Áætlun um forvarnir vegna kynbundinnar og kynferðislegrar áreitni og ofbeldis

1. gr.
Markmið

Að koma í veg fyrir kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni og ofbeldi í Háskólanum á Bifröst.

Stuðla skal að gagnkvæmri virðingu í háskólasamfélaginu, svo sem með því að auka vitund og skilning á að kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni og ofbeldi er hegðun sem er óheimil.

2. gr
Skilgreiningar

Með kynbundinni áreitni er átt við hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, er í óþökk viðkomandi og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi. Áreitnin getur verið líkamleg, orðbundin eða táknræn. Eitt tilvik getur talist kynbundin áreitni.

Með kynferðislegri áreitni er átt við hvers kyns kynferðislega hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg. Eitt tilvik getur talist kynferðisleg áreitni.

Með kynbundnu ofbeldi er átt við ofbeldi á grundvelli kyns sem leiðir til eða gæti leitt til líkamlegs, kynferðislegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir því verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennd svipting frelsis, bæði í einkalífi og á opinberum vettvangi.

Með kynferðislegu ofbeldi er átt við brot gegn kynfrelsi einstaklings sem lýst eru refsiverð í XXII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Með starfsfólki er átt við alla þá er vinna fyrir skólann, hvort sem það er starfsfólk í akademískum eða öðrum störfum, verktakar eða stundakennarar.

Með samvinnu, samskiptum og samneyti er átt við fundi, kennslustundir, vinnustofur, samkomur, tölvupóstssamskipti, samfélagsmiðla, símtöl og aðrar aðstæður sem skapast í tengslum við skólastarfið.

Með náms- og starfsaðstæðum er átt við alla þætti starfsins, svo sem náms- og starfsumhverfi, skipulag og húsnæðis. Aðstæður þar sem nemendur og starfsfólk þurfa að fara um vegna náms eða starfs.

Með aðilum máls er átt við þann/þá/hán sem talið er að hafi brotið af sér og þann/þá/hán sem talið er að hafi orðið fyrir broti.

3. gr.
Forvarnir

Í öllum náms- og starfsaðstæðum innan skólans skal þess gætt að dregið sé úr hættu á að aðstæður skapist sem líkur eru á að geti leitt til kynferðislegrar áreitni, kynbundinnar áreitni eða ofbeldis.  

Kynna fyrir öllum þeim er hefja störf eða nám við skólann að við líðum hvorki kynferðislegt áreitnii eða ofbeldi né kynbundin áreitni eða ofbeldi og hefur Háskólinn á Bifröst sett verklagsreglur vegna þessa.

Kynna þarf vel verklagsreglur um viðbrögð við kynbundnu ofbeldi og áreitni og kynferðislegri áreitni og ofbeldi reglulega fyrir öllu starfsfólki og nemendum skólans.

Kynna þarf vel siðareglur skólans fyrir öllu starfsfólki og nemendum skólans, sem og reglur um réttindi og skyldur nemenda við Háskólann á Bifröst.

Brýnt er að koma upp góðu eftirlitskerfi (myndavélum) í opnum rýmum háskólans og að kerfið sé vel merkt og sýnilegt og geti þannig haft forvarnargildi.

Á stærri opnum og auglýstum samkomum á vegum skólans (NFHB) eða nemenda þá skulu vera dyraverðir (gæsluaðilar) sýnilegir og tilbúnir til þess að bregðast við gerist þess þörf.

Þess skal gætt að áætlun og verklagsreglur um kynbundna áreitni og ofbeldi og kynferðislega áreitni og ofbeldi, ásamt siðareglum skólans séu vel sýnilegar á vefjum skólans og að þar séu tilkynningarhnappar á áberandi stöðum.

4. gr.
Yfirmenn og stjórn skólans

Yfirmenn, stjórnendur og forsvarsmenn nemenda skólans skulu ganga fram með góðu fordæmi og koma fram við samstarfsfólk sem og nemendur af gagnkvæmri virðingu og kurteisi.

Yfirmenn skulu vera vel upplýstir um verklagsreglur og siðareglur skólans.

 

Yfirfarið á fundi í Háskólaráði 15. maí 2019

Gildir frá 1. ágúst 2019

Staðfest af rektor 4. júní 2019