Njörður Sigurjónsson nýr prófessor á Bifröst
Njörður Sigurjónsson hefur hlotið framgang sem prófessor við Háskólann á Bifröst.
Njörður er doktor í menningarstjórnun (Cultural Policy and Management) frá City Unversity í Lundúnum. Þá hefur hann lokið M.Sc. gráðu í alþjóðaviðskiptum og BA gráðu í heimspeki frá Háskóla Íslands.
Njörður hefur síðan 2004 kennt við meistaranám í menningarstjórnun við Háskólann á Bifröst en hann var áður framkvæmdastjóri Bókmenntasjóðs, markaðsstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands og sviðs- og sýningarstjóri í Íslensku Óperunni. Þá gegndi hann einnig stöðu forstöðumanns Rannsóknamiðstöðvar Háskólans á Bifröst. Njörður hefur undanfarin ár unnið með menningarstofnunum, sveitarfélögum og landshlutasamtökun að stefnumótun á sviði menningarmála, auk þess að kenna reglulega námskeið við aðra háskóla svo sem Listaháskóla Íslands, Colorado State University og Leuphana Universität Lüneburg.
Njörður hefur birt fjölda ritrýndra greina, bókakafla og almennra erinda á sviði menningarstjórnunar sem hafa birst í bókum og alþjóðlegum tímaritum. Rannsóknarsvið hans er einkum á sviðum menningarstjórnunar og menningarstefnu en hann hefur einnig rannsakað hljóðmenningu og fagurfræði skipulagsheilda. Nýleg dæmi um slíka greiningar eru rannsókn á „þögn“ sem kannar ólíkar leiðir stjórnenda til þess að hafa áhrif á þagnarupplifun gesta og starfsfólks í menningarstofnunum. Annað dæmi er rannsókn á hugtakinu „þátttaka“ í íslenskri menningarstefnu.
Á þeim 16 árum sem Njörður hefur unnið við Háskólann á Bifröst hefur hann unnið ötullega að framþróun á skipulagi og kennslu, þá sérstaklega í MA/MCM náminu í menningarstjórnun. Auk þess hefur hann kennt í flestum deildum, sinnt ýmsum störfum innan stjórnsýslunnar og sinnt rannsóknarstörfum.
Nánari upplýsingar um rannsóknir og störf Njarðar er að finna í meðfylgjandi starfsferilsskrá, og á Vísindavefnum í greininni „Hvaða rannsóknir hefur Njörður Sigurjónsson stundað?“
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta