Dr. Magnús Skjöld flytur erindi á upphafsviðburði Jean Monnet Chair ISARCEUR-verkefnisins við Háskólann á Bifröst.
16. janúar 2026Upphafsviðburður Jean Monnet Chair
Þann 15. janúar 2026 fór fram upphafsviðburður (Kick-off) Jean Monnet Chair-tímabils við Háskólann á Bifröst. Þetta umfangsmikla verkefni ber yfirskriftina Iceland’s strategic role in Arctic and European security, skammstafað ISARCEUR. Viðburðurinn markaði formlegt upphaf nýs rannsóknar- og fræðsluátaks á sviði Evrópufræða sem nær yfir þriggja ára tímabil.
Verkefnið er leitt af dr. Magnúsi Árna Skjöld Magnússyni, prófessor við félagsvísindadeild Háskólans á Bifröst, og nýtur stuðnings Evrópusambandsins í gegnum Erasmus+ áætlunina.
Helstu áherslur verkefnisins eru:
- Að þróa ný námskeið í grunnnámi við Háskólann á Bifröst með áherslu á öryggis- og varnarmál Evrópu, norðurslóða og hlutverk Íslands í því samhengi.
- Að efla rannsóknir á evrópskri öryggisstefnu og nýjum öryggisógnum á norðurslóðum og í íslensku samhengi.
- Að skapa vettvang fyrir stefnumótandi umræðu milli fræðasamfélags, opinberra aðila, fjölmiðla og almennings í tengslum við framtíðarsamskipti Íslands og bandamanna þess í Evrópu og annarsstaðar.
- Að styrkja tengsl við alþjóðlega samstarfsaðila, m.a. sendiráð, rannsóknarstofnanir, Jean Monnet netverk og evrópska háskóla og rannsakendur sem vinna að skyldum málefnum.
Í upphafi viðburðarins steig prófessor Magnús Árni Skjöld í pontu og sagði frá verkefninu, því næst hélt dr. Margrét Njarðvík rektor háskólans stutt ávarp og Clara Ganslandt sendiherra ESB á Íslandi, lokaði svo dagskránni með ræðu. Viðburðurinn skapaði vettvang fyrir tengslamyndun og spjall.
Mæting var góð, sem undirstrikar vilja til aukins samstarfs og samstöðu meðal nágrannaþjóðanna. Auk fræðimanna og starfsmanna Háskólans á Bifröst voru á meðal gesta sendiherrar og fulltrúar sendiráða Svíþjóðar, Danmerkur, Grænlands, Finnlands, Frakklands, Póllands og Kanada á Íslandi.
Myndasafn
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta