Afar jákvæðar niðurstöður
Samkvæmt niðurstöðum nýrrar útskriftarkönnunar mæla 98% brautskráðra Bifrestinga með námi við Háskólann á Bifröst.
Svo hátt hlutfall heyrir reyndar til undantekninga í útskriftarkönnunum, en hjá HB hefur það á undanförnum árum mælst á bilinu 88-95%.
Af öðrum áhugaverðum niðurstöðum má nefna að 61% brautskráðra telja að háskólanám á Bifröst hafi skilað sér hærri launum og 55% segjast fást við áhugaverðari verkefni í starfi sínu en áður. Um 51% telur að nýja prófgráðan hafi veitt þeim aukna ábyrgð í starfi, s.s. aukin fjárráð eða mannaforráð. Þá tvöfaldaðist að námi loknu fjöldi þeirra sem starfa sem millistjórnendur, fór úr 12 í 22 og almennum starfsmönnum fækkaði um helming, fór úr 30 manns í 14.
Útskriftarkönnunin leiðir jafnframt í ljós að brautskráðir dreifast nokkuð jafnt á milli opinbera vinnumarkaðarins og einkamarkaðarins, en 36% starfa hjá hinu opinbera og 43% hjá fyrirtækjum á almenna markaðnum. Þá er um 10% brautskráðra sjálfstæðir atvinnurekendur og hefur hlutur þeirra ekki verið meiri í útskriftarkönnunum hjá HB til þessa.
Lydía Geirsdóttir, gæðastjóri Háskólans á Bifröst, segir niðurstöður könnunarinnar almennt afar jákvæðar. „Við sjáum það ekki hvað síst á svörum úr opnum spurningum, þar sem nemendur lýsa jákvæðri upplifun sinni af náminu við HB og áhrifum þess á líf þeirra og störf. Fjarnám og lotufyrirkomulagið skorar jafnframt hátt ásamt því persónulega og góða viðmóti sem nemendur segjast mæta í námi af hálfu kennara og starfsfólks. Staðlotur eru einnig að koma vel út, en 70% sögðu að staðlotur hefðu nýst sér vel í náminu og 78% höfðu sömu sögu að segja af Teamslotum.“
Stjórnendur fái svo einnig orð í eyra, en til þess sé nú leikurinn ekki síður gerður, að afla upplýsinga um það sem megi betur fara, segir gæðastjórinn og nefnir sem dæmi að sumum finnist ásýnd HB ekki nægilega sýnileg og að námsframboð mætti vera enn fjölbreyttara.
Útskriftarkönnunin nú náði til nemenda sem brautskráðust í júní 2022 og er svarhlutfall ríflega 53%. Útskriftarkannanir eru hluti af gæðaeftirliti háskóla og þjóna mikilvægu hlutverki fyrir innra gæðaeftirliti þeirra.
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta