Náms- og þjónustustefna

Tilgangur náms- og þjónustustefnu Háskólans á Bifröst er að skilgreina þjónustu skólans og tekur hún m.a. til samskipta nemenda og starfsfólks. Háskólinn á Bifröst hefur að markmiði að veita persónulega og faglega þjónustu en í því felst að bæði starfsfólk og nemendur eru þátttakendur og bera saman ábyrgð á gagnlegum og jákvæðum samskiptum.

Árangur í námi við Háskólann á Bifröst er á ábyrgð nemenda. Námið og umgjörð þess er stutt með kennslu og leiðbeiningum af hálfu kennara og annarra starfsmanna skólans. Í námi við Háskólann á Bifröst eru nemendur lykilþátttakendur og því er þjónustan og samskiptin milli þeirra og starfsmanna skólans ekki síður í þeirra höndum en höndum starfsmanna. Námið felur í sér samstarf sem byggir á virðingu og trausti og áhuga nemenda og kennara á að öðlast nýja þekkingu og færni og vilja til að takast á við ögrandi verkefni.

Viðmið og væntingar

Háskólinn á Bifröst:

 • Háskólinn á Bifröst kappkostar að veita nemendum menntun sem eykur þekkingu þeirra, leikni og hæfni og nýtist þeim í lífi og starfi.
 • Háskólinn á Bifröst hefur að markmiði að búa nemendur undir leiðandi störf í samfélaginu þar sem lögð er sérstök áhersla á gildi skólans: Frumkvæði, ábyrgð og samvinnu.
 • Háskólinn á Bifröst leggur áherslu á gæði og fagmennsku í kennslu og kennsluháttum.
  • Kennarar leggja sig fram um að styðja við nemendur á námsferli þeirra með því að:
   útbúa og skila tímanlega skýrri kennsluáætlun,
  • undirbúa kennslu af kostgæfni og koma námsefni skilmerkilega frá sér,
   skila af sér mati á verkefnum og prófum í samræmi við kennsluáætlun,
  • meta nemendur með faglegum og sanngjörnum hætti,
   styðja við nám nemenda eins og kostur er.

Nemendur:

 • Nemendur taka frumkvæði og bera ábyrgð á námsframvindu sinni.
 • Ætlast er til að nemendur undirbúi sig fyrir samverustundir með kennara samkvæmt kennsluáætlun og leiðbeiningum frá kennara, m.a. með því að hlusta á fyrirlestra, lesa námsefnið, taka þátt í umræðum. Ennfremur skulu nemendur skila fyrirlögðum verkefnum á réttum tíma.
 • Nemendur bera ábyrgð á að kalla eftir frekari útskýringum frá kennara ef þörf er á. Slíkt skal gert með eðlilegum fyrirvara og innan þess tímaramma sem kennari veitir. Nemendur skulu hafa það í huga að kennarar þurfa tíma til að bregðast við fyrirspurnum nemenda.
 • Nemendur skulu kynna sér og virða í hvívetna reglur um akademísk vinnubrögð, svo sem um hugverkarétt og meðferð heimilda.

Samskipti:

 • Háskólinn á Bifröst leggur áherslu á að gagnkvæm virðing sé viðhöfð í öllum samskiptum, hvort sem þau fara fram í kennslustofu eða eftir öðrum samskiptaleiðum.
 • Allir skulu leggja sig fram um að sýna kurteisi og virðingu í samskiptum.
 • Samskipti nemenda og kennara fara fram með ýmsum leiðum en kennari tilgreinir í kennsluáætlun þær samskiptaleiðir sem hann kýs að nota meðan á kennslu námsgreinar stendur.
 • Algengt er að samskipti kennara og nemenda fari fram með tölvupóstum en kennari leitast við að svara erindum eins fljótt og auðið er. Ekki er hægt að krefjast þess að kennarar eigi samskipti við nemendur utan hefðbundins vinnutíma.
 • Mikilvægt er að allir nemendur geti fylgst með öllum umræðum og samskiptum milli nemenda og kennara í námskeiði um málefni sem varða námsefnið og útskýringar á því.
 • Nemendur eru hvattir til að taka virkan þátt í umræðum í hópum sem stofnaðir eru um hvert námskeið innan kennslukerfis.

Samskipti á fjarfundum:

Fari skipulagðir fundir eða kennsla fram í gegnum fjarfundabúnað gilda eftirfarandi reglur:

 • Þeir sem taka þátt á fundinum hafi kveikt á myndavél á meðan hann fer fram.
 • Þeir sem ekki eru með orðið hafi slökkt á hljóðnema.
 • Óski nemandi eftir að fá orðið réttir hann upp rafræna hönd.
 • Ef kennarar hyggjast taka upp fundinn þá þarf það að koma fram í fundarboði og tekið fram í upphafi fundar.
 • Nota skal heyrnatól með hljóðnema á fundum til að tryggja gæði fundarins fyrir alla viðstadda.

Prentvænt útgáfa

 

Yfirfarið á fundi í Háskólaráði 08.04.2022

Gildir frá 01.08.2022

Staðfest af rektor 08.04.2022