Umhverfi og útivist

Fjölbreytt mannlíf í fögru umhverfi

Fjölbreytt mannlíf í fögru umhverfi

Háskólinn á Bifröst er staðsettur í Norðurárdal í Borgarfirði, um 100 km frá Reykjavík. Eldstöðin Grábrók, Hreðavatn, Jafnaskarðsskógur, Paradísarlaut, Norðurá og fossinn Glanni eru í næsta nágrenni og yfir landinu trónir Baula, eitt tignarlegasta fjall landsins. Þetta fallega umhverfi býður upp á ótal möguleika til gönguferða og útivistar.

Meira um jarðfræði svæðisins

Golf

Golf

Golfvöllurinn Glanni er í göngufæri við háskólaþorpið. Völlurinn, sem er níu holu, þykir hinn skemmtilegasti og með fegurstu golfvöllum landsins.

Fótbolti

Fótbolti

Í háskólaþorpinu er knattspyrnuvöllur sem er mikið notaður af börnum og fullorðnum. Um er að ræða gervigrasvöll sem er flóðlýstur í skammdeginu. Völlurinn er hluti af sparkvallaátakinu svokallaða sem hófst árið 2004 en um var að ræða samvinnuverkefni KSÍ, sveitarfélaga og nokkurra fyrirtækja um uppbyggingu sparkvalla víða um land.

Útivist

Útivist

Margar skemmtilegar gönguleiðir er að finna í nágrenni Bifrastar. Umhverfið er afar fjölbreytt og býður upp á marga möguleika. Þræða má krákustíga í hrauninu eða rölta meðfram Norðuránni, fara í skógargöngu í Jafnaskarðsskóg, ganga á Grábrók eða reyna sig við alvöru fjöll á borð við Hraunsnefsöxlina eða Baulu.

Hreðavatn

Hreðavatn

Háskólinn á Bifröst stendur á landsvæði sem áður tilheyrði jörðinni Hreðavatni. Hinn 30. desember 1985 á þrítugasta afmæli skólastarfs á Bifröst, færðu erfingjar Hreðavatnshjónanna Sigurlaugar Daníelsdóttur og Kristjáns Gestssonar skólanum höfðinglega gjöf er þeir afhentu honum lóðina sem hann stendur á til eignar í minningu hjónanna.

Umgengni

Svæðið umhverfis Hreðavatn er mikið notað sem útivistarsvæði. Eigendur jarðarinnar Hreðavatns vilja benda á nokkur atriði sem fólk þarf að hafa í huga í umgengni við landið.
 
Öll umferð vélknúinna ökutækja er stranglega bönnuð utan vega og óskráð ökutæki eru alveg bönnuð. Vegna sumarhúsabyggðar og mikillar umferðar gangandi vegfarenda á svæðinu er farið fram á að hundar gangi ekki lausir og að hirt sé upp eftir þá.
 
Öll umferð báta á vatninu fyrir landi Hreðavatns er háð leyfi landeigenda og notkun mótorbáta er alveg bönnuð. Veiðileyfi í vatnið fæst með kaupum á veiðikortinu.
 
Öll meðferð skotvopna er óheimil í landi Hreðavatns.
 
Hvers konar nýting jarðarinnar til samkomuhalds og þess háttar er alfarið háð samkomulagi við jarðeigendur.
 
Nánari upplýsingar veita Birgir Hauksson í Tröð í síma 893 3229 og Davíð Magnússon á Hvassafelli í síma 864 0043.

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta