1. október 2022

Stjórnun mannauðs er samstarfsverkefni

Rannsóknir og þýðing þeirra með hliðsjón af áskorunum mannauðsstjórnunar er meginstefið í áhugaverðu viðtali sem Fréttablaðið birtir í dag við dr. Arneyju Einarsdóttur, dósent.

Auk dósentstöðunnar er Arney Einarsdóttir fagstjóri mannauðsstjórnunar, námslínu sem kennd er á meistarastigi við viðskiptadeild Háskólans á Bifröst, en Arney hefur á undanförnum 15 árum lagt gjörva hönd á þróun háskólanáms í mannauðsstjórnun hér á landi og rannsóknir innan fagsins.

Þekktust er Arney líklega fyrir aðild Íslands að CRANET, en hún hefur stýrt þeirri alþjóðlegu langtímarannsókn í mannauðsstjórnun hér á landi allt frá árinu 2005.

Í viðtalinu bendir Arney m.a. á að margt hafi mætt á mannauðsstjórum undanfarin ár við innleiðingu ýmissa verkefna tengdum jafnlaunavottun, styttingu vinnuvikunnar og innleiðingu verkefnamiðaðra vinnurýma, svo að dæmi séu nefnd. Þá hafi COVID ekki bætt úr skák, er hver faraldurinn tók við af öðrum. Það sé því ljóst að mörg flókin þróunar- og breytingaverkefni hafi hvílt á mannauðsstjórnendum á síðustu þremur árum.

Spurð út í þá eftirspurn sem er eftir þekkingu í mannauðsmálum á vinnumarkaði segir Arney, að brautskráðir nemendur frá Bifröst séu margir hverjir að fást við áhugaverð og krefjandi viðfangsefni í störfum þeirra sem sérfræðingar, stjórnendur, mannauðsstjórar og ráðgjafar.

„Það eru jú að skapast fleiri störf fyrir sérfræðinga í mannauðsdeildum, til dæmis í ráðningum, launamálum, þjálfunarmálum og svo framvegis og fyrirtæki eru í auknum mæli að ráða mannauðsstjóra. Þá fara fyrirtæki stækkandi og samrunar eru í gangi víða í opinbera geiranum – en ágætis viðmið er að sérhæfður starfsmaður þurfi að veita málaflokknum forstöðu, og hafa yfirsýn yfir auðlindina, þegar stærðarviðmiðinu 50-60 starfsmenn er náð,“ segir Arney

Sjá viðtalið í heild sinni

Sérblað Fréttablaðsins um mannauðsmál

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta