10. febrúar 2023

Verkefnastjórn heimilisins

Haukur Þór Stephensen og Helgi Már Friðgeirsson, nemendur í viðskiptafræði með áherslu á verkefnastjórnun við Háskólann á Bifröst, unnu saman lokaverkefni um hversdagslega verkefnastjórnun og notkun hennar til að jafna verkaskiptingu vegna „annarrar“ og „þriðju“ vaktarinnar.

Markmið verkefnisins var að afmarka þá þætti í daglegu lífi fólks sem fallið gætu að verkfærum verkefnastjórnunar í þessu tilliti.

Rannsókn Hauks og Helga á verkaskiptingu á heimilinu, leiddi enda í ljós að verkaskiptingin þar er enn kynbundin. Einnig kom fram að karlar telja verkaskiptingu á heimilum sínum jafnari en konur, sem er í samræmi við erlendar rannsóknir.

Ef litið er til þess kostnaðar sem ójöfn verkaskipting á heimili getur leitt af sér fyrir samfélagið, þá sýna rannsóknir að þessi neikvæðu áhrif spanna allt frá sambúð eða hjónabandi, að sjálfsmynd, vellíðan og heilsu viðkomandi.

Af lokaverkefni Hauks og Helga má jafnframt heita ljóst að aðferðir verkefnastjórnunar geta að mörgu leyti nýst til að draga úr og jafna álag af daglegum rekstri heimilisins.

Notkun verkefnastjórnunar til að létta undir annarri og þriðju vaktarinnar snýst um að finna lausnir hvað varðar þá daglegu rútínu sem heimili þurfa að eiga við og er áhugavert að kynna sér niðurstöður Hauks og Helga varðandi það, hvernig nýta má aðferðir verkefnastjórnunar á þessum daglega vettvangi.

Verkefnastjórnun auðveldar skilgreiningu á verkefni og áætlanagerð vegna verkefna heimilisins og stuðlar að góðum samskiptum og miðlun upplýsinga milli fjölskyldumeðlima. Það eitt að hafa skipulag til staðar lækkar jafnframt þá huglægu byrði sem fylgir því að þurfa alltaf að huga að því sem þarf að gera og muna eftir.

Í opnum svörum rannsóknar Hauks og Helga kom hinsvegar fram ákveðin neikvæðni í garð orðsins „verkefnastjórnun.“ Sérstaklega veigruðu konur sér við því, að gerast verkefnastjórar þar sem þær töldu að ábyrgðin og álagið sem því fylgdi væri ekki þess virði.

Þá benda þeir félagar á að verkfæri verkefnastjórnunar geti vissulega létt á byrðum annarrar og þriðju vaktarinnar. Engu að síður megi heita ljóst, að vandamálið sé ekki eingöngu tæknilegs eðlis. Það verði því ekki leyst með betri verkfærum, forritum eða öðrum álíka. Eina varanlega lausnin felist í því að útryma hefðbundinni kynhlutverkaskiptingu á heimilum.

Fjallað var nýlega um lokaverkefni Hauks og Helga í Mannlega þættinum á Rás 1

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta