Tilraunaverkefni um hækkað menntunarstig

Háskólinn á Bifröst hefur umsjón með framkvæmd tilraunaverkefnis um hækkað menntunarstig í Norðvesturkjördæmi samkvæmt samningi við Menntamálaráðuneytið frá 25. júní 2013 og 5. febrúar 2014. Verkefni þetta er liður í átaki til þess að hækka menntunarstig í íslensku atvinnulífi og er fjármagnað af aðilum vinnumarkaðarins.

Sérstök verkefnisstjórn er yfir tilraunaverkefninu og er formaður hennar Vilhjálmur Egilsson, rektor Háskólans á Bifröst. Í verkefnisstjórninni sitja fulltrúar atvinnulífs, stéttarfélaga, sveitarfélaga og skóla- og fræðslustofnana í Norðvesturkjördæmi.

Sumarið 2013 voru tekin viðtöl við um 800 stjórnendur og starfsmenn fyrirtækja og stofnana í kjördæminu með það að markmiði að greina eftirspurn og þörf fyrir menntun í kjördæminu. Spurningakannanir voru jafnframt framkvæmdar, annars vegar á meðal forsvarsmanna fyrirtækja og stofnana, og hins vegar íbúakönnun út frá úrtaki úr þjóðskrá. Á grundvelli niðurstaðna viðtalsrannsóknar og kannana voru lagðar fram tillögur að aðgerðum. Greinargerð um niðurstöður rannsóknanna má finna hér.

Tillögurnar voru kynntar stýrihópi Mennta og menningarmálaráðuneytis þar sem sitja fulltrúar SA, ASÍ, Sambands íslenskra sveitarfélaga, velferðar- og menntamálaráðuneytis. Sá hópur samþykkti aðgerðirnar og kostnaðaráætlun á fundi sínum 17. desember 2013. Lýsingu á aðgerðum og áherslum árið 2014 má nálgast hér en meginmarkmiðin eru:

Markmið og starfsemi

 • Efla ráðgjöf til fyrirtækja um nám á vinnustað í Norðvesturkjördæmi
 • Auka samstarf atvinnulífs og fræðsluaðila í kjördæminu um starfstengt nám
 • Fjölga einstaklingum sem ljúka iðnnámi
 • Efla íslenskukunnáttu innflytjenda í kjördæminu

Starfsemi

 • Ráða og þjálfa fræðsluerindreka sem munu starfa hjá fræðslumiðstöðvum í kjördæminu og heimsækja fyrirtæki og hvetja þau til þess að gefa starfsmönnum tækifæri á menntun, með áherslu á nám í matvælaiðnaði og þjónustu, þegar það á við. Þeir eiga einnig að stuðla að auknu samstarfi atvinnulífsins og fræðsluaðila
 • Áhersla er lögð á tækifæri starfsmanna af erlendum uppruna til þess að læra íslensku á vinnustað með þátttöku samstarfsfólks og vinnuveitenda
 • Auka aðgengi að raunfærnimati og stuðningi til að ljúka námi
 • Koma á samráðsvettvangi fræðsluaðila á svæðinu sem hefur það hlutverk að tryggja samræmt mat á einingum milli framhaldsfræðsluaðila og skóla
 • Hvetja einstaklinga sem nýverið hafa hætt í framhaldsskóla til að hefja nám að nýju með boði um aukinn stuðning náms- og starfsráðgjafa
 • Standa fyrir ráðstefnu um bestu leiðir í íslenskukennslu, í samstarfi við tilraunaverkefni í Breiðholti
 • Byggt verður á því sem fyrir er og m.a. haft náið samstarf við starfsmenntasjóði sem starfa á svæðinu. Ein forsenda verkefnisins er að afurðir þess séu aðgengilegar og vel skjalfestar svo þær megi nota á öðrum landssvæðum.

Árangursmælikvarðar:

 • Að fyrirtækjum sem bjóða upp á starfstengt nám fjölgi að jafnaði um tíu á mánuði eða um 120 fyrirtæki á árinu í kjördæminu.
 • Að 60 manns af svæðinu fari í raunfærnimat (15 af Vestfjörðum og Norðurlandi vestra og 30 af Vesturlandi)
 • Að 75% þeirra sem ljúka raunfærnimati, fari í nám til að ljúka því sem á vantar
 • Að 15 framhaldsskólanemendum sem hætt hafa námi, hefji nám að nýju og njóti aukinnar handleiðslu náms- og starfsráðgjafa og raunfærnimats þegar við á
 • Að 25% þeirra sem taka þátt í íslenskukennslu á vinnustað nái þeim árangri að geta haldið uppi samræðum á íslensku.

Starfsfólk verkefnisins 2014:

Fræðsluerindrekstur á vegum símenntunarmiðstöðva í kjördæminu:

Farskólinn – miðstöð símenntunar á Norðurlandi vestra. Sími 455-010.
Verkefnastjóri er Hörður Ríkharðsson, hordurr@bifrost.is

Fræðslumiðstöð Vestfjarða Sími 456-5025.
Verkefnastjóri er Sigurborg Þorkelsdóttir, sigurborg@frmst.is

Símenntunarmiðstöð Vesturlands Sími: 437-2390.
Verkefnastjóri er Helga Björk Bjarnadóttir, helga@simenntun.is.

Háskólinn á Bifröst Sími: 433-3000.  

Geirlaug Jóhannsdóttir,verkefnastjóri tilraunaverkefnisins, geirlaug@bifrost.is.

Vilhjálmur Egilsson, formaður verkefnastjórnar, vilhjalmur@bifrost.is

Hvers vegna að velja Bifröst?

 1. Í fararbroddi í fjarnámi
 2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
 3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
 4. Sterk tengsl við atvinnulífið
 5. Persónuleg þjónusta