Uppskeruhátíð nýsköpunar
Nemendur í Nýsköpun og viðskiptaáætlanagerð við Háskólann á Bifröst kynna lokaverkefni sín í Menntaskóla Borgarfjarðar, laugardaginn 6. apríl nk. kl. 14:00 – 17:00.
Aðdáendur Shark Tank þáttanna ættu að taka þennan tíma frá og koma við í menntaskólanum, en kynningarnar fara fram með svipuðu sniði og „Shark Tank“ viðskiptakynningar.
Viðburðurinn verður á sal menntaskólans og gefst áhorfendum hér frábært tækifæri til að kynnast nýjum og spennandi viðskiptahugmyndum, sem gætu átt framtíðina fyrir sér. Dómnefnd skipa Eva Karen Þórðardóttir, Vífill Karlsson og Jakob K. Kristjánsson. Fundarstjóri er Halldóra Lóa Þorvaldsdóttir en kennari námskeiðsins er Fida Abu Libdeh.
Tilgangur námskeiðsins, sem er hluti af bæði grunnnámi í viðskiptafræði og skapandi greinum við Háskólann á Bifröst, er að efla nýsköpunarhugsun nemenda og örva þá til skapandi verka. Þá er farið yfir kenningar í nýsköpun og beitingu þeirra og hvernig breyta megi nýstárlegum hugmyndum í viðskiptatækifæri, með tilheyrandi viðskiptaáætlunum.
Það setur síðan námskeiðið í enn áhugaverðara samhengi, að nýsköpun gegnir mikilvægu hlutverki á flestum, ef ekki öllum, sviðum samfélagsins. Má sem dæmi nefna aukna sjálfbærni, fjárhagslega farsæld og stafræna umbreytingu sem dæmi um mikilvæga þróun sem krefst nýsköpunar, hvort heldur litið er til fyrirtækja, opinbera geirans eða annarra stofnana.
Allt áhugafólk um nýsköpun og frumkvöðlastarf er hvatt til að mæta á sal Menntaskóla Borgarfjarðar og hvetja þessa ungu og efnilegu námsmenn til dáða. Aðgangur er ókeypis en þátttakendur eru vinsamlegast beðnir um að skrá sig hér til og með 4. apríl.
Að kynningum loknum verður boðið upp á léttar veitingar og tengslamyndum.
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta