Krefjandi og hvetjandi nám sem eykur sjálfstraustið 9. ágúst 2018

Krefjandi og hvetjandi nám sem eykur sjálfstraustið

Hjónin Halla Ólafsdóttir og Guðni Einarsson, ásamt þremur öðrum, hófu rekstur veitingastaðarins Svörtu fjörunnar sumarið 2014. Í kjölfarið vildi Halla auka þekkingu sína í bókhaldsfræðum og sótti því um inngöngu í Mátt kvenna við Háskólann á Bifröst. Halla er fædd og uppalin í Mýrdalnum og lauk sinni skólagöngu í grunnskóla en tók upp þráðinn aftur árið 2003 og lauk námi í leikskólakennarafræðum frá Háskólanum á Akureyri 2007 og tveggja ára diplómu í sérkennslufræðum árið 2011.

„Ég ætlaði að vera leikskólakennari eða kennari út starfsævina en síðan byggðum við veitingastaðinn hér árið 2013 og opnuðum sumarið 2014. Það er nauðsynlegt í svona rekstri að eigandi sé að sinna starfinu og ég tók því að mér allan daglegan rekstur s.s. innkaup og mannaráðningar. Ég reyni einnig að aðstoða eiginmanninn við bókhaldið og launagreiðslurnar og fá þannig um leið betri yfirsýn t.a.m. yfir innkaupin. Þannig varð nauðsynlegt fyrir mig að skerpa á bókfærslunni sem varð upphafið að því að ég sótti um í Mætti kvenna og hóf nám síðastliðinn janúar,“ segir Halla.

Halla segir námið síðan vissulega hafa reynst sér vel á fleiri sviðum utan bókfærslunnar. Það hafi t.a.m. ýtt við sér að horfa öðru hvoru inn á við og skoða hvernig hún standi sig sem yfirmaður. Eins hafi námskeið í upplýsingatækni og markaðssetningu komið sér vel, bætt við fyrri þekkingu og sýnt sér hvar mætti betur gera í markaðssetningu fyrirtækisins.

„Ég var mjög ánægð með námið sem var skemmtilegt og krefjandi. Máttur kvenna er góð undirstaða fyrir þig ef þú hyggur á að stofna fyrirtæki eða fara af stað í rekstri. Eins ýtir það við manni að hugsa inn á við og er virkilega gott til að auka sjálfstraust. Allir sem þarna voru voru svo hvetjandi og hreinlega ýttu undir það að þú sért mikils virði og getir það sem þú ætlar þér. Svo er umgjörðin á Bifröst auðvitað dásamleg og gott að koma þangað,“ segir Halla.

Halla var vön fjarnámi frá háskólanámi sínu og segist hafa unað sér vel í því umhverfi. Hægt sé að sinna náminu þegar hverjum og einum henti en um leið sé tímapressa til staðar sem hvetji fólk áfram.

Máttur kvenna er 11 vikna nám fyrir konur sem vilja öðlast þekkingu og færni í rekstri fyrirtækja. Kennsla fer fram í fjarnámi en þar að auki eru kennslustundir á vinnulotum á Bifröst þar sem lögð verður áhersla á hópavinnu nemenda. Vinnuhelgi er í upphafi og um miðbik námsins en náminu lýkur með formlegri útskrift. Næsta námskeið hefst þann sjöunda september næstkomandi og sækja má um námskeiðið hér 

 

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta