25. nóvember 2025

Ný bók eftir dr. Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur

Út er komin bókin Glæður galdrabáls eftir dr. Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur forseta félagsvísindadeildar. Glæður galdrabáls er heimildaskáldsaga um sannsögulega atburði frá 17. öld, þegar orðrómur einn gat leitt til galdraákæru sem kostaði fólk lífið. Í bókinni segir frá afdrifum móður og sonar sem fóru fótgangandi norðan úr landi vestur í Selárdal, í leit að betra lífi. Þar mætti þeim samfélag gegnsýrt af galdraótta. 

Sagan er sögð eftir bestu fáanlegu heimildum - skáldað í eyður þar sem vitneskju skortir - og ofin saman við sagnfræðilegar staðreyndir um atburði og tíðaranda brennualdar. Fjallað er um sögulega atburði og mannleg örlög af sagnfræðilegu og skáldlegu innsæi. Ritsmíðar Ólínu eru fræði og skáldskapur. Í þessu riti sameinar hún hvort tveggja. Útkoman er einkar áhugaverð bók um tímabil sem vakið hefur áleitnar spurningar um réttlæti, sannleika og mennsku. Glæður galdrabáls er níunda bók Ólínu.

Bókin er gefin út af Skruddu og fæst í öllum bókaverslunum og helstu stórmörkuðum.

Skólinn óskar Ólinu innilega til hamingju með útgáfu bókarinnar.

Bókakápa bókarinnar Glæður galdrabáls

Um höfundinn og fyrri verk:

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, þjóðfræðingur er prófessor og deildarforseti við Félagsvísindadeild Háskólans á Bifröst. Hún lauk doktorsprófi í íslenskum bókmenntum og þjóðfræðum frá Háskóla Íslands árið 2000. Ólína hefur áður starfað sem frétta- og dagskrárgerðarmaður, ritstjóri, háskólakennari og skólameistari. Hún var um tíma virk í stjórnmálum sem alþingismaður og borgarfulltrúi. Í frístundum er hún björgunarsveitarmaður og fararstjóri fyrir Ferðafélag Íslands. Árið 1995 hlaut Ólína verðlaun í ljóðasamkeppni Listahátíðar Reykjavíkur. Bók hennar Lífgrös og leyndir dómar var tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna 2019.