Jean Monnet Chair

Staða Íslands í öryggismálum norðurslóða og Evrópu

Háskólinn á Bifröst hefur hlotið Jean Monnet Chair styrk með áherslu á stöðu Íslands í öryggismálum norðurslóða og Evrópu. Verkefnið heitir Iceland’s strategic role in Arctic and European security á ensku, (skammstafað ISARCEUR) og byggir á þeirri sérstöðu Íslands að vera utan Evrópusambandsins en samt djúpt fléttað inn í evrópskt samstarf í gegnum aðild að EES-samningnum, Schengen-samstarfinu og NATO.

Í ljósi hins breytta öryggisumhverfis norðurslóða, meðal annars vegna stríðsins í Úkraínu, aukinnar samkeppni stórvelda um áhrif á norðurslóðum, fjölþáttaógna og þróunar í orkuöryggi og loftslagsmálum, hefur mikilvægi Íslands fyrir öryggi álfunnar aukist verulega. Samhliða því hefur aftur komið upp umræða um framtíðartengsl Íslands við Evrópusambandið, þar sem núverandi ríkisstjórn hefur lýst yfir vilja sínum til að boða til þjóðaratkvæðagreiðslu um endurupptöku aðildarviðræðna eigi síðar en árið 2027.

Verkefnið miðar að því að efla og dýpka fræðilegt og stefnumótandi samtal um stöðu Íslands í evrópskum öryggismálum og þróun norðurslóðastefnu ESB. Með nýjum námskeiðum, rannsóknum, og opinberri umræðu um evrópska samvinnu og öryggisuppbyggingu, verður leitast við í gegnum þetta verkefni að byggja brú milli fræða, stefnumótunar og samfélagslegrar umræðu. Verkefnið er leitt af dr. Magnúsi Árna Skjöld Magnússyni, prófessor við Háskólann á Bifröst og fyrrverandi rektor, en hann hefur sinnt kennslu og rannsóknum á sviði Evrópufræða og alþjóðamála um árabil.

Helstu áherslur verkefnisins eru:

  • Að þróa ný námskeið í grunnnámi við Háskólann á Bifröst með áherslu á öryggis- og varnarmál Evrópu, norðurslóða og hlutverk Íslands í því samhengi.
  • Að efla rannsóknir á evrópskri öryggisstefnu og nýjum öryggisógnum á norðurslóðum og í íslensku samhengi.
  • Að skapa vettvang fyrir stefnumótandi umræðu milli fræðasamfélags, opinberra aðila, fjölmiðla og almennings í tengslum við framtíðarsamskipti Íslands og bandamanna þess í Evrópu og annarsstaðar.
  • Að styrkja tengsl við alþjóðlega samstarfsaðila, m.a. sendiráð, rannsóknarstofnanir, Jean Monnet netverk og evrópska háskóla og rannsakendur sem vinna að skyldum málefnum.

Jean Monnet Chair verkefnið er styrkt af Erasmus+ áætlun Evrópusambandsins og mun standa frá 2025 til 2028. Það styður við markmið Evrópusambandsins um að efla þekkingu og umræðu um Evrópusamrunann og evrópsk málefni á háskólastigi sem og utan háskólanna. 

Nánari upplýsingar veitir dr. Magnús Árni Skjöld Magnússon 
Netfang: magnus [hjá] bifrost.is