Rannsakar breska háskólakórahefð í Oxford 29. ágúst 2016

Rannsakar breska háskólakórahefð í Oxford

Dr. Sigrún Lilja Einarsdóttir, forseti félagsvísindadeildar við Háskólann á Bifröst, hlaut styrk til eins árs rannsóknarstarfa við Oxford-háskóla og verður því búsett þar í borg skólaárið 2016-2017. Um er að ræða styrk (individual fellowship) úr Marie Sklodowska-Curie áætlun Evrópusambandsins og mun Sigrún Lilja starfa við tónlistardeild háskólans. Rannsóknarverkefn hennar snýr að tónlistarhefð og tónlistarstarfi innan veggja háskólans með sérstakri áherslu á sögu, hefðir og menningarpólitísk álitamál.

„Aðdragandinn að verkefninu er sá að ég komst í kynni við Eric Clarke, prófessor við tónlistardeild Oxford-háskóla. Hans sérgrein er tónlistarsálfræði og þegar ég nefndi við hann þá hugmynd, sem ég hafði lengi gengið með í maganum, að skoða kórastarf innan Oxford-háskóla, þá fór boltinn að rúlla,“ segir Sigrún Lilja sem sótti um styrkinn með dyggum stuðningi starfsfólks innan Oxford háskóla.

 „Hvernig kviknaði sú hugmynd að skrifa um breska háskólakóra?

„Ég vann að doktorsritgerð um Bach-kóra í Englandi og í viðtali við einn viðmælanda kom þessi kórahefð til tals. Háskólarnir í Oxford, Cambridge og Durham búa við hið aldagamla collegiate-skipulag, þ.e. að skólarnir (colleges) eru sjálfstæðar stofnanir en þó undir einum hatti. Síðan eru það hinar akademísku deildir sem ganga þvert á skólana, sem eru frekar eins og samfélög nemenda. Hver skóli (college) er með eigin kampus og langflestir þeirra hafa sínar eigin kirkjur, eða kapellur eins og þær eru kallaðar. Hver háskóli og háskólaþorp undir aðalstofnuninni er í raun sjálfstæð eining og upphaflega hugmyndin var sú að byggja upp samfélag í kringum nemendur. Kórahefðin í Oxford byggir á gömlum grunni, allt aftur til 13.-14. aldar. Enn sem komið er hef ég ekki fundið heildræna umfjöllun um þessi merkilegu samfélög sem kórarnir eru. Kórarnir eru jafn misjafnir og þeir eru margir en í sumum þeirra eru gerðar miklar kröfur um hæfileika og getu til að tileinka sér flókin tónverk á stuttum tíma,“ segir Sigrún Lilja.

Menning, hefðir og menningarpólitík

Styrkurinn er veittur innan svokallaðrar Horizon 2020 áætlunar Evrópusambandsins og styrkferlið fer þannig fram að einstaklingur þarf að koma sér í samband við þann háskóla sem viðkomandi hefur hug á að starfa hjá. Umtalsverð samkeppni er um styrkina en árangurshlutfall innan hug- og félagsvísinda er í kringum 14%. Sigrún Lilja vann umsókn sína upp úr prufurannsókn sem byggir á viðtölum við 20 kórstjórnendur í Oxford háskóla en viðtölin fóru fram í febrúar 2014.

Í rannsókn sinni mun Sigrún Lilja aðallega skoða menningu, hefðir og menningarpólitíkina í kringum kórana t.a.m. hvernig þeim er stjórnað og hvernig ákvarðnir eru teknar.

„Annars vegar mun ég ræða við nemendur og leggja fyrir þá spurningakönnun til að skoða bakgrunn þeirra og síðan ætla ég að tala við fólk innan skólanna sem hefur með ákvarðanatöku að gera. Margt þarf að skoða en það er t.d. tiltölulega nýtilkomið að konur syngi í kórunum en allt fram á þriðja áratug síðustu aldar sungu ungir drengir alt og sópran. Þá er misjafnt hvernig nemendur eru teknir inn en sumir skólar eru með áheyrnarprufur og aðrir ekki, þá er stundum hægt að fá smá styrk með því að vera í slíkum kór og gott að hafa ferilskránni að hafa verið choral scholar. Síðan eru í kringum þetta mörg viðkvæm viðfangsefni t.d. er varðar fjármagn en það er opinbert leyndarmál að þeir kórar sem eingöngu eru skipaðir karlmönnum eru hærri í pýramídanum sem er opinbert leyndarmál. Svo er komin ný vídd í rannsóknina og heitir hún Brexit – vafalaust mun það þema koma oft upp í niðurstöðum rannsóknarinnar“ segir Sigrún Lilja.

Sigrún Lilja segist líta á veruna í Oxford sem eins konar vertíð en verkefnið er til eins árs. Þar sé afskaplega gott að vera og sagan við hvert fótmál. Háskólinn í Exeter, hvar Sigrún lauk doktorsprófi í félagsfræði, er aðili að umsóknni og verða prófessor Tia DeNora frá Exeter- háskóla og Eric Clarke leiðbeinendur Sigrúnar Lilju á meðan á rannsókn stendur. 

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta