Yfirlýsing Háskólaráðs Háskólans á Bifröst  vegna kynbundins ofbeldis í háskólasamfélaginu 5. desember 2017

Yfirlýsing Háskólaráðs Háskólans á Bifröst vegna kynbundins ofbeldis í háskólasamfélaginu

Kynbundið ofbeldi er ólíðandi í háskólum sem annars staðar í samfélaginu.  Háskólinn á Bifröst vill ekki þola kynbundið ofbeldi í skólastarfinu, hvort heldur er meðal starfsfólks skólans eða nemenda.  Þetta er áréttað í ljósi hinnar miklu umræðu sem hefur verið um kynbundið ofbeldi að undanförnu og í framhaldi af áskorun 348 háskólakvenna hinn 1. desember sl. til háskóla, þekkingarstofnana og fyrirtækja.   Þar lýsa þær reynslu sinni af misbeitingu valds, áreitni, niðurlægingu, lítilsvirðingu og annars konar ofbeldi þar sem valdaójafnvægi er beitt sem stjórnunar- og þöggunartæki.

Háskólasamfélagið á Bifröst byggir á fagmennsku, metnaði og heiðarleika kennara, annars starfsfólks og nemenda skólans.  Við viljum sýna hvert öðru virðingu og vináttu og eiga ánægjuleg samskipti sem skapa góðar minningar frá veru okkar í skólanum.  Við viljum hafa gildi skólans; frumkvæði, samvinnu og ábyrgð, í heiðri. Misbeiting valds af því tagi sem fram kemur í frásögnum vísindakvenna stangast á við þau gildi og það er óásættanlegt að konur þurfi að upplifa slíkt á grundvelli kynferðis síns.

Í háskólasamfélaginu á Bifröst fer fram mikil þekkingarleit og sérhver einstaklingur er að efla sjálfan sig og auka hæfni sína í störfum sínum í nútíð og framtíð.  Auk þess viljum við að Bifrestingar séu velviljað fólk með vilja og getu til að bæta samfélagið.  Á vegferð okkar í Háskólanum á Bifröst þurfum við oft að vera ósammála og að kenna og leiðbeina en þetta er eðli háskólastarfsins.  Við þurfum að gæta okkar á því að gagnrýni og leiðsögn sé jákvæð, nærgætin og uppbyggileg.  Niðurlægjandi athugasemdir af kynbundnum eða kynferðislegum toga eiga ekki heima í skólastarfinu og því síður að vald þekkingar eða hlutverks sé misnotað í kynferðislegum tilgangi. Kynbundið ofbeldi af öllu tagi er samfélagsmein sem full þörf er á að uppræta.

En hvernig gerum við það? Í fyrsta lagi verða karlmenn að taka slaginn með konum; hlusta á frásagnir kvenna, viðurkenna vandamálið og axla ábyrgð. Í öðru lagi, að skipta sér af og gera athugasemdir þegar og ef við verðum vitni að ósæmilegri og vanvirðandi hegðun. Í þriðja lagi að óttast ekki umræðuna; að smætta ekki vandamálið og drepa þannig málinu á dreif. Slík þöggun viðheldur ástandinu og er til þess fallin að hindra framgang lífsnauðsynlegra breytinga.

Í samskiptum okkar þurfum við að hafa í huga að virðing og vinátta byggir á því að gefa og þiggja en ekki á því að krefjast, þvinga og taka.  Kynbundið ofbeldi á því á engan hátt heima í Háskólanum á Bifröst og við verðum að sameinast um að útiloka það úr samfélagi okkar hér í skólanum sem annars staðar.  Við höfum ferla innan skólans til að taka á málum.  Til þeirra munum við grípa ef út af bregður.

 

Bifröst, 4. desember 2017

Vilhjálmur Egilsson, rektor

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta