Vinnur að samþættingu norrænna viðskipta- og bókhaldsgagna 29. nóvember 2021

Vinnur að samþættingu norrænna viðskipta- og bókhaldsgagna

Hanna Kristín Skaftadóttir, lektor við háskólann á Bifröst, hefur tekið við stöðu akademísks fulltrúa Norðurlandanna í ráðgjafaráði Nordic Smart Government.

Nordic Smart Government (NSG) vinnur að brautargengi metnaðarmáls norrænu forsætisráðherranna um að Norðurlönd verði samþættasta landsvæði í heiminum. Markmiðið er að fækka hindrunum innan svæðisins og auka samstarf og skilning á milli fyrirtækja til að styðja við norræna velferð og vöxt.

Nordic Smart Government miðar að því að gera fyrirtækjum og stofnunum kleift að miðla og sækja viðskipta- og bókhaldsgögn á sjálfvirkan og öruggan hátt í rauntíma eða því sem næst. Markmiðið er að gera viðskiptaferla við kaup og sölu á vöru og þjónustu sjálfvirka með aðstoð stafrænnar tækni. Upplýsingum í viðskiptakeðjunni frá birgjum til fyrirtækja og frá fyrirtækjum til viðskiptavina verði miðlað stafrænt bæði innanlands og innbyrðis á milli allra Norðurlandanna.

„Það er ánægjulegt að fá að koma að þessu verkefni. Bakgrunnur minn á sviði nýsköpunar og fjármála mun vonandi, ásamt akademísku sérsviði mínu, koma að góðum notum í ráðgjafaráði NSG. Það ætti að verða til hagsbóta á öllum Norðurlöndnum ef og þegar okkur tekst að samþætta, betur en nú er, viðskiptaferla einstakra fyrirtækja og stofnana, bæði á milli Norðurlandanna sem og innan hvers lands fyrir sig. Fyrsta skrefið hér á landi er að styrkja innviði og útbúa leiðbeiningar um það, hvernig gera má stafrænar aðferðir ráðandi á þessu sviði. Þegar Norðurlöndin verða stafrænt séð komin á svipaðan stað, þá fyrst getum við hafið samþættingu ferla með tilliti til þess að greiða fyrir reikningsskilum og öðrum viðskiptatengdum ferlum,” segir Hanna Kristín.

Hanna Kristín er doktorsnemi í upplýsingatækni fjárhagskerfa og sérhæfir sig í sjálfvirknivæðingu ferla í endurskoðun (RPA). Eftir að hafa lokið B.Sc. prófi og útskrifaðist með meistarapróf í reikningshaldi og endurskoðun frá Háskólanum í Reykjavík árið 2012.

Hanna Kristín hefur fjölbreytta reynslu á sviði háskólakennslu, fjármála og nýsköpunar. Auk lektorsstöðunnar við Háskólann á Bifröst, hefur hún gegnt stöðu stundakennara í meistaranámi við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og kennt endurskoðun, fjármál og fjártækni. Þá hefur hún einnig sinnt nýsköpunarráðgjöf.

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta