og gefðu af tíma þínum. Taktu þátt í félags- eða sjálfboðastarfi.
Fjölmörg góðgerðafélög eru rekin af sjálfboðaliðum og innan íþróttafélaganna er alltaf þörf fyrir vel meinandi sjálfboðaliða. Hikaðu ekki við að taka að þér verkefni fyrir félagsskap sem þú tengist eða hefur áhuga á.
Horfðu út á við og líka inn á við. Að líta á sig og hamingju sína sem hluta af stærra samhengi getur verið einstaklega gefandi og eflir tengslin við fólkið í kringum þig.
Nánari upplýsingar og fræðslumyndbönd má finna á heilsuvera.is
Hvað er góð geðheilsa?
Til eru margar skilgreiningar á góðri geðheilsu en flestar snúa þær að því að fólk sé sátt við sjálft sig og umhverfi sitt, upplifi jafnvægi, öryggi og ánægju af lífi og starfi, búi yfir færni til að takast á við áskoranir lífsins og geti aðlagast breytilegum aðstæðum.
Upplýsingar um góða geðheilsu má nálgast á vef Heilsuveru. Þar má einnig finna Geðorðin 10 sem byggja á reyndum aðferðum til að efla geðheilsu og vellíðan. Geðrækt er hluti af heilsurækt — því engin heilsa er án geðheilsu.
Heilsa og líðan | Jafnvægi í lífi og starfi | Áföll og ofbeldi |
| Píeta samtökin. Það er alltaf von - vantar þig hjálp? | Þrautseigja - Bjargráð - Krefjandi tímabil | Sorgarmiðstöð |
| How to be Happy (Even If You've Forgotten What it Feels Like) | Bjarkarhlíð | |
