19. ágúst 2022

Velkominn til starfa

Bjarki Þór Grönfeldt hefur verið ráðinn sem sérfræðingur við Háskólann á Bifröst í vetur vegna rannsóknaverkefna á vegum Sambands sveitarfélaga á Vesturlandi. Snúa verkefnin m.a. að ímynd Vesturlands í hugum íbúa annarra svæða á landinu.

Þá mun Bjarki taka til starfa sem stundakennari við Háskólann Bifröst um næstu áramót.  

Bjarki er að ljúka doktorsnámi í stjórnmálasálfræði við Háskólann í Kent í Englandi, en hann er jafnframt með meistaragráðu í faginu frá þeim háskóla. BS námi sínu í sálfræði lauk hann hins vegar við Háskólann í Reykjavík. Meðfram doktorsnáminu í Kent kenndi Bjarki í stjórnmálafræði á bæði grunn- og meistarastigi.  

Doktorsverkefni Bjarka fjallar um sameiginlegan narsissisma (e. collective narcissism). Narsisissmi er sálfræðilegt hugtak sem hefur verið notað til að rannsaka sjálfhverfu, hégóma og stórkostlegar hugmyndir um eigið ágæti. Nýlegar rannsóknir hafa sýnt fram á að fólk getur þróað með sér narsissisma út frá félagslegum heildum sem það tilheyrir. Sem dæmi um slíkar heildir má nefna þjóð, stjórnmálaflokka og íþróttalið.  

Megnið af doktorsritgerð Bjarka fjallar um hvernig sameiginlegur narsissismi í Bandaríkjunum og Bretlandi tengdist viðhorfum um COVID-19 faraldurinn. Birti hið virta fræðirit, Personality and Social Psychology Bulletin, grein um niðurstöður rannsóknarinnar, en í hún leiddi í ljós að sameiginlegur narsissismi í þessum löndum tengist því viðhorfi að ásættanlegt sé að fórna samborgurum í faraldrinum, til dæmis með því að hætta prófum og smitrakningu. 

Fyrir greinina hlaut Bjarki verðlaun á nýliðinni ráðstefnu Aþjóðasamtaka stjórnmálasálfræðinga (ISPP), sem fram fór í Aþenu í júlí sl. 

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta