Velkominn til starfa
Dr. Kasper Kristensen hefur verið ráðinn nýr rannsóknarstjóri Háskólans á Bifröst. Hann hefur störf við skrifstofu rektors 12. júní nk.
Kasper hóf doktorsnám við Háskólann í Helsinki, en samhliða því sat hann í stjórn rannsóknasviðs hug- og félagsvísinda. Árið 2016 færði hann doktorsrannsókn sína um set eða til háskólans í Uppsölum, þar sem hann tók þátt í 10 ára þverfaglegu rannsóknarverkefni sem nefndist Engaging Vulnerability. Hann lauk svo doktorsprófi árið 2023.
Í Uppsölum gegndi Kasper ýmsum rannsóknatengdum stjórnunarstörfum, t.a.m. sem formaður doktorsnemaráðs í hugvísindum, stjórnarmaður í deildarráði hugvísindadeildar og stjórnarmaður í rannsóknarverkefninu Democracy and Higher Education. Þá hefur hann enn fremur fengið birtar eftir sig greinar um stefnumörkun varðandi rannsóknir og jafningjadrifna ákvarðanatöku í norrænum háskólum.
Þess má svo geta, að Kasper hefur einnig lokið kennaraprófi við Háskólann í Helsinki og hefur hann kennt ýmis námskeið sem spanna allt frá heimspeki að vísindakenningum og rannsóknasiðfræði.
Við bjóðum Kasper innilega velkominn til starfa við Háskólann á Bifröst.
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta