Hópur G önnum kafinn við vörn á misserisverkefni sínu 2022.

Hópur G önnum kafinn við vörn á misserisverkefni sínu 2022.

16. maí 2022

Verðlaunuð fyrir framúrskarandi verkefni á Missó

Hópur G hlaut verðlaun fyrir framúrskarandi misserisverkefni árið 2022. Heiti verkefnisins var „Hvaða áhrif myndi það hafa á meðferð sakamála er varða kynbundið ofbeldi ef brotaþolar fengju stöðu sem aðilar máls?

Í verðlaunahópi ársins 2022 áttu sæti Berta Lind Jóhannesdóttir, Inga Hrönn Ásgeirsdóttir, Ólafur Geir Ottósson, Sandra Birna Ragnarsdóttir, Silja Stefánsdóttir og Þórunn Marinósdóttir, en leiðbeinandi var Unnar Steinn Bjarndal, lektor við lagadeild Háskólans á Bifröst.

Metfjöldi tók þátt í misserisverkefnum að þessu sinni eða samtals 241 nemandi. Skiptust þátttakendur í 46 verkefnahópa.

Misserisvarnirnar fóru svo fram við Háskólann á Bifröst dagana 12. til 14. maí sl. Misserisverkefni eru hópverkefni sem nemendur vinna undir leiðsögn kennara og þurfa að verja í kjölfarið fyrir prófnefnd. Tilgangur misserisverkefna er margþættur en þau veita nemendum t.a.m. tækifæri til að dýpka skilning sinn á afmörkuðu sviði og öðlast þannig meiri sérfræðiþekkingu en ella. Þá eru verkefnin oft unnin í nánum tengslum við fyrirtæki og stofnanir og veita þannig innsýn í viðfangsefni og áskoranir atvinnulífsins.

Í umsögn um verðlaunaverkefni ársins segir:

Hér er á ferðinni eftirtektarverð rannsókn sem tekur á mikilvægu álitaefni sem nú er í brennidepli. Verkefnið hefur mikið hagnýtt gildi og getur orðið dýrmætt innlegg inn í opinbera umræðu. Í rannsókninni var beitt blandaðri aðferðafræði, þ.e. lögfræðilegri rannsókn og viðtalsrannsókn sem var einkar vel valin með hliðsjón af rannsóknarefni. Að mati dómnefndar var rannsóknin vel útfærð og útkoman er til þess fallin að bæta við þá þekkingu sem til er á þessu sviði.

Fræðileg umfjöllun greinargerðar er vönduð og byggði hún á fjölda innlendra og erlendra heimilda. Nokkur áhersla var lögð á samanburðarrannsókn á sakamálalöggjöf nokkurra landa og var útkoman gagnlegt yfirlit. Niðurstöður verkefnisins eru greinargóðar, skýrar og vel rökstuddar. Rannsóknarspurningu hópsins var svarað með greinargóðum hætti.

Í heild er um að ræða afar vandað verkefni sem er til þess fallið að skila sér í vandaðri og dýpri opinberri umræðu um mikilvægt samfélagslegt málefni.

Hópur G hlaut í verðlaun gjafabox frá Óskaskríni ásamt viðurkenningarskjali. Er meðlimum hópsins óskað hjartanlega til hamingju með glæsilegan árangur.

Sjá fyrri frétt

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta