Húsreglur í nemendagörðum

1. gr. Umgengni

Íbúum er skylt að ganga þrifalega og hljóðlega um íbúðir og lóð. Ber íbúum ætíð að hafa hugfast að valda öðrum íbúum hússins sem minnstu ónæði og óþægindum. Eftir kl. 24.00 og til kl. 07.00 má enga háreysti hafa, er raskað geti svefnfriði manna í öðrum íbúðum. Séu veislur haldnar af meiriháttar tilefni, er þó heimilt að færa til upphaf fyrrnefnds tímabils í samráði við íbúa þeirra íbúða sem næst liggja. Ætíð skal tilkynnt um slíkar veislur til umsjónarmannshúsnæðis með góðum fyrirvara. Reykingar eru með öllu óheimilar í Nemendagörðum.

2. gr. Lóð

Akstur um lóð Nemendagarða er óheimill. Ef aðgengi sjúkrabifreiða er heft og/eða öryggi íbúa í hættu geta ökumenn bifreiða átt á hættu að bifreiðar í þeirra umsjá verði færðar á þeirra ábyrgð og bera þeir allt tjón sem af slíku hlytist. Leigutökum ber skylda samkvæmt húsaleigusamningi að taka þátt í allsherjarhreingerningu við lóðir a.m.k. tvisvar á ári.

3. gr. Þvottahús

Sameiginlegt þvottahús fyrir nemendur er staðsett í Helvíti, þ.e. í kjallara háskólans. 

Þvottahúsið er opið kl. 08:00 - 22:00 alla daga vikunnar.

Ath. Þvottaaðstaðan er eingöngu ætluð nemendum við Háskólann á Bifröst.

4. gr. Íþróttasvæði

Íþrótta- og baðsvæði er öllum íbúum 16 ára og eldri frjálst til afnota skv. reglum sem um það gilda hverju sinni. Börn yngri en 16 ára skulu vera í fylgd með fullorðnum. Sauna er tímastillt og er starfsmönnum skólans einungis heimilt að eiga við tækin.

5. gr. Rusl

Allt rusl skal vera í lokuðum plastpokum og sett í ruslatunnur og/eða ruslagáma. Óheimilt er að skilja heimilissorp eftir fyrir utan íbúðir. 

6. gr. Dýrahald

Ekki er heimilt að halda húsdýr s.s. hunda eða ketti í einstaklingsíbúðum. Í öðrum fjölskylduíbúðum má hafa hunda og ketti og gilda þá þær reglur Borgarbyggðar um dýrahald sem eru í gildi hverju sinni.

7. gr. Viðhald

Íbúum er skylt að senda tilkynningu með tölvupósti á husnaedi@bifrost.is og gera umsjónarmanni húsnæðis strax viðvart ef bilanir eða skemmdir verða á húsnæði eða búnaði.

Brot á þessum reglum skal tilkynna umsjónarmanni húsnæðis eða stjórn Nemendagarða. Ef brot er ítrekað getur það valdið brottvísun úr húsnæðinu sbr. ákvæði húsaleigusamnings.

8. gr. Félög leigjenda

Í einstaklingsíbúðum/sambýlum mynda leigjendur hverrar íbúðar saman íbúðarfélag, sem skipuleggur öll þrif (dagleg, vikuleg og við brottför úr húsnæði) og afnot af sameiginlegu rými. Ákvarðanir íbúðarfélagsins þurfa að vera teknar með einróma samkomulagi allra félagsmanna. Að öðru leyti mótar hvert félag sínar reglur varðandi umgengni og sameiginleg málefni. Óleysanlegum ágreiningi leigjenda íbúðar skal vísað til úrskurðar stjórnar Nemendagarða. Hvert íbúðarfélag skal kjósa sér talsmann sem kemur fram fyrir félagið gagnvart stjórn Nemendagarða. Íbúar á Nemendagörðum mynda með sér hagsmunafélag, íbúaráð, er heldur fundi reglulega, a.m.k einu sinni við upphaf hvers misseris. Íbúar eru hvattir til að mæta á slíka fundi.

9. gr. Húsaleigusamningur

Reglur þessar eru settar samkvæmt ákvæði í gildandi húsaleigusamningi (11. gr.) og eru sérstaklega ætlaðar til þess að íbúum séu ljósar skyldur gagnvart öðrum íbúum. Um skyldur gagnvart leigusala (og öfugt), vísast til ákvæða í húsaleigusamningi. Reglur þessar eru settar af stjórn Nemendagarða að höfðu samráði við Háskólaráð Háskólans á Bifröst.

Uppfært  27. mars 2023.  

Umsjónarmaðurhúsnæðis.

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta