19. ágúst 2022

Velkomin til starfa

Dr. Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, þjóðfræðingur og rithöfundur, fyrrverandi alþingismaður, skólameistari og borgarfulltrúi, hefur verð ráðin deildarforseti við félagsvísindadeild Háskólans á Bifröst. Er Ólína boðin hjartanlega velkomin til starfa.

Ólína lauk BA námi í íslenskum bókmenntum og heimspeki við Háskóla Íslands. Að því loknu lauk hún magisterprófi og síðan doktorsprófi í íslenskum bókmenntum og þjóðfræðum, einnig við HÍ, en doktorsverkefni sitt byggði hún á þjóðfræðilegri og bókmenntafræðilegri rannsókn á galdratrú í málskjölum og munnmælum 17. aldar.

Jafnframt nam Ólína stjórnunarfræði við viðskipta- og hagfræðideild HÍ og er með kennsluréttindi á framhaldsskólastigi.

Frá árinu 2016 hefur Ólína verið sjálfstætt starfandi fræðimaður, rithöfundur, bókmenntagagnrýnandi á RÚV og Fréttablaðinu og kennari, þ.á.m. við Háskólann á Bifröst á síðastliðnum tveimur skólaárum.

Auk ýmissa fræðigreina liggja átta útgefnar bækur, þar af sex fræði- og heimildarit, eftir Ólínu. Árið 2019 hlaut hún svo tilnefningu til íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki fræðirita fyrir bókina Lífgrös og leyndir dómar. Lækningar, töfrar og trú í sögulegu ljósi (Vaka-Helgafell/Forlagið 2019).

Ólína hefur víðtæka stjórnunarreynslu, var m.a. skólameistari við Menntaskólann á Ísafirði í hálfan áratug. Auk þess býr Ólína að 14 ára kennslureynslu á háskólastigi. Tók hún m.a. þátt í að móta og byggja þjóðfræði upp sem kennslu- og fræðigrein við Háskóla Íslands. Hún hefur stýrt og leitt saman samstarfsaðila í alþjóðlegu vísindasamstarfi og tekið þátt í að koma á fót rannsókna- og fræðasetrum á landsbyggðinni. Þá leiddi hún á sínum tíma þróunarverkefni við Háskóla Íslands vegna þróunar fjarnáms við Háskólasetur Vestfjarða, svo að dæmi séu tekin.

Ólína sat á Alþingi fyrir Norðvesturkjördæmi á árunum 2009-2013 og 2015-2016. Var hún m.a. formaður umhverfisnefndar, varaformaður atvinnuveganefndar, forseti Vestnorræna ráðsins og varaforseti Norðurlandsráðs. Þá gat Ólína sér ekki síður orðs fyrir skelegga framgöngu sem borgarfulltrúi í Reykjavík á árunum 1990-1994. Margir muna svo eflaust eftir henni sem fréttamanni og dagskrárgerðarmanni hjá Ríkisútvarpinu á níunda áratug s.a.

Ólína hefur í gegnum árin einnig vakið athygli sem hagyrðingur góður og hefur hún unnið til ýmissa verðlauna og viðurkenninga á því sviði, s.s. í ljóðasamkeppni Listahátíðar Reykjavíkur. Hún var um skeið formaður Óðfræðifélagsins Boðnar og varaformaður kvæðamannafélagsins Iðunnar.

Þess má svo geta að Ólína hefur um langt árabil verið virkur björgunarsveitarmaður og fararstjóri fyrir Ferðafélag Íslands.

Ólína tekur við af dr. Nirði Sigurjónssyni, sem hefur gegnt embætti deildarforseta síðastliðin tvö ár. Er Nirði þakkað frábært starf í þágu félagsvísindadeildar á starfstímanum.

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta