Menntun án staðsetningar
Dr. Vífill Karlsson, lektor við viðskiptadeild Háskólans á Bifröst, fjallaði um áhrif menntastofnana á menntunarstig heima í héraði í erindi sem hann flutti á byggðaráðstefnunni Menntun án staðsetningar, sem haldin var á Vík í Mýrdal nú í vikunni.
Erindi Vífils nefndist Grasrótin og gervigreind: Geta mennta- og menningarstofnanir fleytt landsbyggðinni inn í framtíðina? og byggði það á gögnum úr umfangsmiklum gagnagrunni sem landshlutasamtök sveitarfélaga og Byggðastofnun eru að byggja upp. Eru gögnin sótt í tvær stórar spurningakannanir sem lagðar voru fyrir víða um landið árin 2016, 2017 og 2020. Sagði Vífill að mikið verk væri enn óunnið og ljóst að framhald verði á þessu samstarfi.
Af athyglisverðum niðurstöðum má nefna að mennntastofnanir heima í héraði virðast stuðla staðbundið að hærra menntastigi. Hærra menntastig virðist jafnframt skila sér í jákvæðari viðhorfum til nærsamfélagsins, náttúru, menningarverðmæta og eigin atvinnutækifæra, svo að dæmi séu nefnd.
Samfara aukinni menntun virðist ánægja einnig fara vaxandi með ýmsa þætti er tengjast vinnumarkaði og lífsgæðum almennt í hinum dreifðu byggðum landsins. Atvinnuöryggi fer jafnframt vaxandi í vitund fólks og fleiri telja sig hafa betri möguleika til að fara af stað með eiginn atvinnurekstur. Þá virðist ánægja meiri með menningu staðarins, með friðsældina og þá villtu og fjölbreyttu náttúru sem „sveitin“ býr yfir og það sveitarfélag sem viðkomandi býr í.
Gögnin benda þannig til þess, að sögn Vífils, að menntastofnanir geti leikið lykilhlutverk í að fleyta landsbyggðinni inn í framtíðina. Með hliðsjón af ánægju þeirra sem eru með menntun með lifið utan höfuðborgarsvæðisins má gera ráð fyrir að vöxtur verði í menntunar- og menningarfrekum störfum utan höfuðborgarsvæðisins.
Þess má svo geta, að byggðaráðstefnur eru samstarfsverkefni Byggðastofnunar, sveitarfélaganna og samtaka þeirra. Þetta var sú fjórða í röðinni og komu sérstaklega að henni Háskólafélag Suðurlands og Mýrdalshreppur.
Erindi byggðaráðstefnunnar verða birt á vef Byggðastofnunar
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta