9. febrúar 2024

Opnunarviðburður jafnréttisdaga

Rétturinn til mótmæla, inngilding í stjórnmálum og samfélagi, aðgerðir gegn hatursorðræðu, áskoranir íslensks fjölmenningarsamfélags, tónleikar með Elínu Hall og hvít forréttindi og rasismi er meðal þess sem verður til umfjöllunar á árlegum Jafnréttisdögum sem fram fara í háskólum landsins dagana 12.-15. febrúar. 

Jafnréttisdagar hafa fyrir löngu unnið sér sess sem vettvangur frjórrar, róttækrar og framsýnnar umræðu um ólíkar víddir jafnréttismála en dagarnar eru nú haldnir í 16. sinn. Markmiðið með Jafnréttisdögum er í senn að skapa umræðu um jafnréttismál í víðum skilningi og að gera þau sýnileg innan háskólanna sem utan.

Þema Jafnréttisdaga í ár er Inngilding, jaðarsetning og aðför að mannréttindum og boðið er upp á yfir 20 viðburði í háskólum landsins, ýmist á staðnum, í streymi eða hvort tveggja. 

Dagskrá Jafnréttisdaga hefst á viðburði í streymi í hádeginu mánudaginn 12. febrúar en þar fjallar stjórnmálafólkið Sanna Magdalena Mörtudóttir (hún) og Pawel Bartoszek (hann) um inngildingu í stjórnmálum á Íslandi hjá fólki af erlendum uppruna.

Í framhaldinu rekur hver viðburðurinn annan og auk ofangreindra umfjöllunarefna verður fjallað um stríð og átök í samtímanum, veruleika transfólks, stöðu fólks með örorkumat, konur á flótta, aðgengi ólíkra hópa að háskólanámi, fjölbreyttar raddir íslenskunnar, fjölbreytileika og menningarnæmi, umfjöllun fjölmiðla um leikskólamál ásamt því sem boðið verður upp á jafnréttisvöfflur og -kaffi og umræður með því.

Háskólatónleikaröðin og Jafnréttisdagar taka höndum saman og bjóða upp á hádegistónleika með tónlistarkonunni Elínu Hall miðvikudaginn 14. janúar í Eddu á háskólasvæði HÍ. Gestir eru velkomnir á staðinn en einnig verður hægt að horfa á tónleikana í streymi.

Háskólinn á Bifröst verður jafnframt með tvo viðburði í ár, eða beint streymi um aukna hatursorðræðu, sem verður á þriðjudeginum og kaffispjall með Daníel E. Arnarssyni, sem er staðarviðburður í Borgartúni 18 á miðvikudeginum. 

Viðburðir á Jafnréttisdögum fara ýmist fram á íslensku eða ensku og aðgangur að þeim öllum er ókeypis. Heildardagskrá má finna á vef Jafnréttisdaga, jafnrettisdagar.is. Öll eru jafnframt hvött til að fylgjast með Jafnréttisdögum á samfélagsmiðlum.

Vefur: jafnrettisdagar.is

Facebook: jafnréttisdagar

Instagram: jafnréttisdagar

Frétt uppfærð 12.02.2024

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta