Kasper Simo Kristensen, skrifstofustjóri rektors, á fundi rektora sem haldinn var nýlega í Barcelona á vegum OpenEU

Kasper Simo Kristensen, skrifstofustjóri rektors, á fundi rektora sem haldinn var nýlega í Barcelona á vegum OpenEU

2. júlí 2024

Viðurkenning á leiðandi stöðu HB

Um 190 milljónir króna, eða 1.272 þúsund evrur, renna beint til Háskólans á Bifröst sem aðila að OpenEU háskólanum, af risavöxnum Evrópustyrki sem þessi fyrsti samevrópski opni háskóli hlaut nýverið.

Háskólinn á Bifröst hefur frá árinu 2021 átt aðild OpenEU háskólanum, en að stofnun hans starfa nú 27 samstarfsaðilar innan European Universities Initiative, en háskólinn verður fyrsti samevrópski háskólinn og opinn öllum innan Evrópu, eins og heitið gefur bókstaflega til kynna.

Háskólinn verður starfræktur á stafrænum grunni og felur sá 2,2 milljarðs króna styrkur, sem háskólanetið hlaut nú nýverið, verulega viðurkenningu í sér á mikilvægi stafrænnar þróunar fyrir stöðu háskólamenntunar. Fjarnámstæknin stuðlar sem dæmi ekki aðeins að auknu aðgengi að námi heldur einnig að grænni háskólum, s.s. með minna kolefnisfótspori. Þá þykir aðild að verkefninu ekki síður viðurkenning fyrir Háskólann á Bifröst sem leiðandi í fjarnkennslu á háskólastigi.

Kasper Simo Kristensen, skrifstofustjóri rektors Háskólans á Bifröst, segir samstarfið snúast um stofnun nýs háskóla, sem starfi á forsendum námsmiðaðrar, grænnar og inngildandi nálgunar. Fjarnámstæknin opni ekki aðeins fleirum leið að háskólanámi óháð efnahag, aldri og búsetu, heldur þjóni framþróun á þessu sviði einnig öðrum mikilvægum markmiðum á borð við inngildinu.

Sem opinn háskóli verður jafnframt lögð áhersla á fjölbreytt námsframboð á breðum grunni. „Auk hefðbundins háskólanáms, eins og við þekkjum það í dag, verður styttra örnám (e. micro credentials) einnig í boði og endurmenntun (e. lifelong learning) sem miðar að aukinni starfshæfni og aðlögun að örum tæknibreytingum. Meginmarkmiðið OpenEU háskólans er þannig að þróa og innleiða stafrænar lausnir sem gera  háskólanum kleift að mæta ólíkum menntaþörfum fólks á forsendum þess sjálfs.“

Þá felur aðild Háskólans á Bifröst að þessu þverevrópska samstarfi í sér einstakt tækifæri til að taka þátt í rannsóknadrifinni nýsköpun innan stafrænnar fjarmenntunar. Fyrir nemendur og starfsfólk verða sem dæmi þróaðar stafrænar samfélagslausnir, þar á meðal sveigjanlegar sýndarlausnir vegna námsmannaskipta, starfsmannaþjálfunar og sameiginlegra námskeiða og námslína.

Það er svo einmitt að framþróun stafrænna lausna sem framlag Háskólans á Bifröst beinst aðallega. „Við leiðum einn af þeim átta vinnupökkum sem framkvæmd verkefnisins greinist niður í,“ segir Kasper, en hlutdeild þess pakka í heildarstyrknum nemur um 190 milljónum króna.

Samfélagsleg þátttaka, virk samskipti á meðal haghafa og stafræn velferð í fjarnámi eru lykilorðin í því sambandi. „Á meðal þess sem við erum að vinna með er að þróa einstaklingsmiðað námsumhverfi fyrir nemendur ásamt sýndarháskólasvæði (e. Virtual Community Campus) sem starfs- og samskiptavettvang fyrir kennara og nemendur innan OpenEU. Þá kemur einnig í okkar hlut að styrkja samstarfið á milli OpenEU háskólans og ytri haghafa á sviði starfsþróunar, lýðræðislegrar þátttöku, byggðaþróunar, loftslagsbreytinga og stafrænnar umbreytingar,“ segir Kasper.

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta