6. júlí 2015

Brýnt að endurskoða skilvirkni núverandi fyrirkomulags á stuðningi ríkisins til landbúnaðar

Framkvæmd verkefnisins er yfirgripsmikil hagsmunaaðilagreining með fjórtán viðtölum við sextán aðila sem draga vel fram þau ólíku sjónarmið sem tengjast viðfangsefninu. Staða neytandans er útskýrð þar sem hann er að einhverju leyti fórnarlamb sérhagsmuna. Niðurstöður benda á þörf fyrir breytingar, byggt á upplýstri og málefnalegri umræðu á jafnari grundvelli um kosti frjálsra viðskipta, opinbers stuðningskerfis í landbúnaði og sjónarmiða um gæði, fæðuöryggi og sjúkdómavarnir.

Rannsóknin leiddi í ljós að núverandi fyrirkomulag kemur niður á neytendum í formi hærra vöruverðs og takmarkaðs vöruúrvals. Óhagkvæmum framleiðendum sem annars yrðu undir í náttúrulegri samkeppni er gert kleift að halda áfram rekstri í skjóli stuðningsins, en slíkt dregur úr meðalskilvirkni atvinnugreinanna. Einnig dregur stuðningurinn úr hvata framleiðenda til hagræðingar, vöruþróunar og nýsköpunar, ólíkt því sem tíðkast á frjálsum markaði. Stuðningurinn verndar þó ákveðin störf á landsbyggðinni og helst þannig í hendur við byggðastefnu stjórnvalda.

Stuðning ríkisins til landbúnaðar má flokka í tvo meginflokka, beinar greiðslur til framleiðenda annarsvegar og tollvernd (í formi verðtolls og magnkvóta) hinsvegar. Í greinagerðinni er lögð áhersla á að framleiðslutengdar beingreiðslur verði teknar til endurskoðunar með því hugarfari að flytja hluta þeirra yfir í óframleiðslutengda styrki.  Einnig sé vert að taka til skoðunar lækkun innflutningstolla á landbúnaðarvörum þar sem innlend framleiðsla ýmist annar ekki eftirspurn eða eru hreinlega ekki framleiddar hér á landi. Þannig megi stuðla að heilbrigðari samkeppni, lægra vöruverði, fjölbreyttara vöruúrvali og auknum heildarábata samfélagsins.

Eitt af markmiðum verkefnisins var að kanna hvernig ólík sjónarmið þeirra hagsmunaaðila sem hafa tekið virkan þátt í umræðunni á opinberum vettvangi síðastliðinn misseri samræmast velferð neytenda. Í fjölmiðlum hefur töluvert borið á verslunarmönnum, innflytjendum, talsmönnum bænda og opinberum starfsmönnum sem rökræða ólíkar hliðar málsins; en mun sjaldnar heyrist frá talsmönnum neytenda. Mögulega er því um vannýtt tækifæri að ræða þar sem rödd neytandans gæti haft meira vægi í umræðunni. Þeir aðilar sem hafa talað hvað hæst fyrir hagsmunum neytenda á opinberum vettvangi eru að mati hópsins ekki best til þess fallnir.

Verkefnið hlaut verðlaun sem besta misserisverkefnið.

Hópinn skipuðu: Aðalheiður B. Sigurdórsdóttir, Guðjón F. Gunnarsson, Jóhannes B. Pétursson, Snorri Guðmundsson og Svanberg Halldórsson. Leiðbeinandi var Árni Sverrir Hafsteinsson.

Greinargerðina má nálgast í heild sinni hér

 

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta