Líflegar umræður á stefnumótunarfundi 22. nóvember 2017

Líflegar umræður á stefnumótunarfundi

Þann 21. október síðastliðinn hélt stjórn Háskólans á Bifröst stefnumótunarfund. Til fundarins var boðað fulltrúaráð skólans, starfsfólk, nemendur og fulltrúar aðstandenda skólans. Góð mæting var á fundinn en hann sóttu yfir 50 manns og mörg áhugaverð sjónarmið voru viðruð. Velt var upp spurningum er lutu m.a. að stefnupýramída skólans, Háskólanum á Bifröst eftir 10 ár, tengingu skólans við atvinnulífið, áherslum varðandi námsframboð og kennsluhætti, hugsanlega sameiningu við aðra háskóla, staðsetningu skólans, forgangsmál næstu ára og fleira.
 
Stjórn Háskólans á Bifröst vinnur nú úr niðurstöðum umræðna sem urðu á stefnumótunarfundinum en tekið var saman viðamikið efni um það sem fram kom á fundinum og byggt verður á við áframahaldandi vinnu. Niðurstöður og ákvarðanir stjórnar háskólans verða í kjölfarið birtar með stefnu skólans fyrir árin 2018 – 2021 en hún verður afgreidd samhliða rekstraráætlun næsta árs á stjórnarfundi háskólans sem fram fer 27. nóvember næstkomandi.
Helstu niðurstöður stefnumótunarfundar
 
Umræðurnar sýndu fjölbreytt viðhorf mismunandi hópa og voru þau meira afgerandi í sumum efnisþáttum en öðrum. Í umræðunum kom meðal annars fram sú sýn fundargesta að eftir tíu ár yrði skólinn rótgróinn, alþjóðlegur háskóli með skýra stefnumörkun á sérstaklega tilgreindum sviðum og sterka faglega tengingu við íslenska náttúru og menningu.
 
Sefnupýramídi háskólans verður endurskoðaður með tilliti til niðurstaðna stefnumótunarvinnunnar. Ljóst er af niðurstöðunum að hann mun verða uppbyggður með líkum hætti og áður.
 
Fram kom það viðhorf að almennt yrði lögð áhersla á fjarnám við Háskólann á Bifröst og skólanum mörkuð sérstaða og forysta á þeim grunni. Á sama tíma skal stuðla að uppbyggingu á svæðinu og styrkja stöðu Bifrastar sem búsetukost.
 
Skoðanir þátttakenda voru misjafnar þegar spurt var um sameiningu háskólans við aðrar stofnanir. Almenn skoðun þátttakenda var sú að aðstandendur háskólans ættu að vera opnir fyrir hugmyndum er lúta að sameiningu háskólans og auknu samstarfi. Einnig að brýnt sé að undirbúa vel faglega greiningu áður en ákvarðanir eru teknar í þeim efnunum.
 
Varðandi staðsetningu skólans þá komu fram tvær andstæðar skoðanir. Mikil áhersla var lögð á staðsetningu skólans á Bifröst og talið að sérstaða skólans felist m.a. í þeirri staðsetningu. Einnig að horfa verði á staðsetninguna í stærra samhengi til framtíðar og í ljósi möguleika til samvinnu við aðra skóla og stofnanir.
 
Fundargestir voru að mestu sammála um að Háskólinn Bifröst skyldi sækja fram á alþjóðlegum vettvangi og hafa námið aðgengilegt jafnt á ensku sem íslensku. Þá skulu verkefni er lúta að alþjóðavæðingu og stefnumörkun í þeim efnum vera vandlega undirbúin og fjárhagslega sjálfstæð.
 
Mörgum hugmyndum var velt upp um hvernig tengja mætti námið og háskólann betur við fyrirtæki og atvinnulífið. Sérstaða Háskólans á Bifröst hefur alltaf verið samofið forystu og stjórnun og þannig tengst viðskiptalífinu. Enginn vafi er á því að þetta sé sérstaða skólans.
 
Nánari upplýsingar um stefnumótunarfundinn, myndir og myndbönd má finna á vef skólans hér.
 

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta