MS-MLM í forystu og stjórnun

Meistaranám í forystu og stjórnun við Háskólann á Bifröst er 90 ECTS eininga nám sem hægt er að ljúka með MS gráðu og einnig MLM gráðu.

MS gráða er 90 eininga meistaranám þar sem nemendur ljúka 10 námskeiðum (60 ECTS einingar) og MS ritgerð (30 ECTS einingar).

MLM gráða er 90 eininga viðbótarnám á meistarastigi án lokaritgerðar. Nemendur ljúka 15 námskeiðum (90 ECTS einingar).

Meistaranám í forystu og stjórnun er fjölmennasta námsbrautin við Háskólann á Bifröst. Við undirbúning og hönnun námsins var framkvæmd þarfagreining á því sem námið þyrfti að innihalda til að það yrði sem gagnlegast og þannig tengd saman fræði og praktík. Meistaranám í forystu og stjórnun er fjölbreytt og krefjandi nám sem ætlað er að búa nemendur undir forystu- og stjórnunarstörf. Námið á að gefa nemendum hagnýta þekkingu á viðfangsefninu og dýpka fræðilegan skilning og grunn. Námið undirstrikar og styður við hlutverk Háskólans á Bifröst sem er m.a. að undirbúa fólk fyrir forystustörf í atvinnulífi og samfélagi, með sjónarmið sjálfbærni og samfélagslegrar ábyrgðar að leiðarljósi. 

Boðið er upp á tvær leiðir í forystu og stjórnun. Nemendur geta annars vegar valið um forystu og stjórnun með áherslu á mannauðsstjórnun og hins vegar um forystu og stjórnun með áherslu á verkefnastjórnun.

Forysta er margþætt hugtak sem þarf að skoða út frá mörgum sjónarhornum. Til að ná því markmiði eru fjölbreytt námskeið í boði sem mynda bæði fræðilegan og hagnýtan grunn. Sérstakt námskeið í þjónandi forystu, (e. servant leadership), er önnur undirstaða námsins en innan þess eru einnig kennd námskeið þar sem fjallað er um margar ólíkar kenningar innan leiðtogafræðanna. Auk þess er sérstök áhersla lögð á samskipti og samskiptahæfni í náminu.

Stafrænt nám

Hvert námskeið í stafrænu námi er allajafna kennt í 7 vikna lotum (tvö námskeið eru kennd yfir tvær lotur) og í hverju námskeiði er ein staðlota á Bifröst. Í öllum námskeiðum liggja fyrir ákveðin þekkingar-, leikni- og hæfnimarkmið. Í hverri viku birtir kennari fjarfyrirlestra þar sem m.a. er fjallað um efni vikunnar og verkefni eru kynnt og útskýrð. Lögð eru fyrir verkefni jafnt og þétt sem þjálfa nemendur í að öðlast þá leikni og hæfni sem að er stefnt í hverju námskeiði fyrir sig. Á vinnuhelgum fer síðan fram verkefnavinna og umræður með kennara. Gert er ráð fyrir talsverðri verkefnavinnu í hverju námskeiði og lögð er áhersla á hópa- og teymisvinnu í verkefnum.

Inntökuskilyrði

Inntökuskilyrði í meistaranám í viðskiptafræði er grunnnámsgráða á háskólastigi eða menntun sem telja má sambærilega við grunngráðu í háskóla. Leitað er að fjölbreyttum hópi  umsækjenda með mismunandi menntun og starfsreynslu. Sú dýrmæta reynsla sem nemendur öðlast af því að læra og vinna með fjölbreyttum hópi nemenda með mismunandi bakgrunn er ómetanleg. Nemendahópurinn á það sameiginlegt að vilja öðlast framúrskarandi þekkingu, þjálfun og undirbúning fyrir stjórnunarstörf nútímans.

Námskrá MS/MLM í forystu og stjórnum

Námskrá inniheldur upplýsingar um skipulag náms, kennsluaðferðir og námskeiðslýsingar ásamt lýsingu á þeirri þekkingu, leikni og hæfni sem nemendur eiga að búa yfir að námi loknu.

Hér má finna skipulag MS námsins í kennsluskrá

Hér má finna skipulag MLM námsins í kennsluskrá


Umsóknarfrestur er til 10.  desember nk.

 SÆKJA UM