Fyrsti í missó 12. maí 2022

Fyrsti í missó

Missó, þriggja daga uppskeruhátíð misserisvarna, hófst í morgun. Fjöldi verkefnahópa varði misserisverkefni sín með glæsibrag og enn fleiri munu taka til varna á næstu tveimur dögum.

Misserisvarnir fara fram við Háskólann á Bifröst dagana 12. til 14. maí. Nemendur vinna misserisverkefni, gjarnan í þverfaglegum hópum undir leiðsögn kennara og verja að því loknu niðurstöður fyrir sérstakri prófnefnd og öðrum hópi nemenda.

Tilgangur misserisverkefna er margþættur. Þau veita nemendum tækifæri til að öðlast dýpri skilning á afmörkuðu sviði fræða og framkvæmdar og þar sem verkefnin eru iðulega unnin í nánum tengslum við fyrirtæki og stofnanir, veitir verkefnavinnan innsýn í raunhæf viðfangsefni beint úr atvinnulífinu.

Þá veita misserisverkefnin dýrmætt tækifæri til að leggja námsefnið til grundvallar á greiningu, skýringum og úrlausnum raunhæfra verkefna. Nemendum gefst þannig kostur á að læra af raunverulegum aðstæðum og dýpka skilning sinn með því móti á námsefninu.

Síðast en ekki síst gegna misserisverkefnin mikilvægu hlutverki við að þjálfa nemendur í að beita viðurkenndum vísindalegum aðferðum við rannsóknir eða úrlausn hagnýtra og fræðilegra viðfangsefna.

Misserisverkefni eru fastur liður á Bifröst og sannkallaður vorboði fyrir háskólasamfélagið á hverju ári.

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta