Hollvinir Bifrastar stofna hollvinasjóð 19. janúar 2015

Hollvinir Bifrastar stofna hollvinasjóð

Félagar úr Hollvinasamtökum Bifrastar hafa tekið höndum saman og stofnað sérstakan Hollvinasjóð Bifrastar, með það m.a. að markmiði að styðja starfsemi og áframhaldandi öfluga þróun Háskólans á Bifröst.

Liðlega 900 Bifrestingar hafa þegar greitt stofnframlag til sjóðsins, sem er stofnaður samkvæmt lögum nr. 19/1988, um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá. Hefur þegar verið gengið frá öllum formsatriðum við sjóðsstofnunina.

Formaður stjórnar Hollvinasjóðsins er Óli H. Þórðarson, fyrrv.framkvæmdastjóri og aðrir stjórnarmenn þeir Viðar Þorsteinsson, fyrrv.viðskiptastjóri og Þorvaldur Tómas Jónsson. Þeir Óli H. og Viðar sitja í stjórnininni af hálfu Hollvinasamtaka Bifrastar, en stjórn Háskólans á Bifröst tilnefndi Þorvald, en hann er framkvæmdastjóri fjármála við skólann.

Stjórnin hyggst m.a. afla sjóðnum tekna frá vinveittum fyrirtækjum og einstaklingum og ætlar fyrst í stað að leggja áherslu á nauðsynlegt viðhald á „andliti skólans“, þ.e. upphaflegu byggingunum á Bifröst - meistaraverki Sigvalda Thordarsonar - setustofunni (Kringlunni) og hátíðarsalnum. Áætlaður heildarkostnaður við endurnýjun á gluggum og ytrabyrði byggingarinnar nemur tugum milljóna króna, en gert er ráð fyrir að viðhaldsvinnunni verði skipt í ákveðna verkþætti.

Til lengri tíma litið er gert ráð fyrir að hollvinasjóðurinn sinni öðrum mikilsverðum málefnum í skólastarfinu, s.s. að styrkja rannsóknarverkefni og veita viðurkenningar til nemenda og kennara. Allt mun það þó miðast við að velunnarar Bifrastar leggi sjóðnum til ríflegt fjármagn á komandi tímum. Af hálfu skólans munu þau fyrirtæki sem styrkja sjóðinn eiga þess kost, á góðum kjörum, að njóta sérþekkingar öflugs kennaraliðs Háskólans á Bifröst, s.s. á sviði viðskiptaráðgjafar og námskeiðahalds fyrir starfsmenn sína. Tekið skal fram að samkvæmt skattalögum er heimilt að færa framlög til hollvinasjóðsins til frádráttar tekjum, með ákveðnum almennum skilyrðum.

Þann 16. janúar sl. kom hópur áhugamanna og velunnara Hollvinasjóðsins saman í húsakynnum Háskólans á Bifröst í Reykjavík til þess að leggja á ráðin um frekari fjáröflun, sem stjórn sjóðsins hyggst nú ráðast í. Má líta á þennan ágæta hóp sem fulltrúa þeirrar fjöldahreyfingar sem stendur að Hollvinasamtökum Bifrastar.

Á myndinni eru:
Standandi: Sigrún Hermannsdóttir, Regína Sigurgeirsdóttir og Þórir Páll Guðjónsson úr stjórn Hollvinasamtaka Bifrastar, Ómar Valdimarsson framkvæmdastjóri Samkaupa, Leifur Runólfsson formaður Hollvinasamtakanna, Gísli Jónatansson fyrrv. kaupfélagsstjóri, Anna Elísabet Ólafsdóttir aðstoðarrektor Háskólans á Bifröst og Guðsteinn Einarsson kaupfélagsstjóri í Borgarnesi og formaður háskólastjórnar á Bifröst.
Fremst sitja stjórnarmenn Hollvinasjóðsins, Þorvaldur Tómas Jónsson, ritari, Óli H. Þórðarson, formaður og Viðar Þorsteinsson, gjaldkeri.

Kristján Pétur Guðnason hjá Skyggnu tók myndina af hópnum.

 

 

 

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta