Tvö framúrskarandi misserisverkefni 30. maí 2018

Tvö framúrskarandi misserisverkefni

Misserisvarnir fóru fram við Háskólann á Bifröst dagana 17. og 18. maí. Misserisverkefni eru hópverkefni sem nemendur vinna undir leiðsögn kennara og þurfa að verja í kjölfarið fyrir prófnefnd. Tilgangur misserisverkefna er margþættur en þau veita nemendum t.a.m. tækifæri til að dýpka skilning sinn á afmörkuðu sviði og öðlast þannig meiri sérfræðiþekkingu en ella. Þá eru verkefnin oft unnin í nánum tengslum við fyrirtæki og stofnanir og veita þannig innsýn í viðfangsefni og áskoranir atvinnulífsins.

Að þessu sinni voru átján hópar sem unnu misserisverkefni eða um 90 nemendur. Jöfn skipting var á milli deilda og þar af leiðandi níu hópar í hvorri deild. Greinilegt er að nemendur leggja mikinn metnað í vinnuna og voru mörg verkefnin mjög vel unnin. Tveir hópar hlutu verðlaun fyrir besta misserisverkefni sinnar deildar þ.e. eitt úr hvorri deild skólans.

Verðlaunahópurinn úr félagsvísinda- og lagadeild fjallaði um lögmæti rafrænna auðkenna og skilríkja. Hópinn skipuðu Kristófer Kristjánsson, Rósalind Guðmundsdóttir, Sonja Hafdís Pálsdóttir, Steinþór Jón Gunnarsson, Vignir Már Sigurjónsson og Þórarinn Halldór Óðinsson og leiðbeinandi hópsins var Ari Karlsson.

Verðlaunahópur viðskiptadeildar fjallaði um straumhvörf í ferðaþjónustu, einkennandi þætti í stjórnun og stefnumótun lítilla og meðalstórra fyrirtækja sem hafa náð árangri innan upplifunarferðaþjónustu á Íslandi. Þann hóp skipuðu Ástrós Hákonardóttir, Gísli Páll Karlsson, Helena Rós Tryggvadóttir, Pétur Steinn Pétursson og Vera Dögg Höskuldsdóttir og var leiðbeinandi hópsins Brynjar Þór Þorsteinsson .  

Venjan er sú að veitt er sérstök viðurkenning fyrir framúrskarandi misserisverkefni. Báðir ofangreindir hópar fengu slíka viðurkenningu að þessu sinni en hóparnir voru hnífjafnir og því ómögulegt að gera upp á milli. Auk viðurkenningarinnar fá hóparnir plakat um verkefnið sem mun prýða ganga háskólans. 

Fleiri myndir má nálgast hér.  

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta