Viðtal við Njörð Sigurjónsson, dósent, um meistaranám í menningarstjórnun 6. desember 2019

Viðtal við Njörð Sigurjónsson, dósent, um meistaranám í menningarstjórnun

Menningarstjórnun hefur verið kennd við skólann frá árinu 2004 við góðan orðstír. Við settumst niður með Nirði Sigurjónssyni, dósent í menningarstjórnun við skólann og spurðum hann út í línuna, en hann hefur einmitt kennt á Bifröst frá árinu 2004.

Á þessum 15 árum sem námið hefur verið kennt hefur mikill fjöldi nemenda útskrifast úr menningarstjórnun, þetta er væntanlega orðinn stór og fríður hópur?

"Já, við erum mjög stolt af nemendum okkar, bæði er þetta fólk sem eru að sinna áhugaverðum störfum á sviði menningar og skapandi greinum þegar það kemur til okkar. En svo eru margir sem eru í öðru og eru einmitt að hugsa um að skipta um starfsferil, færa sig úr því sem þau eru að gera og líta á þetta sem tækifæri til að finna nýjan farveg."

Myndir þú segja að námið sé praktískt?

"Já. Námið er fyrir fólk sem er í vinnu og þetta er hugsað fyrir fólk sem er á vinnumarkaðnum og bæði eru þetta námskeið sem eru hugsuð til þess að fá fólk til að endurhugsa, sjá nýja hluti og nýjar hliðar á því sem það er að gera. Svo eru mjög praktísk námskeið eins og fjármálastjórnun, verkefnastjórnun og þessháttar og við hugsum þetta þannig að þetta eigi að gagnast fólki í vinnunni."

Er einhver skóli sem kennir svipað nám á Íslandi?

"Nei en menningarstjórnun er þekkt nám erlendis, um allan heim og við erum þau einu sem bjóðum upp á það sem kallað er „cultural management“ eða „arts management“ annars staðar og erum mjög stolt af því."

Hvað getur þú sagt okkur um kennarana í menningarstjórnun?

"Við höfum lagt áherslu á að þetta sé blanda af bæði fólki sem að sinnir rannsóknum og er vel inn í því hægt er að kalla fræði og bakgrunn menningarstjórnunar. En svo líka að vera með kennara sem eru virkir og eru leiðandi á sínu sviði í menningarstjórnun á Íslandi. Þannig að það sé þessi blanda af fræðum, kenningarlegum grunni og svona praktískri nálgun og hlutum sem eiga að gagnast dags daglega sem maður fær oft frá þeim sem eru að sinna þessum störfum."

Námið er allt kennt í fjarnámi, maður ímyndar sér að þetta sé oft mjög mynd- og eða hljóðrænt, kemst námsefnið fyllilega til skila?

"Við nýtum okkar þetta blandaða nám, þannig að fyrirlestrarnir eru á netinu og notum bæði hljóðræn og sjónræn dæmi og í rauninni allar þær mögulegu leiðir sem við getum nýtt til að miðla efninu á sem ríkastan hátt. Svo eru vinnuhelgarnar mjög mikilvægar og við leggjum mikla áherslu á að fólk komi og myndi tengsl og nái að mynda tengslanet sem síðan gagnast í framtíðinni. Við leggjum líka mikla áherslu á verkefnavinnu, verkefni sem tengjast oft starfi einstakra stofnana, fyrirtækja og líka bara starfi nemendanna sjálfra."

Hver er munurinn á MCM og MS leiðunum?

"Það eru í rauninni tvennslags verkefni, annað er lengra og hitt styttra, það er í raun stóri munurinn á þessum námsleiðum. Í MCM eru tekin fleiri námskeið með praktískari verkefnum en í MS er stór rannsóknarritgerð, svona hefðbundnari matstersritgerð."

Hvaða forkröfur eru gerðar til að hefja nám í menningarstjórnun?

"Í fyrsta lagi er skilyrði að vera með grunngráðu á háskólastigi en við leggjum líka áherslu á reynslu, að fólk hafi reynslu úr atvinnulífinu og þá kannski sérstaklega af menningarstarfi eða listum en við skilgreinum menningu líka frekar vítt. Það er fólk hjá okkur sem hefur sinnt menningar starfi sem áhugamenn eða óbeint á margan ólíkan hátt."

Umsóknarfrestur fyrir vorönn rennur út 10. desember, hægt er að finna frekari upplýsingar um námið í menningarstjórnun með því að smella hér. Hægt er að sækja um nám með því að smella hér.

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta