7. október 2015

Vinna vegna alþjóðlegrar meistaragráðu í viðskiptalögfræði hafin

Tveggja daga vinnufundi Háskólans á Bifröst, Aarhus háskóla og University College of Dublin, Sutherland School of Law lauk í vikunni vegna vinnu við að koma á samstarfi um meistaragráðu háskólanna þriggja í viðskiptalögfræði. Lögfræðisvið Háskólans á Bifröst hlaut nýverið styrk til að þróa verkefnið.

Á fundinum, sem fór annars vegar fram í Háskólanum á Bifröst og í Iðnó í Reykjavík, sátu fulltrúar skólanna þriggja en undirbúningsvinna við að setja á fót sameiginlega meistaragráðu mun fara fram næstu tvö árin enda afar viðamikið verkefni. Háskólarnir ræddu m.a. mögulega samstarfsfleti og uppbyggingu meistaragráðu sem þessarar. Þetta var fyrsti undirbúningsfundur hópsins en sá næsti mun fara fram í Aarhusháskóla í janúnarmánuði. 

“Verkefnið er metnaðarfullt og það er sérstaklega ánægjulegt að vera í samstarfi við tvær sterkar lagadeildir sem þessar við að þróa sameiginlega meistaragráðu í lögfræði”, segir Helga Kristín Auðunsdóttir sem leiðir verkefnið fyrir hönd Háskólans á Bifröst. Vinnan er jafnframt liður í stefnumótunarvinnu við að styrkja enn frekar áherslu Háskólans á Bifröst í viðskiptalögfræði. “Sérstaða Háskólans á Bifröst felst ekki síst í því að við leggjum áherslu á samspil lögfræði og viðskiptafræði. Nemendur okkar fá menntun í viðskiptafræði auk þess að hafa tilteinkað sér hina lagalegu aðferð í laganáminu. Gráðan verður fyrir vikið mjög hagnýt. Þetta verkefni er liður í stefnumótunarvinnu okkar og framtíðarsýn”, segir Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir sviðsstjóri lögfræðisviðs. 

Á fundinum sátu fyrir hönd Háskólans á Bifröst, Anna Elísabet Ólafsdóttir aðstoðarrektor, Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir sviðsstjóri lögfræðisviðs, Helga Kristín Auðunsdóttir sem leiðir verkefnið, Kári Joensen forstöðumaður rannsóknamiðstöðvar Háskólans á Bifröst og Sigrún Jónsdóttir kennslustjóri.

 

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta