Um námið

Það getur tekið tíma að finna það sem mann langar til að vinna við. Þetta nám er ætlað þeim sem hafa áhuga á að vinna við skapandi greinar en eru leitandi. Hver og einn nemandi hefur námið með spurninguna; “Hvert er hlutverk mitt í lífinu?”

Við munum leggja okkur fram um að mæta þörfum ykkar og hvetja ykkur áfram með þær hugmyndir sem þið fáið eða eruð með í farteskinu. Þessi námslína er er hönnuð til þess að mæta þörfum ykkar og gefa ykkur innsýn í tækifærin sem eru að skapast í ört vaxandi atvinnugrein.

Við hvetjum ykkur líka til að efna til samvinnu við samnemendur ykkar í upphafi skólaárs. Stór hluti námsins er að vera opinn fyrir hugmyndum frá öðrum og skapa eigin tækifæri í samstarfi við aðra.

Í þessari handbók er að finna gagnlegar upplýsingar um hvernig námið er uppbyggt. Þær eru ekki tæmandi en gefa ykkur góða mynd af því hverju þið getið átt von á. Ekki hika við að vera í sambandi við mig eða aðra forsvarsmenn námsins ef þið þurfið frekari upplýsingar eða ef einhver vandamál koma upp og eins ef að persónulegir örðugleikar hindra ykkur í námi.

Við óskum ykkur góðs gengis og hlökkum til að vinna með ykkur.

Magnús Árni Skjöld Magnússon

Deildarforseti

Diplómanám í skapandi greinum

Diplómanám í skapandi greinum er hagnýt námsbraut á grunnstigi sem veitir nemendum þjálfun til að starfa í þessum vaxandi atvinnuvegi. Námsbrautin er einkum sniðin fyrir þá sem vilja öðlast innsýn og skilning á starfi framleiðenda, verkefnastjóra, umboðsmanna, útgefenda, sýningastjóra, listrænna stjórnenda, framkvæmdastjóra, frumkvöðla og „brautryðjenda“ í hinum margvíslegu menningar- og hugverkagreinum sem sameinast undir skilgreiningunni skapandi greinar. Þessar greinar eru til dæmis, tónlist, kvikmyndir, leikir, leikhús, hönnun, fjölmiðlar, auglýsingar, tíska, upplifun, afþreying og nýmiðlun. Diplómanám í skapandi greinum er þverfaglegt á sviði viðskiptafræði, stjórnunar, menningarfræði og markaðsfræði. Námið er tengt raunhæfum verkefnum þar sem lögð er áhersla á að veita góðan grunn fyrir nemendur til að finna störf við hæfi eða til frekara náms í háskóla, t.d. til að ljúka BA-námi, kjósi nemendur svo.

Markmið með námbrautinni

Þetta er hagnýtt nám þar sem lögð er áhersla á að læra með því að koma hugmyndum og verkefnum í framkvæmd. Námið miðar að því að miðla þekkingu um þau störf sem eru í boði í skapandi greinum og þjálfa hæfni til að vinna innan geirans. Markmið námsins er að veita nemendum grunn sem nýtist þeim í fjölbreyttu verkefnum sem í boði eru og um leið dýpka skilning þeirra í gegnum eigin verkefnavinnu á völdu sviði innan skapandi geira.

Hvaða hæfni tileinkar nemandi sér

Við lok diplómanáms í skapandi greinum á nemandi að hafa tök á þeim aðferðum og verkfærum em notuð eru til að þróa hugmyndir innan geirans og koma þeim í framkvæmd. Um leið eru nemendur hvattir til að þróa sína eigin hugmynd sem hægt er að leggja mat á og læra af. Diplómanámið er þannig góður grunnur fyrir verkefni og atvinnutækifæri í skapandi greinum en nýtist líka fyrir áframhaldandi nám til BA gráðu eða til að:

Við leggjum áherslu á að nemendur hafi að námi loknu:

  • Góðan skilning á skapandi greinum sem atvinnuvegi
  • Góðan skilning á störfum og tækifærum innan skapandi greina
  • Yfirsýn yfir verkferla og framleiðslu menningarviðburða og menningarefnis
  • Átti sig á sífelldum breytingum og þróun innan geirans
  • Kunni að sýsla með hagnýtan hugverkarétt

Stefnt er að því að nemendur:

  • Skilji eðli skapandi greina og hvers konar störf henta þeim sjálfum best
  • Geti þróað og framkvæmt eigin hugmyndir
  • Tileinki sér aga og góð vinnubrögð
  • Átti sig á mikilvægi þess að hugsa í lausnum og gera mat á verkefnum
  • Kunni að vinna úr reynslu og nýjum upplýsingum
  • Séu meðvitaðir og sýni skilning á afleiðingum sem varða lagalegt umhverfi, siðfræði og samfélagmál

Á fyrri önninni er reiknað með að þú öðlist góðan skilning á geiranum og á seinni önninni að þú sért í stakk búinn til að hrinda hugmynd í framkvæmd eða vinna með teymi að því að koma hugmynd í framkvæmd.

Námsskipulag og námsmat

Skólaárið hefst á vinnusmiðju þar sem nemendur og kennarar koma saman. Gestafyrirlesarar koma með innblástur um hvernig þeir fundu hlutverk sitt í lífinu. Unnið verður út frá þessari vinnusmiðju í gegnum skólaárið. Önnur námskeið eru kennd á netinu en reiknað er með að nemendur geti hist reglulega til að vinna hópverkefni saman.

Námsmatið samanstendur af hópverkefnum og einstaklingsverkefnum. Nemandi getur gert ráð fyrir hópverkefni í hverju námskeiði en samhliða því eru unnin smærri einstaklingsverkefni. Lokaverkefni getur verið einstaklings- eða hópverkefni. Nemendum stendur til boða að setja saman viðskiptaáætlun sem samanstendur af verkefnalýsingu og fjárhagsáætlun ásamt tímaramma og styrkleikagreiningu. Lokaverkefni getur líka verið markaðsáætlun eða framkvæmd á ákveðnu verkefni eða viðburði. Nemendur eiga að geta nýtt sér þekkingu úr öllum námskeiðunum sem þeir sitja til að vinna að lokaverkefninu.