Verklagsreglur um viðbrögð við kynferðislegri og kynbundinni áreitni og ofbeldi

Nemendur, kennarar og starfsfólk Háskólans á Bifröst á hverjum tíma mynda háskólasamfélag þar sem gagnkvæmt traust og virðing ríkir í samskiptum. Allir einstaklingar innan þessa samfélags eiga að búa við það öryggi að þeir verði hvorki fyrir kynferðislegu né kynbundinni áreitni eða ofbeldi. Ef einstaklingur innan skólans telur sig verða fyrir slíku ber skólasamfélaginu að bregðast við með ábyrgum og skipulögðum hætti.

Við líðum hvorki kynferðislega áreitni eða ofbeldi né kynbundna áreitni eða ofbeldi og höfum því sett þessar verklagsreglur. Auk þess eru í siðareglum skólans ákvæði sem lúta að kynferðislegu og kynbundinni áreitni og ofbeldi. Verklagsreglurnar eru lifandi skjal sem verður endurskoðað eftir þörfum.

1. gr.
Markmið

Við líðum hvorki kynferðislega áreitni eða ofbeldi né kynbundna áreitni eða ofbeldi í Háskólanum á Bifröst í kennslu, almennu starfi eða öðrum samskiptum sem eiga sér stað í skólastarfinu við Háskólann á Bifröst eða í tengslum við starfsemi skólans.

Markmið verkslagsreglna þessara er að tryggja að úrræði sé til staðar telji einstaklingur sig hafa orðið fyrir kynferðislegu og/eða kynbundinni áreitni eða kynferðislegu og/eða kynbundnu ofbeldi.

2. gr.
Skilgreiningar

Með kynbundinni áreitni er átt við hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, er í óþökk viðkomandi og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi. Áreitni getur verið líkamleg, orðbundin eða táknræn. Eitt tilvik getur talist kynbundin áreitni.

Með kynferðislegri áreitni er átt við hvers kyns kynferðislega hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg. Eitt tilvik getur talist kynferðisleg áreitni.

Með kynbundnu ofbeldi er átt við ofbeldi á grundvelli kyns sem leiðir til eða gæti leitt til líkamlegs, kynferðislegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir því verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennd svipting frelsis, bæði í einkalífi og á opinberum vettvangi.  

Með kynferðislegu ofbeldi er átt við brot gegn kynfrelsi einstaklings sem lýst eru refsiverð í XXII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Með starfsfólki er átt við alla þá er vinna fyrir skólann, hvort sem það er starfsfólk í akademískum eða öðrum störfum, verktakar eða stundakennarar.

Með samvinnu, samskiptum og samneyti er átt við fundi, kennslustundir, vinnustofur, samkomur, tölvupóstssamskipti, samfélagsmiðla, símtöl og aðrar aðstæður sem skapast í tengslum við skólastarfið.

Með tilkynningu er átt við að formlegt mál hafi borist til fagráðs um viðbrögð við kynbundinni og kynferðislegri áreitni og ofbeldi og verði tekið til meðferðar skv. verklagsreglum þessum.

Með erindi er átt við óformlega kvörtun sem einstaklingur ber upp við yfirmann, deildarforseta, samstarfsfólk eða samnemanda án þess að einstaklingurinn vilji að farið verði með málið til meðferðar hjá fagráði um viðbrögð við kynbundinni og kynferðislegri áreitni og ofbeldi.

Með aðilum máls er átt við þann/þá/hán sem talið er að hafi brotið af sér og þann/þá/hán sem talið er að hafi orðið fyrir broti.

3. gr.
Fagráð um viðbrögð við kynbundinni og kynferðislegri áreitni og ofbeldi

Sérstakt ráð sem skipað er þremur einstaklingum mun taka við, fjalla um og meðhöndla tilkynningar sem til þess er beint frá einstaklingum og/eða aðilum innan skólasamfélagsins og falla undir þær skilgreiningar sem tilgreindar eru í 2. gr. Ráðið er skipað tveimur einstaklingum sem starfa utan skólans og hafa faglega þekkingu sem nýtist í málefnum sem þessum. Háskólaráð skal samþykkja skipun ráðsins og þá tvo utanaðkomandi aðila sem skipa ráðið. Þriðji aðilinn í ráðinu er valinn af starfsfólki skólans í almennri leynilegri atkvæðagreiðslu. Sá aðili skal hafa þekkingu og vilja til að sinna málum sem þessum. Formaður ráðsins skal vera annar tveggja utanaðkomandi fulltrúa. Skipunartími ráðsins er þrjú skólaár. Við endurnýjun í ráðið skal þess gætt að ekki verði skipt um alla fulltrúa samtímis.

Við skipun í ráðið skal gætt að ákvæðum laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Ráðið skal afhenda kennslustjóra Háskólans á Bifröst árlega tölfræðilegar upplýsingar um störf þess.

4. gr.
Ferill

Ef einstaklingur í háskólasamfélaginu telur á sér brotið getur viðkomandi tilkynnt um slíkt til næsta yfirmanns, deildarforseta eða til einhvers fulltrúa í fagráðinu. Einnig getur viðkomandi snúið sér til hvers þess innan skólans sem hann ber traust til.

Hafi einhver starfsmaður eða nemandi innan skólans rökstuddan grun eða vitneskju um brot á öðrum einstaklingi af hálfu starfsmanns eða nemanda, skal viðkomandi snúa sér til formanns ráðsins eða til aðila innan skólans sem hann ber traust til. Hver sá sem tekur við tilkynningu skal umsvifalaust vísa erindinu til formanns ráðsins sem tekur málið til faglegs mats, um þá tilkynningu gildir fullur trúnaður og þagmælska.

Frekari meðferð málsins fer eftir því hverju viðkomandi þolandi óskar eftir. Ef um brot er að ræða sem talið er að falli undir ákvæði almennra hegningarlaga skal þolanda bent á að beina málinu til meðferðar hjá lögregluyfirvöldum. Ákvörðun er þó alltaf á hendi þolanda og mun viðkomandi hljóta aðstoð frá ráðinu eftir því sem óskað verður. Ef ákveðið er að vísa máli til lögreglu aðhefst ráðið ekki frekar í því.  

Ef um annars konar atvik/hegðun/viðmót er að ræða sem þessar verklagsreglur fjalla um og einstaklingurinn óskar eftir að brugðist verði við í samræmi við þær skal það gert svo fljótt sem auðið er, sjá 7. gr.

Ef einstaklingur kemur til næsta yfirmanns, deildarforseta eða fulltrúa í ráðinu með erindi í stað tilkynningar, svo sem í samtali eða hann leitar eftir ráðgjöf um kynferðislega/kynbundna áreitni eða ofbeldi, skal virða ósk viðkomandi (þolanda) um málsmeðferð og bregðast við svo fljótt sem auðið er sjá 7. gr. Næsti yfirmaður getur leitað sérfræðiaðstoðar utan skólans vegna slíkra mála sem heyra undir verklagsreglurnar.

5. gr.
Meðferð mála innan ráðsins

Þegar einstaklingur leitar til ráðsins, ber því að koma saman svo fljótt sem auðið er og fjalla um málið. Sjónarmið viðkomandi og þess/þeirra aðila sem málið varða þurfa að koma fram í málinu með skipulegum hætti. Ráðið aflar þeirra gagna sem það telur þörf á, svo sem með því að ræða við aðila máls og eftir atvikum aðra sem varpað geta ljósi á málið. Ráðið skal hafa til hliðsjónar í störfum sínum ákvæði stjórnsýslulaga eins og við á. Um þau gögn sem og allt starf ráðsins gildir fullur trúnaður. Ráðið skal halda fundargerðir.

Ráðið skal gæta jafnræðis og meðalhófs og skila af sér niðurstöðu svo fljótt sem verða má, sjá 7. gr. Þær aðgerðir sem gripið er til í ferli máls skulu vera í samráði við þann aðila sem leitar til ráðsins (þolanda).

Þegar skrifleg niðurstaða liggur fyrir skal ráðið tilkynna málsaðilum um hana með formlegum hætti á fundi með hvorum málsaðila fyrir sig. Ráðið tilkynnir einnig yfirmönnum og/eða deildarforseta um niðurstöður sínar með umsögn. Telji ráðið að um brot hafi verið að ræða skal það gera tillögur að viðbrögðum og til hvaða úrræða réttast er að grípa. Endanlegt ákvörðunarvald í málum þessum er í samræmi við reglugerð Háskólans á Bifröst.

6. gr.
Viðbrögð

Á meðan mál er til umfjöllunar í ráðinu ber að veita málsaðilum þann faglega stuðning sem unnt er, t.d. sálfræðiráðgjöf ef þess er óskað og lengur ef með þarf.

Ef erindi sem fellur undir verklagsreglurnar berst til yfirmanns eða deildarforseta en er ekki tilkynnt til ráðsins, getur skólinn veitt faglegan stuðning, t.d. sálfræðiráðgjöf ef þess er óskað og þörf er á.

Ef aðilar máls starfa saman í deild eða eru nemendur í sama námsumhverfi (í sama námskeiði eða námi) þá ber að skoða hvort að gera þurfi ráðstafanir varðandi samskipti, samvinnu og samneyti málsaðila. Reynt skal að ná sáttum um vinnutilhögun meðan málið er í skoðun. Óheimilt er að flytja til í námi eða starfi einstakling sem hefur kvartað eða orðið fyrir broti, vegna kynbundinnar eða kynferðislegrar áreitni eða ofbeldis, nema viðkomandi óski þess.

7. gr.
Tímarammi

Brýnt er að brugðist sé við málum sem þessar verklagsreglur fjalla um svo fljótt sem auðið er og að niðurstaða liggi fyrir eigi síðar en tveimur mánuðum eftir að einstaklingur tekur upp mál við yfirmann, deildarforseta eða ráðið.

8. gr.
Gildistaka

Verklagsreglurnar tóku gildi 30. maí 2018 og skulu endurskoðaðar eftir þörfum, eða a.m.k. á þriggja ára fresti.

Verklagsreglurnar skulu vera sýnilegar og aðgengilegar á ytri vef skólans og kynntar reglulega nemendum og starfsfólki.

 

Yfirfarið á fundi í Háskólaráði 15. maí 2019

Gildir frá 1. ágúst 2019

Staðfest af rektor 4. júní 2019