Algengar spurningar

um námið við Háskólann á Bifröst

 • Hver er umsóknarfresturinn?

  Tekið er við umsóknum um nám á haustönn 2023 við Háskólann á Bifröst til og 31. mai 2023.
  Umsóknarfresturinn gildir fyrir bæði grunnnám og meistaranám.

 • Hver eru inntökuskilyrðin?

  Grunnnám
  Nemendur þurfa að hafa lokið stúdentsprófi eða sambærilegri menntun t.d. úr Háskólagátt Háskólans á Bifröst.

  Meistaranám
  Inntökuskilyrði í meistaranám við skólann er grunngráða háskólanáms (t.d. BS, BA, B.Ed eða BFA) sem að jafnaði hefur verið lokið með fyrstu einkunn (>7,25), eða menntun og reynsla sem telja má sambærilega við grunngráðu í háskóla . 

  Meistaranám í lögfræði (ML) er sérstaklega ætlað nemendum sem lokið hafa grunnháskólagráðu í lögfræði eða viðskiptalögfræði og hafa áhuga á að starfa í réttarkerfinu, t.d. við lögmennsku.

  Nemendur í meistaranámi í viðskiptalögfræði (MBL) sem ekki hafa BA/BS gráðu á sviði lögfræði þurfa að ljúka námskeiði í inngangi að lögfræði samhliða eða áður en meistaranám hefst. 

  Háskólagátt

  Nám í Háskólagátt er ætlað fullorðnum nemendum. Þeir sem uppfylla eitthvert af eftirfarandi geta sótt um nám í háskólagátt:

  • Hafa lokið námi til starfsréttinda eða öðru námi af hæfniþrepi 2 eða hærra
  • Hafa lokið Menntastoðum og hafa auk þess a.m.k. 2.-3. ára reynslu á vinnumarkaði
  • Hafa lokið a.m.k. 100 einingum í framhaldsskóla (60 einingum í eldra kerfi)

  Leggi umsækjandi fram gilt raunfærnimat tekur skólinn mið af því við meðhöndlun umsóknar.

  Nám í Háskólagátt er lánshæft hjá Menntasjóði Námsmanna - sjá nánar á www.menntasjodur.is

 • Hvað þarf að fylgja umsókninni?

  Öllum umsóknum skal fylgja ferilskrá, staðfest afrit af prófskírteini, námsferilsyfirlit þar sem meðaltalseinkunn kemur fram og stutt kynningarbréf.

  Skönnuð prófskírteini skulu vera í frumriti eða staðfest afrit með stimpli frá viðkomandi skóla.

 • Hvar fæ ég upplýsingar um stöðu umsóknarinnar?

  Þú fylgist með stöðu umsóknar þinnar á samskiptagátt Háskólans á Bifröst.

 • Hvað greiði ég í skólagjöld?

  Skólagjöld við Háskólann á Bifröst eru ákveðin fyrir hvert skólaár í senn. Athugaðu að innritunar- og staðfestingargjald dregst frá skólagjöldum.

  Skólaárið í grunn- og meistaranámi, háskólagátt og endurmenntun hefst um mánaðamótin júlí/ágúst.

  Skólagjöld eru jafnan lánshæf hjá Menntasjóði námsmanna

  Smelltu hér til að fá upplýsingar um skólagjöldin

 • Hvaða greiðslumöguleikar eru í boði?

  Boðið er uppá eftirfarandi greiðslumöguleika á skólagjöldum:

  Krafa í heimabanka
  Reikningur vegna skólagjalda er sendur út eigi síðar en fyrsta virka dag eftir að frestur til úrsagnar úr námskeiðum er liðinn. Eindagi er 10 dögum frá útgáfudegi reiknings.

  Visa
  Hægt er að greiða með einni kortagreiðslu (símgreiðslu) eða kortaláni. Þeir sem vilja nýta þér þessar greiðsluleiðir þurfa að hafa samband við innheimtufulltrúa í síma 433 3033 til að ganga frá greiðslu.

  Netgíró
  Hægt er að greiða í gegn um netgíró þar sem viðkomandi getur svo skipt greiðslunni eins og hentar best. Þeir sem vilja nýta sér þessa greiðsluleið þurfa að hafa samband við innheimtufulltrúa í síma 433 3033 til að ganga frá greiðslu.

 • Hvernig er kennslufyrirkomulagið?

  Lang flest námskeið í fjarnámi eru kennd í einni 7 vikna lotu. Aðeins tvö námskeið eru kennd yfir tvær lotur.

  Í hverju námskeiði er jafnframt ein staðlota á Bifröst og er sama staðlotan fyrir öll námskeið, þannig að þetta kemur út sem ein staðlota á hverja 7 vikna lotu. 

  Öll námskeið gera kröfur um tiltekin þekkingar-, leikni- og hæfnimarkmið.

  Í hverri viku birtir kennari stafræna fyrirlestra þar sem m.a. er fjallað um efni vikunnar og verkefni eru kynnt og útskýrð.

  Verkefni eru lögð fyrir jafnt og þétt sem þjálfa nemendur í að öðlast þá leikni og hæfni sem að er stefnt í hverju námskeiði fyrir sig.

  Í staðlotum fer fram verkefnavinna og umræður með kennara. Gert er ráð fyrir talsverðri verkefnavinnu í hverju námskeiði og lögð er áhersla á hópa- og teymisvinnu í verkefnum.

 • Hvenær hefst kennsla?

  Upplýsingar um upphaf kennslu, nýnemadaga og kennslutímabil má finna í dagskrá skólaársins á heimasíðu skólans www.bifrost.is 

 • Hvað eru misserisverkefni?

  Misserisverkefni eru sérstaða Háskólans á Bifröst, en þau felast í því að nemendum gefst kostur á að vinna sjálfstæð hópverkefni sem tilheyra þeirra kjörsviði á meðan á náminu stendur. 

  Misserisverkefnin eru kennd yfir sumarannir og eru þau viðamikil verkefni. Nemendur vinna í 4-6 manna teymum að rannsóknum og úrlausn sjálfstæðra hópverkefna sem eru síðan kynnt og lögð í dóm kennara og samnemenda.

  Misserisverkefnin veita nemendum markvissa þjálfun í verkefnastjórnun. Nemendur vinna tvö slík verkefni í náminu.

   

 • Hvernig sæki ég um mat á fyrra námi?

  Innritaðir nemendur við Háskólann á Bifröst geta sótt um mat á fyrra námi hafi þeir stundað sambærilegt háskólanám. Umsóknir eru sendar inn í gegn um þjónustugátt á heimasíðu skólans www.bifrost.is

  Umsóknarfrestur rennur út:

  1. september á haustönn
  2. janúar á vorönn
 • Hvernig fæ ég viðtal hjá námsráðgjafa?

  Náms- og starfsráðgjafi er með skrifstofu á annarri hæð í eldri byggingu skólans. Viðtöl og ráðgjöf fara fram alla virka daga kl. 9-15 á Bifröst, Reykjavík, fjarfundi eða símleiðis. Mánudaga er hægt að panta tíma í Reykjavík. 

  Námsráðgjafi er með beint símanúmer 433 3028 og netfangið namsradgjof@bifrost.is

 • Get ég sótt um starfsnám?

  Nemendur geta sótt um starfsnám í stað valnámskeiðs. Starfsnámið er í öllum tilvikum ólaunað en nemendur fá 6 ECTS einingar fyrir fulla vinnu í fjórar vikur (160 klukkustundir). Starfsnámið er valkostur sem nemendur í öllum námslínum í grunn- og meistaranámi geta sótt um.

  Skilyrði þess að komast í starfsnám er að nemandi hafi lokið 110 ECTS í grunnnámi og 30 ECTS í meistaranámi og hafi fyrstu einkunn. Ákvörðun um hvort nemandi fái námsvist byggist á námsárangri, hversu langt nemandi er kominn í námi svo og þörfum og óskum samstarfsaðila skólans.

  Umsjónarmaður starfsnámsins er Jóhanna Marín Óskarsdóttir, starfsnam@bifrost.is

  Nánar um starfsnám hér: https://www.bifrost.is/namid/handbok-nemenda/starfsnam

   

   

 • Get ég farið í skiptinám?

  Nemendum býðst að fara og stunda nám í einum af samstarfsskólum Bifrastar erlendis og er námið metið inn í grunnnám viðkomandi svo ekki glatist mikilvægur tími úr náminu. Skiptinám er góður undirbúningur fyrir nám og störf í alþjóðlegu umhverfi og um leið fá nemendur tækifæri til að kynnast annarri menningu, öðlast mikilvæga reynslu og víkka sjóndeildarhringinn. 

  Háskólinn er aðili að Erasmus-samstarfi evrópskra háskóla og er einnig með marga tvíhliða samninga við sérvalda háskóla utan Evrópu. Bifröst er meðlimur í "University of the Arctic" sem er samstarf nokkurra háskóla í Kanada, Bandaríkjunum, Grænlandi, Íslandi, Noregi, Svíþjóð, Finnlandi og Rússlandi. Bifröst tekur einnig þátt í "north2north" skiptinemasamstarfi á vegum UArtic.

  Nánari upplýsingar um skiptinám erlendis má nálgast hér: https://www.bifrost.is/thjonusta/althjodaskrifstofa

  Nánari upplýsingar eru veittar á netfanginu international@bifrost.is eða í síma 433 3011.